Sumarblóm í öllum regnbogans litum eru einmitt það sem við Íslendingar þörfnumst eftir grámuggu vetrarins. Fjöldi sumarblómategunda fer eflaust langt með að fylla hundraðið og þar af eru um 30 tegundir algengar í ræktun. Sameiginlegt einkenni sumarblóma er það að þetta eru plöntur sem lifa einungis eitt sumar í íslenskum görðum þótt þær séu margar hverjar fjölærar í heimkynnum sínum. Snemma vors er sáð til þessara tegunda, missnemma eftir því um hvaða tegund er að ræða. Forræktunartími, sá tími sem þarf að rækta plönturnar til að þær verði tilbúnar til útplöntunar að vori, er mislangur. Sumar tegundir þurfa langan ræktunartíma, t.d. stjúpur, ljónsmunni, meyjarblómi og silfurkambur en ef vel á að vera þarf að sá þeim í lok janúar – byrjun febrúar. Aðrar tegundir, eins og skrautnál, morgunfrú og paradísarblóm þurfa stutta forræktun, nóg er að sá til þeirra í byrjun apríl. Blómgunartími sumarblóma er mislangur. Með blómgunartíma er átt við tímann frá því fyrsta blómið lítur dagsins ljós þar til hinsta blómið er fallið. Flestir garðplöntuframleiðendur miða við það að blóm sumarblómanna nái að standa seinni hluta sumars og fram á haustið. Helgast það af því að garðeigendur vilja síður horfa upp á útblómstruð sumarblóm í görðum sínum um mitt sumar.
Nauðsynlegt er að þekkja vel til sumarblómategundanna og lengdar blómgunartíma þeirra. Stjúpur og fjólur standa mjög lengi í blóma, þær eru með fyrstu sumarblómunum sem byrja að blómstra á vorin og standa fram í frost á haustin. Þannig er blómgunartími þeirra 4-5 mánuðir og við góð skilyrði getur hann orðið enn lengri. Ljónsmunni sem sáð er til í byrjun febrúar byrjar að blómstra upp úr miðjum júní og stendur fram í september. Skrautnál byrjar að blómstra í lok maí og stendur fram í frost. Morgunfrú sem sáð er til í byrjun apríl byrjar ekki að blómstra fyrr en upp úr mánaðamótunum júní-júlí og stendur þá fram í september. Blómgunartími hennar er um 2 mánuðir. Brúðarauga blómstrar frá því snemma í júní og út ágúst. Blómgunartími brúðarauga er því um 3 mánuðir. Meyjarblómi er ein af þeim tegundum sem standa mjög lengi fram á haustið. Hann þarf langan forræktunartíma, fyrstu blómin láta sjá sig í lok júní-byrjun júlí og svo stendur hann álíka lengi og stjúpurnar fram á haustið.
Oft er hægt að kaupa blómstrandi sumarblóm eins og hengi-brúðarauga, dalíur og tóbakshorn upp úr miðjum apríl. Fyrir bráðláta sumardýrkendur eru þessar plöntur eins og vatn handa þyrstum manni. Þegar vorveðrið er milt og gott er ekkert að því að setja þessar plöntur beint út í garð en þó ber að hafa varann á sér og kippa þeim inn fyrir ef kólnar snögglega. Eins ættu menn að hafa í huga að þar sem blómgunartími plantna er ekki óendanlega langur getur verið að þessar tegundir klári sinn blómgunartíma á miðju sumri. Þá er um að gera að endurnýja í pottunum því fátt er sorglegri sjón en tómir blómapottar um hásumar.
Í stórum dráttum má skipta algengustu sumarblómum í flokka eftir blómgunartíma þannig:
4-5 mánuðir: Stjúpur, fjólur, meyjarblómi, skrautnál.
3-4 mánuðir: Brúðarauga, ljónsmunni, flauelisblóm, tóbakshorn, apablóm,
daggarbrá.
2-3 mánuðir: Fiðrildablóm, paradísarblóm, járnurt, dalíur, morgunfrú, hádegisblóm,
kornblóm, ilmskúfur.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)