Posted on

Skrautgrös – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Gras þarf ekki endilega að vera það sama og gras. Grastegundir sem valdar eru í grasflatir eiga í okkar huga að vera fagurgrænar, hægvaxta og harðgerðar, þola vel slátt og mynda þéttar breiður. Þarna erum við ekki að horfa á hverja plöntu sem einstakling heldur er það heildaráferð grasflatarinnar sem heillar og þar með samspil alla plantnanna sem mynda breiðuna. Grös geta hins vegar verið mjög blaðfalleg og alveg fyrirtaks skrautplöntur, rétt eins og blómstrandi tvíkímblöðunar.

     Skrautgrös hafa verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum. Augu garðeigenda hafa verið að opnast fyrir möguleikum þess að nota skrautgrös af ýmsum tegundum til að fá fram ákveðin áhrif í görðum sínum. Úrval skrautgrasa hefur verið að aukast nokkuð og er hægt að fá skrautgrasategundir sem eru ýmist mjög hávaxnar eða hér um bil jarðlægar. Hér á efti ætla ég að fjalla um nokkrar tegundir skrautgrasa og notkunarmöguleika þeirra.

     Efst á listanum er auðvitað randagrasið, Phalaris arundinacea ‘Picta’. Þetta er hávaxið gras, um og yfir 1,5 m á hæð með upprétta stífa stöngla. Blöðin eru fremur breið af grasblöðum að vera, dökkgræn með hvítar rendur eftir endilöngu blaðinu. Upp úr miðju sumri kemur stór og fremur gisinn puntur á stönglana en hann er ekki mjög áberandi, grasið er fyrst og fremst ræktað vegna blaðanna. Randagras er fremur skriðult og þarf að stinga utan af plöntunni árlega til að halda henni í skefjum. Það getur auðveldlega lagt undir sig heilu beðin sé ekkert að gert. Ein leið til að komast hjá því að þurfa sífellt að stinga utan af randagrasinu og halda vinnu við það í lágmarki er að rækta það í stóru keri. Kerið þarf að vera nokkuð djúpt, 40-50 cm á dýpt og fremur vítt, gamlar síldartunnur henta til dæmis mjög vel í þetta. Á skömmum tíma fyllir randagrasið alveg í kerið og þetta plöntuval gefur glænýtt útlit fyrir sólpallinn hjá manni, kærkomin tilbreyting frá litagleði sumarblómanna sem auðvitað þurfa að vera á pallinum líka.

     Hnúðhafrar, Arrhenatherum elatius ssp. bulbosum, eru við fyrstu sýn eins og smávaxnari útgáfa af randagrasi. Plantan verður 80-100 cm há með upprétta stöngla og hvítröndótt blöð en blöð hnúðhafranna eru mun mjórri en blöð randagrassins. Að auki mynda hnúðhafrarnir litla hnúða niðri við jarðvegsyfirborðið og minna þessi hnúðar á litla lauka. Þessi skemmtilega grastegund myndar þétta brúska og fjölgar sér með myndun nýrra hnúða niðri við jörðina. Hnúðhafrarnir eru því ekki eins líklegir til vandræða og randagrasið því þeir skríða ekki út um allar jarðir. Tegundina má nota innan um fjölærar plöntur til að fá fram létt yfirbragð fjölæringabeðanna og skapa andstæður við blaðlögun hinna hefðbundnum fjölæru plantna sem yfirleitt eru með fremur breið blöð með ýmsu lagi.

     Gulur skrautpuntur, Milium effusum ‘Aureum’, er hávaxið gras, 1,5-2 m á hæð með upprétta stöngla og útsveigð, fremur breið blöð. Blöð gula skrautpuntsins eru gulleit og verður guli liturinn meira áberandi ef plantan stendur á björtum vaxtarstað. Skrautpuntur þolir annars vel hálfskugga. Hann þarf rakaheldinn jarðveg og stendur sig betur á skjólgóðum stað, sérstaklega er fallegt að staðsetja þessa gulblaða plöntu við dökkan bakgrunn til að skapa andstæður.

     Mjallhæra, Luzula nivea, er strangt til tekið ekki grastegund en hún er með fallega bogsveigð, ljógræn graslík blöð. Hún verður um 40 cm há og myndar fallegar þúfur. Um mitt sumar koma fram stönglar og á enda stönglanna eru lítil hvít blóm, nokkur saman á hverjum stöngli. Mjallhæra er ákaflega fíngerð tegund og hentar mjög vel innan um aðrar fjölærar tegundir, hún vill bjartan vaxtarstað og þolir ágætlega þurrk.

     Eftir þessa lesningu væru það fullkomlega eðlileg viðbrögð að halda rakleiðis í næstu gróðrarstöð og kaupa sér nokkur skrautgrös. Látið það bara eftir ykkur.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)