
Alla hluta ársins er hægt að finna sér eitthvað garðyrkjutengt að gera og oftar en ekki hægt að finna eitthvað til að dásama. Við notum því síðsumarið til að njóta. Fleira er þó fallegt en blómin. Haustlitir spila æðislega sinfóníu fyrir okkur og um svipað leiti má oft finna fögur fiðrildi sem hafa flækst hingað með haustlægðunum.
Hvert ár hefur 52 vikur og því tók ég sama fjölda mynda og smellti hér inn í nokkrum skömmtum. Tilvalið þótti mér að bjóða ykkur upp á smáréttahlaðborð með nokkrum bitum frá árinu 2019 og kemur því þriðji skammtur af 4 hér. Reyndar bættust nokkrir konfektmolar við á lokametrunum, svo við förum kannski rétt aðeins yfir 52stk.
En, við ætlum ekki alveg að skella okkur í haustið strax. Núna er komið að fyrri uppskerumánuðinum, ágúst. Athugið að myndirnar stækka, sé smellt á þær. Í sumum tilfellum er það nauðsynlegt til að sjá alla myndina.
Í rósagarði Meltungu í Kópavogi brosti þessi fagra David Austin runnarós svona glatt þegar mig bar að garði einn ágúst dag. „Góðan dag, ég heiti ‘The Lark Ascending’“ hvíslaði hún að mér gegnum brosið. Blendingsrósin frá finnsku járnbrautarstöðinni í Ristinummi (Rosa ‘Ristinummi’) blómstrar hér fallega í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði seint í ágúst. Stundin áður en safaríkt hindber nærði mig í garðinum og logalaukurinn (Allium flavum) í bakgrunni fylgdist með öllu saman. Hér blandast venusvagn (Aconitum napellus), útlagi (Lysimachia punctata) og birki fallega saman í garðinum. Svei mér þá ef ummerki birkiþélu (Scolioneura betuleti) passa ekki bara ágætlega þarna… Talandi um birkiþélu, sú kemur síðsumars, öfugt við birkikembuna sem mætir þegar brumin opnast. Birkiþélan þekkist hér m.a. á því að úrgangur hennar er í kornaformi. Úrgangur birkikembu er í þráðformi. Draumsólin (Papaver somniferum) fagra hefur vafalítið notið þessarar heimsóknar glersveifunnar (Eupeodes lundbecki) og sjálfur naut ég tækifærisins að fylgjast með þeim báðum í senn. Glersveifan er auðvitað vingjarnleg og meinlaus okkur, en lirfur hennar raða í sig blaðlúsum og eru því ávallt vinsælar hjá mér. 4 stig hindbers.
Fyrst kemur blómið, svo vex ávöxtur. Því næst þroskast ávöxturinn og að lokum er hann borðaður.Feitlaginn? Nei, bara útlaginn. Hér er í gangi smá partý með garðamaríustakknum. Hress útlagi stillir sér upp fyrir ljósmyndara, með vinahópinn í bakgrunni. Meðal berjauppskeru ágúst mánaðar er auðvitað að finna hið ljúffenga rauðrifs !