Árleg sumarferð Garðyrkjufélagsins verður farin 8. laugardaginn ágúst næstkomandi og liggur leiðin að þessu sinni um Borgarfjörð þar sem margt gróðurkyns er að sjá.
Lagt verður af stað frá Síðumúla 1 kl. 9,00 og ekið sem leið liggur í Borgarnes. Þar verður Skallagrímsgarður skoðaður og einn garður í einkaeign. Komið verður við í gróðrarstöðinni Gleym-mér-ei rétt ofan við Borgarnes þar sem Sædís Guðlaugsdóttir á móti hópnum og bíður upp á kaffisopa. Hún er með mikið úrval fjölærra plantna. Myndin hér að neðan er úr Gleym-mér-ei, fengin að láni frá héraðsblaðinu Skessuhorni.
Næsti viðkomustaður er Reykholt. Þar snæðum við hádegisverð á Fosshóteli. Eftir hádegismat mun séra Geir Waage leiða okkur í allan sannleika um sögu Reykholts.
Frá Reykholti liggur leiðin til Hvanneyrar. Þar göngum við um staðinn undir leiðsögn Árna Snæbjörnssonar sem verður fararstjóri í ferðini ásamt Sigríði Héðinsdóttur en bæði þekkja svæðið eins og handarbökin á sér. Þeir sem vilja geta svo kíkt á Landbúnaðarsafnið og í Ullarselið.
Síðasti viðkomustaður er Ferjukot við Hvítá. Gaman er að fara yfir gömlu Hvítárbrúna. Í Ferjukoti tekur Heba Magnúsdóttir á móti okkur og sýnir sinn fallega heimilisgarð.
Heimkoma um kl. 19,00.