Hvað borða plöntur? Þessi spurning hefur brunnið á vörum margra barna í gegnum tíðina enda ekki nema von, ekki eru nein næringarupptökulíffæri sjáanleg í fljótu bragði á blómum og trjám en samt lifa þau og vaxa og dafna. Þegar fram líða stundir læra menn að plöntur þurfa vatn og áburð og sólarljós til að þrífast en nánari útfærsla á næringarnámi plantnanna er oft á huldu. Það er þó ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvaða atriði þarf að hafa í huga varðandi þessi mál, nú þegar plöntur eru í örum vexti og við viljum að sjálfsögðu sjá þær þrífast almennilega í görðum okkar og umhverfi.
Plöntur eru frumbjarga, þannig að þær framleiða sjálfar þær sykrur sem þær þurfa til vaxtar og viðhalds með ljóstillífun. Hráefnið í ljóstillífunina er vatn og koltvísýringur og þessum efnum umbreyta plöntur í sykrur með hjálp sólarljóssins. Sykrurnar nýtast svo á ýmsa vegu, svo sem til uppbyggingar á vefjum plantnanna, rótum, stönglum og laufblöðum, sykrurnar geta geymst sem forði til mögru tímanna og eins eru þær notaðar til daglegrar brennslu.
Auk hráefna til ljóstillífunar þurfa plöntur á ýmsum efnum að halda sem þær taka upp úr jarðvegi með rótum sínum. Þessum efnum má skipta í aðalefni, það eru efni sem plönturnar þurfa í talsvert miklu magni og snefilefni sem eru efni sem eru nauðsynleg en bara í örlitlu magni. Aðalefnin nitur (N, köfnunarefni), fosfór (P) og kalí (K) eru þau efni sem plöntur þurfa í mestu magni. Til er nokkurs konar þumalfingursregla sem segir að nitur sé fyrir blöðin þannig að það gerir blöðin græn, fosfór fyrir ræturnar þannig að þær vaxa og dafna betur ef nægilegur fosfór er til staðar í jarðveginum og kalí fyrir blómin þannig að blómgun verður mun betri ef nægilegt er til staðar. Reyndar er líka sagt að kalí sé mikilvægt undir haustið því hærra hlutfall kalí í plöntusafa gerir hann þolnari gagnvart frosti. Þetta er auðvitað mikil einföldun á raunveruleikanum því öll þessi efni nýtast plöntum á margvíslegan hátt en þumalfingursreglur eru oft góðar og gildar og gott að hafa á hraðbergi. Þegar þetta er haft í huga er ljóst að áburður sem inniheldur mikið magn af nitri er heppilegur til gjafar snemma sumars en þegar líður á sumarið er betra að gefa áburð sem inniheldur minna nitur en meira af hinum efnunum.
Við kaup á tilbúnum áburði eru hlutföll áburðarefna gefin upp á umbúðunum og er það mjög heppilegt. Þannig getur maður fundið út hvaða áburður hentar best á hverjum tíma sumarsins og brugðist við öllum óskum plantnanna um uppáhaldsnæringu. Tilbúinn áburður er hins vegar ekki endilega hið eina rétta fyrir plönturnar og umhverfi þeirra. Húsdýraáburður hefur verið notaður í ræktun með mjög góðum árangri frá örófi alda og skiptir ekki öllu máli hvaða húsdýr framleiddi viðkomandi áburð, allur slíkur áburður hefur notagildi. Aðalkostur lífrænna áburðargjafa er hins vegar sá að þeir hafa mjög góð áhrif á jarðveginn og næra ekki einungis plönturnar sjálfar heldur örveru- og smádýralífið sem er plöntunum svo nauðsynlegt í jarðveginum. Tilbúinn áburður hefur ekki sömu jarðvegsbætandi áhrif en gagnast plöntunum vissulega vel til vaxtar og viðhalds.
Verkefni dagsins eru þá þau að gefa plöntunum næringu og ekki síst að gæta þess að vökva þær hressilega af og til, betra er að vökva vel og sjaldnar en að gefa einungis litla skvettu í hvert sinn, slíkt bað nýtist þeim ekki eins vel til framtíðar.
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)