Draumatré okkar Íslendinga er í laginu eins og tré í litabókum. Það hefur beinan, kröftugan stofn og breiða og gróskumikla krónu. Greinar krónunnar eru það voldugar að auðvelt er að hengja í þær rólu auk þess sem þær bjóða upp á fjölbreyttar æfingar í klifri. Trjákrónan sjálf er svo umfangsmikil að íslensk stórfjölskylda getur setið undir trénu í forsælunni og forðað sér undan heitri sólinni um miðjan daginn. Draumatré okkar Íslendinga er garðahlynur.
Garðahlynur, Acer pseudoplatanus, er ættaður frá Evrópu og vestur í vestasta hluta Asíu. Hann vex einkum í fjalllendi í heimkynnum sínum og getur þar náð allt að 40 m hæð. Á Íslandi eru hæstu hlynir rétt um 15 m háir. Krónan verður stór og hvelfd og þarf hlynurinn mikið og gott rými til að hann njóti sín til fulls. Blöðin eru stór og handsepótt og minna á aðra trjátegund, Platanus en þaðan kemur einmitt merking
tegundarheitis garðahlynsins, pseudoplatanus sem þýðir ,,eins og Platanus”. Garðahlynur er af hlynsættinni, Aceraceae en innan hennar eru tvær ættkvíslir, Acer og Dipteronia sem samtals innihalda um 100 tegundir plantna sem aðallega er að finna á tempruðum svæðum norðurhvels jarðar. Eitt af sameiginlegum einkennum hlyntegunda er lögun blaðanna en þau eru handsepótt til handflipótt. Stærð blaðanna er mjög mismunandi milli tegunda og einnig er fjöldi flipa eða sepa mismikill.
Garðahlynurinn fær oft sérlega fallega gula haustliti, í haustsólinni er jafnvel eins og hann standi í ljósum logum. Fræin eru einkennandi fyrir ættkvíslina. Þau eru föst saman tvö og tvö og á hverju fræi er vængur. Vængir fræjanna mynda hvasst horn eða allt að því rétt horn (60-90°) hver við annan og er þetta atriði oft notað til að greina sundur mismunandi hlyntegundir. Þegar fræið fellur til jarðar gerir vængurinn það að verkum að það eins og skrúfast niður og getur þannig lent í dálítilli fjarlægð frá móðurplöntunni. Í heimkynnum sínum getur garðahlynurinn orðið eldgamall eða 400-500 ára þannig að íslensku plönturnar eru flestar hverjar rétt á táningsaldri.
Garðahlyni er yfirleitt fjölgað með fræi. Margir þroskaðir garðahlynir ná að mynda gott fræ hérlendis og jafnvel eru dæmi um það að þeir sái sér í görðum sem hreinasta illgresi. Sáningin þarf að fara fram að hausti til sama ár og fræið þroskast því það geymist mjög illa og inniheldur einnig svolítið af spírunarhindrandi hormónum sem brotna smám saman niður yfir veturinn. Að vori spírar fræið og geta sáðplönturnar vaxið um nokkra tugi sentimetra yfir sumarið. Í nágrannalöndum okkar eru til margir fallegir klónar af garðahlyn og er þeim fjölgað með ágræðslu því mjög erfitt er að fjölga hlyn upp af græðlingum, sumir ganga jafnvel svo langt að telja það allsendis ómögulegt.
Sem fyrr segir verður garðahlynurinn stórt og mikið tré og á það einnig við um rótakerfið, það gengur mjög djúpt niður í jarðveginn. Þess vegna þarf jarðvegurinn að vera vel djúpur og frjósamur því garðahlynurinn er frekur til matar síns. Því er mikilvægt að undirbúa jarðveginn mjög vel áður en garðahlynur er gróðursettur og búa hann undir lífið með ríkulegt nesti af lífrænum áburði og kalki.
Tískusveiflur í plöntuvali hafa haft áhrif á ræktun garðahlyns á Íslandi. Hlynurinn vex hægt og getur kalið illa á haustin ef frystir snemma. Fyrstu árin eftir að tréð er gróðursett í garði geta því verið dálítið erfið, bæði fyrir tréð og fyrir óþolinmóða eigendur þess. Nú á síðari árum í kjölfar aspafársins mikla hafa hægvaxta tré fengið uppreisn æru og fara vinsældir garðahlyns vaxandi ár frá ári. Í flestum tilfellum er garðahlynur fluttur inn til Íslands frá Evrópu, oftast Danmörku. Þessar innfluttu plöntur eru misduglegar við það að aðlaga sig að íslensku loftslagi og geta kalið illa fyrstu árin. Plöntur sem ræktaðar eru upp af íslensku fræi eru ekki endilega betri en þær innfluttu því fræmæðurnar eru jú af sama uppruna. Garðeigendur ættu þó ekki að hræðast það að fá sér garðahlyn í garðinn sinn, hann sýnir það strax í upphafi hvort hann fellir sig við íslenskt veðurfar eða ekki.
Margar aðrar hlyntegundir eru vinsælar garðplöntur og eru þær ýmist ræktaðar vegna blaðanna eða barkarins. Sumar hlyntegundir hafa börk með ákaflega fallegu mynstri og hafa því verið nefndir slönguskinnshlynir (snake bark maples). Kanadamenn láta sér þó ekki nægja að dást að hlyntrjánum úr fjarlægð. Sykurhlynur (Acer saccharum) hefur ákaflega sætan plöntusafa sem notaður er til að búa til hlynsýróp en eins og sigldir Íslendingar vita er það algerlega nauðsynlegt út á amerískar pönnukökur. Hér í lokin fylgir því sérlega einföld og ljúffeng uppskrift að slíku hnossgæti:
3 bollar hveiti,
1 bolli sykur,
1 egg,
1 tsk matarsódi,
mjólk eftir þörfum,
slatti af bláberjum ef árstíminn leyfir.
Allt hrært saman og deigið haft fremur þykkt. Pönnukökurnar eru steiktar á pönnu og bornar fram með smjöri, osti og hinu ómissandi hlynsýrópi.
Verði ykkur að góðu!
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)