Posted on

Garðyrkjuspjall með Gurrý

Kæru félagar!
Í sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1
Tími: Þriðjudagur 14. janúar kl. 20:00-21:30

Við ætlum að byrja þetta afmælisár á garðyrkjuspjalli og kaffi með okkar einu sönnu Gurrý en hún ætlar sjálf að baka fyrir okkur eins og ,,fermetra af marengs“ (hennar orð). Við ætlum að láta okkur dreyma um vorið og fara yfir hvað við getum gert skemmtilegt á árinu. Garðyrkjufélagið á 140 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni langar stjórn félagsins að bjóða félögum til skrafs og ráðagerða um helstu verkefni félagsins. Ef þið hafið hugmyndir um það hvað ykkur finnst að félagið eigi að gera á árinu í tilefni afmælisins, hvaða verkefnum félagið eigi almennt að sinna eða viljið koma öðrum hugmyndum á framfæri þá er tilvalið að mæta í kaffispjallið á þriðjudaginn.
Hittumst kæru félagar og eigum ljúfa stund saman!

Posted on

Jólakveðja frá Garðyrkjufélagi Íslands

Garðyrkjufélag Íslands sendir félagsmönnum sínum og öðrum landsmönnum hugheilar óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ræktunarár. Kærar þakkir fyrir gróskumikið samstarf, blómlegar heimsóknir, líflega viðburði og blómstrandi garðrækt á árinu sem er að líða. Við göngum spennt til leiks á afmælisári félagsins en á vordögum 2025 fagnar Garðyrkjufélag Íslands 140 ára afmæli sínu. Njótið hátíðanna og munið að vorsáningarnar eru rétt handan við hornið.

Bestu hátíðarkveðjur
Stjórn Garðyrkjufélags Íslands

Posted on

Haustkransagerð

Langar þig að læra að gera fallegan haustkrans? Við ætlum að bjóða upp á kennslu í haustkransagerð
þriðjudaginn 1. október og hefst hún kl. 19 og stendur til kl. 22 – í sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1.
Verðið er 5000 kr og innifalið er grunnefni (basthringur, vírrúlla, pinnar og undirlag), gott vinnusvæði, kennsla (þrír blómaskreytar verða á staðnum), kaffi og kex eins og vanalega og góðri stemningu heitið🌸
Það eina sem þú þarft að gera er að kíkja í þitt nærumhverfi (eða sveit) og klippa niður efni til að binda í kransinn. Betra að sækja sér meira en minna. Við munum aðstoða með val á efni áður en vinnustofan á sér stað en gott dæmi er kransinn efst í auglýsingunni. Lyng, sölnuð blóm og greinar👌🏻 Erikur eru einnig sniðugar til að gefa meiri lit. Skráningar á heimasíðunni okkar undir vefverslun!

Svipmynd frá haustkransanámskeiðinu sem haldið var í október 2023.

Posted on

Ræktaðu þinn eigin hvítlauk

Eins og undanfarin ár gengst Hvannir, matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með 11. september geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu pantað lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/vefverslun/). Gera þarf pöntun í síðasta lagi miðvikudaginn 18. september.

Um er að ræða fimm gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá miðlara í Svíþjóð. Ein ný tegund er í boði (Aulxito), en aðrar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða hvítlauksafbrigðin  Aulxito, Germidour, Messidrome, Sabagold og Thermidore. Shallot laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður heildsalanum í Svíþjóð gert viðvart og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, fyrir miðjan október og þá er best að planta lauknum strax út í beð.

Hver hvítlaukur kostar 800 krónur en schalottlaukurinn 190 krónur.

Nánar um laukana

GERMIDOUR: Snemmsprottinn og öflugur laukur, fjólublár, 8-20 rif. Flöt grös og auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka á grasinu. Uppskera um eða upp úr miðjum ágúst (örlítið fyrr en Thermidrome).

THERMIDROME: Snemmsprottinn, stór laukur, 14-21 rif. Öflugt afbrigði. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka. Uppskera upp úr miðjum ágúst.

SABAGOLD: Snemmsprottinn og stór laukur, svolítið fjólublár, 10-18 rif. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera um eða uppúr miðjum ágúst.

MESSIDROME: Snemmsprottinn, ekki stórvaxinn, örlítið fjólublár, 14-18 rif, fléttast vel saman til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka. Af mörgum talinn vera hinn klassíski franski hvítlaukur.

AULXITO: Nýleg sort, frekar stór laukur, hvítur, ca. 15-20 rif. Hentar mjög vel til geymslu. Grösin henta ekki til að flétta saman. Getur myndað æxlilauka. Á að vera snemmsprottinn.

LONGOR shallot laukur: Settur niður að hausti, má taka upp í byrjun ágúst árið á eftir. Vex í stjörnu – hver laukur getur allt að sexfaldast. Hentar vel til geymslu.

Posted on

Félagaspjall um fræ

Kæru félagar

Við ætlum að hafa skemmtilegt félagaspjall um FRÆ miðvikudaginn 11.september í salnum okkar að Síðumúla 1 og hefst viðburðurinn kl. 20:00.
Hvernig haga plöntur sér og hverju ber að horfa eftir er kemur að fræsöfnun. Þetta verður ekki beint fyrirlestur, heldur ætlum við að skiptast á upplýsingum og reynslusögum. Frænefnd GÍ verður á staðnum ásamt Hjördísi Rögn sem hefur það að atvinnu þessa dagana að tína blómafræ í Grasagarði Reykjavíkur.

Við hvetjum fólk til að koma með fræbelgi með sér sem á eftir að hreinsa og við skoðum þá í sameiningu.

Hlökkum til að hitta ykkur, læra saman og bæta í fræbankann okkar.

Posted on

Sveppatínsla á Hólmsheiði

MATSVEPPAFRÆÐSLA🍄‍🟫🍄‍🟫🍄‍🟫 

Við minnum á viðburðinn okkar núna á mánudaginn 26. ágúst þar sem hún Helena Marta ætlar að fræða okkur um matsveppi. Mæting kl.17 á Hólmsheiði(sjá kort)👍🏻 

Takið með ykkur körfu, tau- eða bréfpoka, hníf og sveppabók ef þið eigið slíka👌🏻 

Keyrið út úr bænum við Norðlingarholt og takið fyrstu beygju til vinstri merkt Nesjavallaleið. Svo takið þið aftur vinstri beygju áður en þið komið að fangelsinu. Hlökkum til að hitta ykkur sem flest🍄‍🟫

Posted on

Matsveppir

Kæru félagar

Nú er matsveppatíðin hafin🍄‍🟫🍄‍🟫🍄‍🟫 

Mánudaginn 26.ágúst kl. 17-19
Hólmsheiði (nánari staðsetning síðar)

Helena Marta Stefánsdóttir skógvistfræðingur hjá Landi og skógum ætlar að fræða okkur um hverju ber að horfa eftir en einnig hvað ber að varast þegar við tínum matsveppi. Við förum svo öll með eigin körfu eða ílát út í skóg og gott er að hafa góðan hníf meðferðis. Í lokin tökum við spjall og berum saman hvað við fundum.

Posted on

Garðaskoðun í Mosfellsbæ

Kæru félagar  

María og Erich ætla að vera svo elskuleg að taka á móti okkur í ævintýragarðinum sínum í Mosó, fimmtudaginn 15. ágúst milli kl. 16 og 18. 

👉🏻Heimilisfangið er Hamarsteigur 5. 

Eftirlæti þeirra eru fjölæringar. Það sést á opnu svæðunum sem umlykja húsið að grænir fingur þeirra hafa ekki stöðvast við lóðarmörkin. 

Verið velkomin í garðaskoðun í Mosó á fimmtudaginn! 

Fyrir hönd Garðyrkjufélags Íslands, 
Hjördís Rögn viðburðarstjóri

Posted on

Sumarferð Eyjafjarðardeildar

Sumarferðin 11. ágúst, 2024

Farðið verður í rútu og fyrsta stopp er Dalvík þar sem skoðaðir verða einkagarðar. Eftir það höldum við inn í Svarfaðardal og heimsækjum garðyrkjubændurna að Syðra Holti. Keyrum síðan hringinn í Svarfaðardal og komum við að Völlum og Hánefsstaðaskógi. Ef tími gefst til verður komið við á fleiri stöðum.

Fararstjóri er Þórarinn Hjartarson frá Tjörn í Svarfaðardal.

Brottför kl. 10.00 frá Verkmenntaskólanum (bílastæðið norðan við skólann) og áætluð heimkoma um kl. 17.00.

Ferðin er ætluð félagsmönnum í Eyjafjarðardeild GÍ og gestum þeirra.

Verð er 7.000.- fyrir hvern einstakling. Innifalið í því er rúta og hádegisverður (súpa, salat og brauð) að Syðra Holti.

Skráning er opin þar til á fimmtudagskvöld, 8. ágúst og fer fram með því að tilkynna þátttöku hér neðan við á fésabókarsíðunni eða í símanúmarið: 845-0203 (Helen).  Jafnframt þarf að greiða inn á reikning félagsins: 0566-05-444292;  kt: 431008-2030