Vorið er heldur betur komið á kreik á Íslandi, að minnsta kosti þegar maður lítur á plönturnar og laufskrúð þeirra. Eitthvað hefur láðst að láta vita af þessu hjá þeim sem stýra veðurfarinu því snjókoma, kuldi og almenn leiðindi hafa einkennt veðurfarið núna í þessum seinni hluta maímánaðar. Hið klassíska orðatiltæki að það hafi haustað óvenju snemma þetta vorið hefur verið á vörum margra og virðist nokkur alvara hafa fylgt því gamni. Enn er þó ekki kominn tími til að örvænta, stundum hafa mánuðirnir júní, júlí og ágúst verið hreint með ágætum og hitastig nokkuð yfir frostmarki þannig að full ástæða er til bjartsýni.
Ýmsar plöntutegundir láta svona vorhret ekkert á sig fá og blómstra sínum blómum hvað sem tautar og raular. Margar þeirra eru yfirmáta skrautlegar og grípa augað með litadýrð sinni meðan blómgun annarra lætur minna yfir sér. Þær hófstilltari eru samt sem áður fullt eins fallegar, þótt fegurðin sé ekki eins æpandi við fyrstu sýn. Hér á ég við þær tegundir sem blómstra með blómskipunum sem kallaðar eru reklar. Innan þessa flokks má finna ættkvíslir bjarka, elris, víðis og aspa. Þetta eru upp til hópa harðgerðar tegundir sem kalla ekki allt ömmu sína. Þær blómstra á vorin um það leyti sem þær laufgast og eru reklar þeirra oft á tíðum mjög skrautlegir. Sérstaklega eru karlreklarnir áberandi og geta fræflarnir verið með frjóhnappa í mörgum litum. Sem dæmi má nefna karlrekla seljunnar, þeir eru skærgulir hnoðrar sem minna helst á páskaunga sem kúra á greinum seljunnar.
Karlreklar alaskaaspar aftur á móti eru rauðir á litinn, fremur langir, hanga niður og minna mann á rauðan chilipipar við fyrstu sýn. Blómgun í vor hefur verið með ágætu móti og sumar karlaspir hreinlega verið þaktar þessum rauðu reklum. Þegar reklarnir hafa lokið hlutverki sínu, þ.e. að koma frjókornunum frá sér og leggja þannig sitt af mörkum til fjölgunar asparinnar, falla karlreklarnir af plöntunni. Kvenreklarnir aftur á móti taka við frjókornunum frá karlreklunum og er það ýmist vindurinn sem feykir frjókornunum á milli eða að plönturnar njóta aðstoðar iðinna býflugna. Eftir að frjóvgun á sér stað fitna kvenreklarnir og bólgna allir upp. Þegar fræið er þroskað opnast aldinin í kvenreklunum og fræið sleppur út. Aspar- og víðifræ er þakið örfínum snjóhvítum hárum þannig að fræið getur svifið langar leiðir. Stundum er talað um að það snjói á sumrin þegar þetta fræ svífur um loftin blá, fellur til jarðar og myndar mjúka hvíta breiðu á jörðinni.
Birkitegundir og elri blómstra líka fallegum reklum á vorin. Karlreklar elris eru yfirleitt fagurgulir á litinn og geta orðið 10-15 cm langir. Þeir hanga niður af greinunum, tveir til þrír saman í hnapp og lífga mikið upp á umhverfið á vorin. Blómgunin er frekar áberandi vegna þess að hún á sér stað fyrir laufgunina. Þannig tryggir náttúran að frjókornin berist á sem auðveldastan hátt frá karlreklunum að kvenreklunum með vindinum, án þess að laufblöð séu mikið að hindra ferðalagið. Birkireklar eru ekki eins áberandi og elrireklarnir. Þeir eru brúnleitir og frekar smáir og til að dást að þeim þarf maður að ganga alveg upp að plöntunni og skoða þá í návígi.
Návíginu fylgja ýmsir kostir, eins og til dæmis sá að fáar plöntur ilma jafn vel á vorin og birki, þegar nýútsprungin blöðin gefa frá sér þennan óviðjafnanlega ilm sem mann langar helst að geta tappað á flöskur og hnusað af á öðrum árstímum. Nú er bara að vona að veðrinu sloti og hægt sé að fara út að dást að plöntum.
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)