Posted on

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands var haldinn 30.ágúst 2021.
Á fundinum var auk hefðbundinna aðalfundarstarfa kosinn nýr formaður félagsins og tveir nýir stjórnarmenn.

Var Lárus Sigurður Lárusson kjörinn nýr formaður félagsins og tekur hann við af fráfarandi formanni, Ómari Valdimarssyni, sem mun áfram sitja í ritnefnd Garðyrkjuritsins.

Ný í stjórn hlutu kosningu þau Konráð Lúðvíksson og Þóra Þórðardóttir en nýir varamenn voru kjörnir þeir Gísli Tryggvason og Sigurbjörn Einarsson. Áfram sitja í stjórn félagsins þau Guðríður Helgadóttir, Eggert Aðalsteinsson og Kristján Friðbertsson.

Nýr formaður félagsins, Lárus Sigurður starfar sem lögmaður alla jafna. Hann er einnig formaður stjórnar Menntasjóðs námsmanna og hefur sinnt ýmsum félags- og
trúnaðarstörfum í gegnum tíðina. Hann er giftur Sævari Þór Jónssyni, lögmanni og MBA, og saman eiga þeir einn son.

Garðyrkjufélag Íslands er eitt af elstu félagasamtökum landsins, stofnað árið 1885. Félagið hefur starfað óslitið í 136 ár og á þeim tíma staðið fyrir öflugri fræðslu- og útgáfustarfsemi, þ.m.t. útgáfu Garðyrkjuritsins. Félagið starfrækir bæði bóksölu og bókasafn, sem geymir fjölda bóka sem margar hverjar eru ófáanlegar annars staðar. Þá rekur félagið einnig fræbanka sem aðgengilegur er á heimasíðu félagsins: https://gardurinn.is.

Garðyrkjufélagið þakkar fráfarandi formanni og stjórnarmönnum gott og farsælt starf og býður nýtt fólk velkomið til starfa.