Haustið er aðal fræsöfnunartíminn fyrir flestar tegundir plantna. Þegar þetta er skrifað stendur einnig yfir sérstakt söfnunarátak á birkifræi. Við viljum hins vegar hvetja alla meðlimi Garðyrkjufélags Íslands til að vera dugleg að safna hinu ýmsa fræi. Sumt er sérlega gaman að rækta aftur en annað er tilvalið að senda inn í fræbanka félagsins. Tekið er við öllu fræi en lykilatriði að það sé þegar flokkað og hver poki/umslag vel merkt tegundinni sem um ræðir.
Algengast er að fræ sé sent til fræbankans með pósti, en í undantekningartilfellum er líka hægt að setja sig í samband við frænefnd (t.d. ef um mikið magn er að ræða) og mæla sér mót.
Hér fyrir neðan má sjá netfang fræbankans og dæmi um upplýsingar sem senda skal með fræinu. Henti það viðkomandi betur er einnig hægt að óska eftir eintaki af sniðmátinu á Excel formi.