Posted on

Stórverkefni um ræktun í heimagörðum hrundið af stað

Áhugasamir Suðurnesjamenn á námskeiðinu um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu í heimagörðum.
Áhugasamir Suðurnesjamenn á námskeiðinu um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu í heimagörðum.

Stórverkefni Garðyrkjufélagsins um ræktun í heimagörðum var ýtt úr vör í Keflavík í gær þar sem vaskur hópur áhugasamra heimamanna sat fyrsta námskeiðið um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu.

    Námskeiðið í Keflavík í gærkvöld tókst afar vel og fóru áhugasamir ræktendur heim fullir visku og tilhlökkunar. Ætlunin er að halda annað námskeið í Keflavík í haust og fjalla þá um moltugerð og haustverkin í garðinum.

    Þessi námskeið eru fyrsti hluti þriggja ára verkefnis, sem nýtur stuðnings Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, snýr að matjurtarækt í heimagörðum. Farið er yfir öll helstu atriði sem snúa að undirbúningi garða, sáningu, ræktun og uppskeru.

    Með þessu verkefni vill Garðyrkjufélagið stuðla að aukinni þátttöku í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu með því að ráðast í víðtæka fræðslu og vitundarvakningu á landsvísu um kosti garðræktar sem samfélagslega aðgengilegrar og jákvæðrar aðgerðar í loftslagsmálum fyrir alla landsmenn. Áhersla er lögð á að tengja garðrækt við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.

    Fjórar landshlutadeildir félagsins taka þátt í verkefninu – deildirnar í Keflavík, á Akranesi, Ólafsfirði og í Skagafirði. Að auki verður haldið námskeið fyrir áhugasama íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

    Veirufaraldurinn tafði svolítið að farið væri í gang en í ljósi þess að margir kaupa tilbúnar plöntur til að setja í garðinn í stað þess að sá fræjum, var ákveðið að fara af stað núna.

    Næstu tvö námskeið verða haldin á Ólafsfirði og í Skagafirði um komandi helgi, laugardag og sunnudag.

    Haldið verður námskeið í húsi Garðyrkjufélagsins í Reykjavík mánudaginn 22. júní og hið síðasta að þessu sinni á Akranesi þriðjudag 23. júní. Þessum námskeiðum verður fylgt eftir með haustnámskeiði, eins og í Keflavík.

    Námskeiðin eru öllum opin og er aðgangur ókeypis.

 

Guðríður Helgadóttir, varaformaður Garðyrkjufélagsins, er meðal helstu fyrirlesara á námskeiðum félagsins um tengsl garðræktar við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.
Guðríður Helgadóttir, varaformaður Garðyrkjufélagsins, er meðal helstu fyrirlesara á námskeiðum félagsins um tengsl garðræktar við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.