Það vill gleymast þegar fjallað er um kolefnasporið að sennilega eru heimagarðar landsmanna sá þáttur sem skilar hvað mestum ávinningi, ekki síður en skógrækt og landrækt. Grasrót garðyrkjunnar er í heimagörðum Íslendinga í öllum landshlutum enda nánast ekkert hús í landinu þar sem ekki er stunduð ræktun af einhverju tagi. Nægir í því sambandi að minna á að stærsti skógur landsins er í Reykjavík og þar á áhugafólk um garðyrkju stærstan þátt.
Það er því frá mörgu að segja af þessum vettvangi. Nær daglegar fréttir og frásagnir samskiptamiðla sýna svo ekki verður um villst að margar nýjar og áhugaverðar hugmyndir eru í vinnslu í heimagörðum; frá þeim væri gaman að segja í Garðyrkjuritinu. Ekki síst væri gaman að heyra frá fólki sem ekki hefur skrifað í ritið áður – og hafið engar áhyggjur þótt þið teljið ykkur ekki skrifa “nógu vel” – við getum auðveldlega hjálpað til við að gera texta læsilegri.
Við hvetjum alla félaga (og eins þá sem eiga eftir að gerast félagar!) að senda okkur áhugavert efni í Garðyrkjuritið, eina íslenska tímaritið sem helgað er garðyrkju, eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi. Það voru ágætar heimtur á efni í rit yfirstandandi árs og við vonumst til að svo verði áfram.
Vinsamlega sendið efni ykkar – eða hugmyndir um efni – til Kristins fræðslustjóra Garðyrkjufélagsins á netfangið gardyrkjufelag@gardurinn.is