Posted on

Sumarferðin 2024

Kæru félagar!

Sumarferð Garðyrkjufélagsins verður farin mánudaginn 15. júlí næstkomandi. Ferðinni verður heitið á Suðurland og nánari dagskrá verður auglýst síðar en að sjálfsögðu verður hún jafn glimrandi skemmtileg og spennandi og undanfarin ár. Guðríður Helgadóttir, formaður GÍ verður fararstjóri.

Lagt verður af stað frá Árbæjarsafni kl. 9 og er áætluð heimkoma um kl. 17 sama dag. Verði er að vanda stillt í hóf og kosta herlegheitin kr. 8.500 á mann, innifalið í því er rúta, hádegisverður á Farmers Bistro á Flúðum (sjá nánar lýsingu hér fyrir neðan) og létt hressing á leiðinni.

Takmarkaður sætafjöldi er í boði (71 sæti í rútunni) og því gildir reglan að fyrstur kemur, fyrstur fær.

Að þessu sinni fer skráningin í ferðina eingöngu fram í vefverslun GÍ þar sem jafnframt er innheimt þátttökugjald. Vefslóðin er: Shop – Garðyrkjufélag Íslands (gardurinn.is).
Opnað verður fyrir skráningar laugardaginn 15. júní kl. 16:00. (ATHUGIÐ, ef pantað er fyrir tvo eða fleiri þátttakendur í einu þarf að setja magnið í vefversluninni jafnt og sætin sem óskað er eftir.)

Sælkerahlaðborð – kaffi & te innifalið
Innifalið í sælkerahlaðborði er sveppasúpa(laktósafrí og glúten laus)
með hvítum matarsveppum,kastaníusveppum og portobello sveppum.
Heimabakað hvítlauksbrauð, súrdeigsbrauð og byggbrauð. Papriku- og
chilli sulta, smjörsteikir sveppir með timian, papriku- og sveppa
tapenade, marenaðir sveppir, smjör, sveppasmjör og hvítlaukssmjör.