Posted on

Tungumál garðyrkjunnar: viðskiptavinirnir – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Sérhvert fag, sama hvaða nafni það nefnist, hefur á að skipa fagorðum sem eru lýsandi fyrir sérstöðu fagsins á einn eða annan hátt. Fagorð þessi geta til dæmis náð yfir hluti eins og verkfæri eða hugtök eða athafnir sem tengjast faginu. Fagmennirnir eru auðvitað með sitt tungumál á hreinu en oft kemur babb í bátinn þegar viðskiptavinirnir ætla að láta ljós sitt skína. Garðyrkja er þar engin undantekning og oft koma fram grátbroslegar afbakanir á orðum sem garðyrkjufólki eru töm en eru ekki endilega hluti af daglegum orðaforða almennings.

     Orðið ,,fjölær” er dæmi um slíkt. Fjölærar plöntur eru plöntur sem lifa í mörg ár. Yfirleitt er þá verið að tala um jurtkenndar plöntur sem vaxa upp að sumri til, blómstra, þroska aldin og falla svo niður að vetri til. Næsta sumar taka þær aftur við sér, vaxa upp, blómstra, þroska aldin og svo koll af kolli. Í raun og veru eru tré og runnar líka fjölærar plöntur því þessir plöntuhópar lifa lengur en tvö ár. Þetta orð er því gegnsætt og merking þess rökrétt. Viðskiptavinir gróðrarstöðva eru þó margir að stíga sín fyrstu spor í ræktun og hafa kannski ekki tileinkað sér svona fagorð.

     Hér á eftir eru dæmi um afbakanir á þessu orði og hugsanleg merking á afbökuninni fylgir á eftir, innan sviga. Komið hafa fram beiðnir um ,,fjölærðar” plöntur (margar plöntur settar saman í hóp og öskrað á þær þar til þær hreinlega ærast), ,,fjölhærðar” plöntur (með mörgum hárum, hugsanlega verið að biðja um loðvíði, loðkvist eða einhverjar aðrar loðnar plöntur), ,,fjölyrtar” plöntur (plöntur sem samkjafta ekki, hafa tekið auglýsinguna ,,Látið blómin tala” bókstaflega), ,,fjölhæfar” plöntur (er margt til lista lagt, geta haft ofan af fyrir eigendum sínum með ýmsum hætti) og ,,fjölrænar” plöntur (andstaðan við einrænar, eru ákaflega félagslyndar).

     Birki úr Bæjarstaðaskógi hefur komið ákaflega vel út í ræktun sunnanlands og var lengi vel til sölu hjá garðplöntuframleiðendum. Á merkimiðum var gjarnan skammstafað Bæjarst.birki og vissu innanbúðarmenn hvað við var átt. Því vakti það nokkra kátínu þegar kona ein hringdi í ónefnda gróðrastöð og bað um bæjarstjórabirki. Hugmyndin er ef til vill ekki svo slæm, hugsanlega mætti nota þetta til flokkunar á birkiplöntum, efst trónir borgarstjórabirki, svo bæjarstjórabirki, þá sveitarstjórabirki og síðast en ekki síst kæmi svo oddvitabirkið.

     Allar plöntur hafa alþjóðlegt latneskt plöntuheiti og þannig getur garðyrkjufólk um allan heim borið saman bækur sínar varðandi ræktun á tilteknum tegundum. Þessi latnesku heiti eru þó hálfgert torf í daglegu tali og mun auðveldara að nota íslensk heiti. Íslensku heitin og beygingar á þeim geta þó líka vafist fyrir fólki. Þannig er ekki óalgengt að þegar viðskiptavinir vilja fá fleiri en eitt stykki af morgunfrú þá biðji þeir um nokkrar morgunfrýr. Brúðarauga er ákaflega fallegt fínlegt sumarblóm í bláum, bleikum og hvítum litum. Það hefur verið kallað ýmsum nöfnum, sumir vilja fá brúðarslör, aðrir brúðareyra og einn viðskiptavinur bað um glóðarauga og vildi hafa það blátt…

Fjölæru plönturnar fá oft á tíðum skemmtileg nöfn eins og fótaskinn og fjandafæla en stundum hefur maður það á tilfinningunni að nafngefandinn sé tunguliprari en fólk er flest. Kannski er tilvalið að líta á það sem æfingu í tunguleikfimi að biðja um þrjátíu og þrjá luðrukofra eða þrettán snoðhnyðrur.

     Afgreiðslufólk í gróðrarstöðvum þarf að vera vel með á nótunum og í sumum tilfellum að hafa dálítinn skammt af dulrænum hæfileikum til að viðskiptavinirnir fái örugglega réttu plönturnar, viðskiptavinurinn verður jú að vera ánægður með þjónustuna. Erfið verkefni eru ögrandi og reyna oft á hugvit afgreiðslufólks. Eitt erfiðasta verkefni sem rekur á fjörur afgreiðslufólks og getur virkilega reynt á tengsl þess við huliðsheima er hugsanlega falið í eftirfarandi setningu: ,,Ég er að leita að ákveðnu blómi, það blómstrar með svona gulum blómum, áttu það til?”

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2000)