Posted on

Trillium – þristar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þristar eða Trillium ættkvíslin eins og hún nefnist á latínu er ættkvísl um 40-50 tegunda plantna sem ættaðar eru frá N-Ameríku og Asíu. Ættkvíslin tilheyrir liljuætt, rétt eins og liljur og túlípanar.Þetta eru yfirleitt skógarbotnsplöntur sem blómstra snemma á vorin, áður en skógurinn laufgast og inngeislun sólar nær ekki niður á skógarbotninn. Þristarnir nýta sem sagt vorsólina til blómgunar.

     Þristirnir mynda þykka jarðstöngla og er það sérstakt við þessar plöntur að utan um jarðstöngul þristanna vefjast pappírskennd blöð sem eru hin eiginlegu laufblöð plantnanna. Upp úr jarðstönglinum kemur svo blómstöngullinn og efst á honum er eitt blóm. Blómið er samsett úr þremur krónublöðum og þar fyrir neðan eru þrjú bikarblöð. Fyrir neðan blómið sjálft eru svo þrjú græn blöð sem flokkast ýmist sem háblöð eða reifablöð (nú verður maður að bregða undir sig betri fætinum í grasafræðinni svona í byrjun sumars) og þessi blöð ljóstillífa. Blómin eru ákaflega stór og áberandi og plönturnar sérstaklega fallegar á vorin þar sem þær stinga upp kollinum í laufskóginum. Blómin geta verið í ýmsum litum, frá hvítu yfir í bleikt og rautt og jafnvel í gulum eða grænleitum litum. Til eru tegundir sem blómstra tvílitum blómum.

     Þristar eru dæmigerðar skógarbotnsplöntur í laufskógum. Þær vilja myldinn, loftríkan og næringarríkan jarðveg og hann verður jafnframt að vera hæfilega rakur. Í tempraða beltinu, en þaðan eru þristar ættaðir, eru vorin gjarnan hlý og vætusöm og slík veðrátta hentar þeim ákaflega vel.

     Mjög auðvelt er að fjölga þristum með því að skipta jarðstönglunum niður en rétt er að fara frekar varlega í skiptinguna því það getur tekið plöntuna nokkurn tíma að jafna sig eftir slíkar aðfarir. Fræfjölgun er einnig möguleg en hún er tímafrek og fræið vandmeðfarið þannig að fyrri kosturinn er mun heppilegri. Þess má geta að í heimkynnum þrista sjá mýs og maurar um það að dreifa fræjum þristanna. Á fræjunum eru sérstök forðalíffæri sem eru sneisafull af næringarefnum sem maurar og mýs sækjast í. Maurarnir safna fræjunum saman, éta forðalíffærin og skilja svo fræin sjálf eftir eins og hvern annan úrgang. Fræin spíra svo í rólegheitunum og þannig dreifast þristategundirnar yfir stærra svæði en ella.

     Víða er stranglega bannað að tína blóm af þristum vegna þess að blöðin þrjú á blómstönglinum eru eini möguleiki plöntunnar til að afla sér næringar. Plantan getur því hreinlega dáið eða að minnsta kosti þarf hún mörg ár til að jafna sig, gerist einhver gráðugur til blómanna.

     Skógarþristur, Trillium grandiflorum, hefur verið ræktaður á Íslandi um árabil. Sýnir hann ágætis þrif, að minnsta kosti sunnanlands þar sem veðráttan er ekki ósvipuð og í heimkynnum plantnanna. Best er að gróðursetja skógarþrist í gisin trjábeð þar sem plönturnar njóta skjóls af trjánum og jarðvegurinn uppfyllir kröfur plantnanna. Skógarþristurinn blómstrar snjóhvítum blómum snemma á vorin og er auðveldur í ræktun.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)