Veturinn er genginn í garð með tilheyrandi tilþrifum, hálku á Hellisheiði, eldgosi í Grímsvötnum, ófærð á Vestfjörðum, verkfalli grunnskólakennara og auðvitað skammdeginu. Garðar landsmanna eru ekki lengur grænir og blómlegir heldur hafa flestar plöntur fellt laufið, eftir standa sígrænu drottningarnar sem ekkert virðist hrína á. Kuldaboli breiðir ískalda sæng sína yfir allt og eftir standa naktar plöntur, visin grös og garðeigendur með gæsahúð. Það er þó ekki eintómt svartnætti í görðunum, öðru nær því margar plöntur eru einmitt í sínum fegursta búningi að vetrarlagi. Þegar laufin falla og berar greinar og stofnar blasa við kemur ýmislegt í ljós.
Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar einblínt á blómgun og blaðfegurð plantna enda hefur veturinn yfirleitt verið svo harður og erfiður að enginn maður með fullu viti hefur hætt sér út í garð að vetrarlagi. Nú hefur hins vegar hlýnað verulega í veðri, þökk sé gróðurhúsaáhrifunum og veturinn orðinn eins og langt haust, bara svolítið meira myrkur. Því færist það í vöxt að fólk rölti með kaffibollann út á sólpallinn á fögrum haustdögum og virði fyrir sér gróðurinn í garðinum.
Skemmtilegt vaxtarlag plantna er algert lykilatriði, eigi plönturnar að grípa augað yfir veturinn. Plöntur með bogsveigðar greinar eins og til dæmis sunnukvistur og loðkvistur eru mjög tignarlegar að vetrarlagi. Ýmsar ágræddar plöntur eru einnig mjög skemmtilegar, sérstaklega þegar greinar skriðulla plantna eru ágræddar á háan stofn, áhrifin minna mann óneitanlega á hárkollu á kústskafti eða skúringamoppu, bara mun fallegra og þokkafyllra.
Það sem heillar þó mest yfir vetrartímann, þegar grái liturinn er ríkjandi í umhverfinu, eru plöntur með fallegan börk. Ýmsar tegundir trjáplantna eru með ákaflega fallega litan börk, oft gljáandi og eru þannig sérstaklega aðlaðandi að vetrarlagi.
- Íslenska birkið hefur löngum þótt fallegt á veturna. Barkarlitur birkisins er mjög fjölbreyttur, allt frá mjög dökkum berki sem er nærri því svartur, yfir í gljáandi rauðbrúnan börk yfir í mjallahvítan börk sem hreinlega lýsir upp umhverfi sitt. Hinn hvíti börkur birkisins er einmitt sá eftirsóttasti og tré með hvítan börk rjúka eins og heitar lummur í gróðrarstöðvum.
- Næfurheggur, Prunus maackii, er önnur tegund sem vert er að rækta vegna barkarins. Börkur næfurheggs er kanilbrúnn og gljáandi og næfrar af í löngum ræmum eftir því sem tréð gildnar. Þessi heggtegund hefur verið ræktuð á Íslandi í þó nokkurn tíma og hefur sýnt góð þrif við venjulegar garðaaðstæður. Hann verður um það bil 4-6 m hár og er með fremur opna greinabyggingu. Þetta er því tré sem hentar sérstaklega vel í litla garða.
- Snælenja, Nothofagus antarctica, er fremur viðkvæm trjátegund sem þrífst einkum í skjólbetri görðum. Snælenjan er með mjög dökkan börk sem er alsettur hvítum þverrákum, svokölluðum barkaropum eða korkopum og eru þessar rákir mjög áberandi í berkinum. Þetta er tré sem getur líklega orðið um 5 m hátt við íslenskar aðstæður, hugsanlega eitthvað hærra á betri stöðum.
- Mjallarhyrnir, Cornus alba ‘Sibirica’ er lágvaxinn runni sem er eiginlega nær eingöngu ræktaður vegna barkarlitar. Litur barkarins á nýjum greinum er hárauður og sérstaklega áberandi að vetrarlagi. Mjallarhyrnir kelur svolítið í görðum en hann nær að koma fram með nýjar greinar yfir sumarið, þessar nýju greinar eru einmitt fallegastar því þær eru auðvitað rauðar, svo ósköp rauðar.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2004)