Posted on

Umhverfisáhrif garðyrkju – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Orðið umhverfisáhrif vekur upp nettan hroll í huga mér og sennilega fleiri unnenda íslenskrar náttúru. Þetta orð er líka einatt notað í umræðu um álver, virkjanir eða aðrar stórkostlegar framkvæmdir sem breyta umhverfinu verulega, framkvæmdir sem oft á tíðum eru umdeildar og sýnist sitt hverjum um nauðsyn þeirra og mikilvægi. Orðið sjálft er hins vegar í eðli sínu hlutlaust og þegar maður nær úr sér hrollinum kemur í ljós að umhverfisáhrif eru af fjölbreyttum toga, jafnvel jákvæðum.

     Umhverfi er sömuleiðis af mismunandi gerðum. Við getum talað um nærumhverfi sem er þá það umhverfi sem við lifum og hrærumst í á degi hverjum. Þarna getum við litið til vinnustaðar, heimilis eða garðs. Fjærumhverfi er þá umhverfi í stærra samhengi, það getur verið hverfið eða sveitarfélagið sem við búum í, sýslan eða landið allt. Það umhverfi sem hefur einna mest áhrif á daglegt líf okkar er auðvitað nærumhverfið. Áhersla okkar á nærumhverfi utandyra hefur vaxið jafnt og þétt síðustu áratugina. Sá einstaki þáttur sem hefur haft mest áhrif á líðan okkar utandyra er gróður. Með gróðrinum kemur skjólið og í skjólinu dafnar mannlífið. Þarna erum við að ræða um bein áhrif gróðurs á umhverfið, því hærri og þéttari sem gróðurinn er því líklegri er hann til að draga úr vindálagi. Ísland er talið fremur vindasamt og nú er svo komið að almennt er viðurkennt að skjólbelti úr plöntum séu af hinu góða. Stofnuð hafa verið félög um ræktun skjólbelta á stórum svæðum þannig að til verður skjólbeltanet sem dregur úr heildarvindáhrifum á viðkomandi svæði.

     Áhrif gróðurs á umhverfi eru af fleiri gerðum. Sjónræn áhrif eru kannski þau augljósustu, það gleður augað að hafa fjölbreyttan gróður í umhverfi sínu og kappkosta menn við það að raða saman plöntum með mismunandi hæð, vaxtarlag, blómlit og blómgunartíma. Það er almennt viðurkennt að vel gróið land sé augnayndi. Gróður hefur hins vegar líka veruleg huglæg áhrif. Fólki líður einfaldlega betur innan um gróður en þar sem gróður er ekki til staðar. Niðurstöður ýmissa rannsókna benda til þess að gróður hafi jákvæð áhrif á andlega líðan sjúklinga og þar með einnig á líkamlega líðan því þar, eins og annars staðar, ber hugurinn mann hálfa leið, í þessu tilfelli í átt að bata.

     Árið 1885, þegar Garðyrkjufélag Íslands var stofnað, hafa bjartsýnustu menn örugglega ekki þorað að vona að vinsældir ræktunar yrðu slíkar sem raun ber vitni. Ræktunartilraunir félaga Garðyrkjufélagsins hafa skilað ómældri þekkingu út í samfélagið, þekkingu sem hefur verið notuð til að breyta nærumhverfi einstaklinganna og um leið hafa sameiginleg áhrif alls þessa einstaklingsframtaks verið þau að heilu bæjarhverfin búa nú við skjól af gróðri. Garðyrkjufélag Ísland er því í raun umhverfissamtök því það vinnur að því að hafa áhrif á umhverfið og það hvernig við upplifum það. Skógrækt á Íslandi hefur óumdeilanlega haft veruleg áhrif á umhverfið. Nú er svo komið að sé farið út í skógrækt á landspildu sem er meira en 200 hektarar þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum. Það er því óumdeilt að gróður hefur áhrif á umhverfið, í mínum huga eru þetta yfirleitt jákvæð áhrif og við félagar í Garðyrkjufélaginu megum vera stolt af okkar framlagi til umhverfismála á Íslandi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)