Mér líður eins og ég búi í jólakorti þessa dagana. Jólasnjórinn fer reyndar greinilega ekki eftir sama dagatali og við hin, er svona um það bil mánuði á eftir áætlun en ekki verður annað sagt en jólalegt hafi verið um að litast á landinu bláa undanfarið. Eins og venjulega kemur snjórinn okkur Frónbúum algerlega í opna skjöldu. Það er eins og við séum öll nýflutt hingað frá Kanaríeyjum, ef miðað er við það hvernig bílar okkar eru útbúnir til aksturs í snjó, getu okkar til að keyra í hálku og fjölda umferðaróhappa á klukkustund á stórhöfuðborgarsvæðinu síðustu vikuna. Margir hafa líka greinilega ákveðið að nota einhvers konar skyggnigáfu við aksturinn, að minnsta kosti er það ótrúlega algengt að sjá snjóskafla á hjólum í umferðinni og undir hælinn lagt hvort það er einhvers konar útsýnisglufa á framrúðunni. Þetta kemur þó varla á óvart þegar haft er í huga að um helmingur landsmanna trúir á yfirskilvitleg fyrirbæri. Kannski umferðin sé slíkt fyrirbæri?
Það er fátt fegurra en trjágróður hlaðinn púðursnjó. Ljósmyndarar af öllum gæðaflokkum skella sér í snjógallann og drífa sig út í mjöllina í þeim tilgangi að ná ódauðlegum ljósmyndum af fegurðinni. Sérstaklega eru sígrænar plöntur glæsilegar fyrirsætur við þessar kringumstæður. Snjórinn situr á greinum þeirra eins og hvít glassúr og greinarnar svigna fagurlega undan þunganum. Þetta kemur mjög huggulega út hjá tegundum eins og blágreni sem eru þaulvanar snjóálaginu, greinar þess standa nokkurn veginn lárétt út frá stofninum og heilmikill snjór getur þannig setið á greinunum án þess að trén beri nokkurn skaða af. Lauftré og runnar geta líka litið ákaflega fallega út þaktar snjó en yfirleitt dettur snjórinn fljótt af því flöturinn sem snjókornin geta náð fótfestu á er ákaflega lítill og vind þarf ekki að hreyfa mikið til að feykja snjókornunum út í buskann.
Það eru þó ekki alltaf jólin og mjög fljótlega eftir að trjágróðurinn okkar skrýðist hinu hvíta dúnmjúka teppi dregur yfirleitt til tíðinda. Þau tíðindi geta verið af margvíslegum toga enda veðurfar með eindæmum dyntótt á Íslandi. Fyrst má nefna vindinn sem nær yfirleitt að hreinsa púðursnjóinn mjög fljótlega af trjágreinunum. Oft á tíðum rignir eða hlánar hressilega ofan í snjókomuna. Við það blotnar snjórinn og þyngist mikið og svigna greinar trjánna þá enn meira og bogna. Ef hlákan er almennileg ná trén að hreinsa sig af snjó og bíða engan skaða af en ef blautur snjórinn frýs bindast plönturnar klakaböndum sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þær.
Trjátegundir sem eru aðlagaðar miklum snjóþyngslum eru gjarnan með láréttar eða svolítið slútandi greinar, svona eins og blágrenið sem áður var nefnt. Þessi greinasetning plantnanna gerir það að verkum að snjórinn nær að renna fram af greinunum tiltölulega greiðlega og plantan skaðast ekki. Tegundir með hvasst greinahorn og mikið uppréttar greinar hins vegar eru ekki eins lukkulegar með snjóþyngslin. Þær hafa ekki aðlagast slíkum hremmingum að vetrarlagi og því er töluverð hætta á að greinar þessara tegunda hreinlega rifni af þegar snjórinn sligar greinarnar. Greinarnar hafa einfaldlega ekki þá sveigju að snjór geti auðveldlega runnið fram af þeim þegar fargið eykst.
Það má því með sanni segja að fegurðinni komi ekki kvalalaust, þessi jólakortamynd sem við dáumst svo að er engan veginn hagstæð fyrir trén. Kannski ættum við bara að ganga í lið með vindinum og hrista trén duglega til að losa þau við þetta snjófarg?
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)