Ágætu félagar í Garðyrkjufélagi Íslands,
Það líður að vori og þá verður haldinn aðalfundur Garðyrkjufélagsins, væntanlega um miðjan apríl.
Eins og nærri má geta þarf mörg handtökin til að félagið geti gegnt sínu hlutverki. Sem betur fer er það svo að jafnan eru margir fúsir til að hjálpa til við eitt og annað sem til fellur. Fyrir það þökkum við hjartanlega öllum þeim sem hafa lagt félaginu lið.
Tilefni þessa bréfs er í fyrsta lagi að færa ykkur þakkir – og svo að hvetja fleiri til að leggja hönd á plóg, til dæmis með því að gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins, klúbbum og nefndum.
Á aðalfundi í vor þarf að kjósa nýja stjórnarmenn, þar á meðal formann. Sá er nú situr þarf að draga sig í hlé af persónulegum ástæðum. Rekstur félagsins er kominn í þokkalegt form og fjölmargt skemmtilegt sem bíður nýrrar stjórnar að fást við.
Ef þú, eða einhver sem þú þekkir, hefur áhuga á að leggja félaginu lið með því að taka sæti í stjórn eða nefndum, þá biðjum við þig vinsamlegast að láta okkur vita hið allra fyrsta.
Hið sama gildir um landshlutadeildir og sérklúbba félagsins – Ávaxtaklúbbinn, Matjurtaklúbbinn, Sígræna klúbbinn, Sumarhúsaklúbbinn, Rósaklúbbinn, Blómaskreytingaklúbbinn – allir hafa gott af reglulegri endurnýjun. Fáeinir klúbbar og deildir hafa liðið fyrir það á undanförnum misserum að þar hefur ekki fengist fólk til forustu þótt eftirspurn eftir þjónustu og samstarfi fari stöðugt vaxandi.
Ég hvet ykkur því til að láta hendur standa fram úr ermum og gefið kost á ykkur til starfa í forustusveit Garðyrkjufélagsins!
Með gróðursælum félagskveðjum,
Ómar Valdimarsson
Formaður GÍ