Þeir sem hafa einhvern tíma komið að matargerð á Íslandi þekkja eflaust matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur. Helga var ákaflega dugleg við að kynna matargerðarlistina fyrir landanum og eitt af því sem hún lagði mikla áherslu á var að kynna notkun grænmetis og ávaxta fyrir almenningi. Íslendingar voru almennt ekki mikið fyrir aðra fæðu en kjöt og fisk, kartöflur og rófur áttu reyndar upp á pallborðið hjá okkur og voru í mörgum tilfellum aðaluppistaðan í fæðinu en aðrar plöntuafurðir slógu ekki í gegn fyrr en seint á síðustu öld. Helga átti ugglaust sinn þátt í því að kynna fæðutegundir eins og tómata og gúrkur fyrir landanum og hún skrifaði bók sem náði talsverðri útbreiðslu, bókin nefndist Grænmeti og ber allt árið en var í daglegu tali gárunga nefnd Ber allt árið. Það er einmitt viðfangsefni þessa greinarkorns, notkun á berjum.
Ýmsar tegundir berja hafa verið ákaflega vinsælar í gegnum tíðina hérlendis. Þar má nefna innlendu tegundirnar bláber, krækiber, hrútaber og jarðarber og af innfluttum tegundum hafa sólber og rifsber notið mestra vinsælda og stikilsber hafa verið nokkuð notuð af þeim sem setja illvíga gaddana ekki fyrir sig. Eins og lýðum er ljóst eru mikið fleiri tegundir trjáa og runna sem framleiða aragrúa berja síðla sumars. Í þeim flokki eru margar tegundir sem mætti nýta miklu meira en gert er, til dæmis til sultugerðar eða í líkjöra. Rétt er að taka fram að ekki er hægt að nota allar tegundir berja í sultu, til er tegundir sem eru ákaflega eitraðar og því betra að sneiða hjá þeim (nema fólk sulti í einhverjum annarlegum tilgangi). Ber töfratrjáa, Daphne mezereum, eru til dæmis mjög eitruð og talað um að þurfi einungis 10-15 ber til að drepa fullorðinn karlmann. Þau eru hins vegar svo skelfilega vond á bragðið að enginn heilvita maður leggur sér þau til munns nema einu sinni.
Innan rósaættarinnar má finna ákaflega margar góðar tegundir sem menn hafa nýtt í gegnum tíðina. Þar má nefna ýmsar ávaxtategundir eins og epli, perur, ferskjur, apríkósur og fleira í þeim dúr. Einnig eru þar tveir ágætir hópar plantna sem þrífast með miklum ágætum á Íslandi og mætti nýta mikið meira en gert er en það eru rósir og reyniviður.
Aldin rósa nefnast nýpur og eru þær ákaflega C-vítamínríkar. Raunar hefur því verið haldið fram að upphaflega hafi rósir fyrst og fremst verið ræktaðar vegna aldinanna. Margar rósategundir framleiða mikið magn af nýpum hérlendis og alveg tilvalið að nota þær í sultur. Bragðið af hráum nýpum minnir mikið á appelsínur. Þegar nýpur eru notaðar í sultur þarf að hreinsa fræin úr nýpunum, þau eru frekar stór og hörð og leiðinlegt að hafa þau með í sultuna. Rósasulta er hins vegar ákaflega góð og margar uppskriftir til af henni.
Reyniber eru til í mörgum litum og hafa menn lengi vel notað hin rauðu ber ilmreynis í sultur sem passa vel með villibráð og svínakjöti. Koparreynir og kasmírreynir eru hins vegar tegundir sem koma með hvít ber og eru þau ber alls ekki síðri í sultugerð en ilmreyniberin. Það skemmtilega við þessi hvítu ber er að sultan verður bleik eða rauð, sem kemur svolítið á óvart.
Reyniberjasulta á það til að vera svolítið römm ef maður notar einungis reyniber í sultuna og til að mýkja bragðið og gera það mildara er gott að nota epli til allt að helminga á móti berjunum, þegar þau eru soðin niður. Uppskrift að svona sultu gæti verið 500 g reyniber, 500 g epli og 500-750 g sykur, allt eftir því hvað sultan á að vera sæt. Ber og epli soðin saman í svolitla stund í potti með ca botnfylli af vatni, gumsið svo síað í gegnum klút til að losna við hratið. Safinn er svo settur aftur í pott með sykri og soðinn þar til sykurinn hefur leyst upp. Stundum þarf að bæta hleypiefni saman við en ef maður sýður berjaklasana heila með eplunum fæst oft svolítið hleypiefni úr þeim. Hlaupið er svo sett á krukkur og þeim lokað strax. Nú er bara um að gera að prófa sig áfram með sultun á hvítum berjum.
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)