Flestir garðeigendur eru þeirrar skoðunar að plönturnar sem þeir velja í garða sína eigi annað hvort að vera einærar, þ.e. sumarblóm, eða að þær lifi endalaust, séu með öðrum orðum fjölærar. Fjölærar plöntur koma upp ár eftir ár og það þarf ekki að hafa fyrir því að gróðursetja nýjar á hverju ári. Tré og runnar eru auðvitað fjölærar plöntur en sú hefð hefur skapast fyrir því að nota hugtakið fjölærar plöntur yfir jurtkenndar, fjölærar plöntur sem falla niður yfir veturinn og vaxa upp aftur að vori.
Tvíærar plöntur eru þeirrar náttúru að þær lifa einungis í tvö ár eða tvö vaxtartímabil. Fyrra sumarið spíra þær upp af fræi og mynda laufblöð. Þessi laufblöð geta í sumum tilfellum staðið yfir veturinn en oft falla þau niður. Þetta sumar nota plönturnar til að byggja upp myndarlegan forða í rótum sínum. Yfir veturinn þurfa þær svo á kuldatímabili að halda til þess að blómgun geti átt sér stað. Þurrkur hefur svipuð áhrif á plöntur og kuldi og því getur verið nóg fyrir plönturnar að lenda í hressilegum þurrki, þá geta þær átt það til að blómstra. Seinna sumarið á svo blómgunin sér stað. Blómgun tvíærra plantna getur verið stórglæsileg enda hafa þær verið duglegar við að safna sér forða árið áður. Plönturnar eru frekar lágvaxnar á fyrra ári enda enginn blómstöngull á þeim og ekki gott að eyða dýrmætri orku í óþarfa. Árið sem þær blómstra koma svo oft upp háir og tignarlegir blómstilkar sem bera uppi mikið blómskrúð. Eftir að blómguninni lýkur deyja plönturnar enda hafa þær uppfyllt hlutverk sitt í þessu lífi, að skilja eftir sig afkomendur sem tryggja áframhaldandi líf tegundarinnar.
Fáar tvíærar plöntutegundir eiga sér eins merkilega fortíð og fingurbjargarblómið, Digitalis purpurea. Fingurbjargarblóm hefur verið ræktað um aldaraðir vegna lækningaeiginleika sinna. Það hefur verið notað sem lyf við geðveiki og segir sagan (höfum þá í huga að góð saga ætti aldrei að gjalda sannleikans) að van Gogh hafi drukkið seyði af fingurbjargarblómi en eins og alþjóð veit var þessi mikli listamaður illa geðveikur. Ein af aukaverkunum fingurbjargarblóms er sú að sá sem notar það sér gula áru í kringum alla hluti í kringum sig. Á þar að vera komin skýringin á því hversu hrifinn van Gogh var af gula litnum…
Fingurbjargarblóm hefur einnig verið notað til hjartalækninga. Það er þó rétt að benda á að eins og með allar góðar lækningajurtir þá borgar sig ekki að reyna lækningamáttinn á sjálfum sér án leiðbeininga fagmanns, oft getur ríflegur skammtur af lækningajurtinni verið hreinlega banvænn. Fingurbjargarblómið er mjög glæsilegt, blómstönglarnir geta verið yfir 1,5 m háir. Blómin eru lútandi klukkur, freknóttar innan í og í bleikum litum. Fingurbjargarblómin hefur getað viðhaldið sér með sáningu í skjólgóðum görðum hérlendis en í flestum tilfellum þarf að gróðursetja nýjar plöntur árlega.
Önnur bráðhugguleg tvíær tegund er sumarklukkan, Campanula medium. Sumarklukkan er ýmist bleik, blá eða hvít og blómstrar hún stórum, belgvíðum blúndulegum klukkum sem minna mig alltaf svolítið á gamaldags undirbuxur kvenna, þessar hnjásíðu með víðu skálmunum sem voru teknar saman með teygju neðst og eru ákaflega sjaldgæf sjón nú á tímum g-strengja. Sumarklukkan er mjög áberandi í blóma því klukkurnar raða sér eftir endilöngum blómstilkunum sem eru yfirleitt um það bil 60-80 cm á hæð.
Ólympíukyndill, Verbascum olympicum, er stórglæsilegur fulltrúi tvíærra plantna. Hann er sérlega voldugur í blóma, verður allt að 2 m hár. Blómstilkurinn er þykkur og mikill og greinist mikið ofan til. Hann verður þakinn skærgulum blómum þegar líður á sumarið. Margir rugla ólympíukyndlinum saman við náfrænda hans, kóngakyndil eða kóngaljós en sú tegund er fjölær og með ívið loðnari blöð en ólympíukyndillinn. Kyndlanafnið er réttnefni á þessa tegund því það hreinlega lýsir af honum í rökkri íslensks sumarkvölds.
Margar aðrar algengar tegundir í íslenskum görðum eru í raun tvíærar, þótt þær séu einungis ræktaðar sem einærar. Þar má nefna skrautkál, sem myndar fallegan og þéttan haus úr laufblöðum fyrra sumarið og blómstrar svo skærgulum blómum á háum stilk seinna sumarið. Reyndar sjáum við stundum blómgun hjá skrautkálinu strax á fyrra ári en þær plöntur hafa þá annað hvort þornað ótæpilega eða lent í kuldahreti og hafa því ruglast í ríminu. Að sama skapi eru rófur, gulrætur og steinselja tvíærar plöntur. Stjúpur, þessi algengu sumarblóm, eru í raun tvíærar en í dag eru í ræktun yrki af stjúpum sem hafa verið kynbætt þannig að þau geta blómstrað strax á fyrra ári án þess að þurfa til þess sérstakt kuldatímabil.
Það er jafnauðvelt að gera ráð fyrir tvíærum plöntum í garðinum hjá sér eins og sumarblómum. Flestar gróðrarstöðvar bjóða upp á heilmikið úrval af tvíærum plöntum og kosturinn við að kaupa þær í gróðrarstöðvum er sá að þar eru þær yfirleitt seldar á öðru ári þannig að ekki þarf að bíða eftir blómum í heilt ár. Vissulega þarf aðeins að annast þær meira en sumarblóm, flestar þessara tegunda þurfa uppbindingu vegna þess hversu hávaxnar þær eru en blómskrúðið er svo sannarlega þess virði.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2003)