Posted on

Sumarferð GÍ farin 8. ágúst

Árleg sumarferð Garðyrkjufélagsins verður farin 8. laugardaginn ágúst næstkomandi og liggur leiðin að þessu sinni um Borgarfjörð þar sem margt gróðurkyns er að sjá. 

Lagt verður af stað frá Síðumúla 1 kl. 9,00 og ekið sem leið liggur í Borgarnes. Þar verður Skallagrímsgarður skoðaður og einn garður í einkaeign.  Komið verður við í gróðrarstöðinni Gleym-mér-ei rétt ofan við Borgarnes þar sem Sædís Guðlaugsdóttir á móti hópnum og bíður upp á kaffisopa.  Hún er með mikið úrval fjölærra plantna. Myndin hér að neðan er úr Gleym-mér-ei, fengin að láni frá héraðsblaðinu Skessuhorni. 

Næsti viðkomustaður er Reykholt.  Þar snæðum við hádegisverð á Fosshóteli.  Eftir hádegismat mun séra Geir Waage leiða okkur í allan sannleika um sögu Reykholts.

Frá Reykholti liggur leiðin til  Hvanneyrar.  Þar göngum við um staðinn undir leiðsögn Árna Snæbjörnssonar sem verður fararstjóri í ferðini ásamt Sigríði Héðinsdóttur en bæði þekkja svæðið eins og handarbökin á sér.  Þeir sem vilja geta svo kíkt á Landbúnaðarsafnið og í Ullarselið.

Síðasti viðkomustaður er Ferjukot við Hvítá.  Gaman er að fara yfir gömlu Hvítárbrúna.  Í Ferjukoti tekur Heba  Magnúsdóttir á móti okkur og sýnir sinn fallega heimilisgarð.

Heimkoma um kl. 19,00.