Það er alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt. Í gær var vor en í dag er komið haust með öllu tilheyrandi. Regndroparnir hætta að falla lóðrétt til jarðar og með dálítilli hjálp frá Kára (ekki Stefánssyni) virðast þeir hreinlega komast á sporbaug umhverfis jörðu. Trén sem í gær stóðu í fullum blóma, fagurgræn og gljáandi í sólskininu, berjast í dag til og frá í vindinum. Laufblöðin taka óðum á sig hlýlega haustliti enda veitir okkur ekki af hlýju veganesti fyrir veturinn. Það er því ekki að undra að útiverustundum fækkar, mannfólkið leitar skjóls innandyra og hugsunin um plöntur, gróðursetningu og annað er viðkemur ræktun færist æ aftar í forgangsröðina.
Ef vel er að gáð má þó sjá, hér og þar um bæi landsins, nokkra sérvitringa í óða önn við það að gróðursetja ýmiss konar plöntur. Þarna eru yfirleitt á ferð garðyrkjufræðingar því þeir vita sem er, að haustið er einn besti tími ársins til útplöntunar.
Vaxtarferill plantna er í stuttu máli þannig: Um leið og frost fer úr jörðu á vorin hefst rótavöxtur af fullum krafti í plöntunum. Í kjölfar þessa rótavaxtartímabils laufgast plönturnar og lengdarvöxtur greina og stöngla nær hámarki. Á meðan á lengdarvexti stöngla og greina stendur er rótavöxtur í lágmarki enda hafa ræturnar nóg að gera við það að afla yfirbyggingu vatns og steinefna úr jarðveginum. Lengdarvexti yfirbyggingarinnar lýkur venjulega í ágúst og fer þá í hönd annað tímabil rótavaxtar. Ræturnar halda áfram að vaxa fram á haustið. Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum að rætur halda áfram að vaxa þar til hitastigið í jarðveginum fer niður í um 5°C. Eftir það hægir verulega á vextinum og plantan leggst endanlega í dvala. Rótavöxturinn getur þannig haldið áfram löngu eftir að allt lauf er fallið af plöntunni. Ekki er vitað með vissu hversu lengi rætur vaxa fram eftir hausti á Íslandi en í meðalári ættu þær að ná að vaxa fram í október-nóvember. Plöntur sem gróðursettar eru á haustin ná því að festa sig dálítið í sessi fyrir veturinn.
Kostir þess að gróðursetja plöntur á haustin eru margvíslegir. Plönturnar ná að nýta vaxtartímabilið árið eftir gróðursetningu til fulls. Plöntur vakna til lífsins snemma á vorin, oft í lok apríl-byrjun maí en garðeigendur fara sjaldnast að huga að útplöntun fyrr en upp úr miðjum maí. Þannig græðir plantan að minnsta kosti tvær vikur auk þess sem hún hefur forskot á rótavöxtinn frá því um haustið. Haustin eru yfirleitt fremur votviðrasöm þannig að ekki þarf að hafa áhyggjur af vökvun nýgróðursettra plantna. Veðráttan á suðvesturhorninu í sumar færði okkur heim sanninn um það að við getum átt von á þurrkatíð enda fundu margir fyrir því að þeir þurftu að vökva mikið meira en venjulega.
Plöntur í pottum er hægt að gróðursetja hvenær sem er, svo framarlega sem hægt er að koma þeim niður í jörðina fyrir frosti. Berróta plöntur og hnausplöntur er best að eiga við á vorin áður en þær laufgast og aftur á haustin við lauffall. Gott er að miða við það að þegar plöntur fara að fá haustlit er tímabært að gróðursetja þær á haustin. Berróta plöntur sem gróðursettar eru á miðju sumri eru fulllaufgaðar og því algengt að þær slappist töluvert fyrst eftir gróðursetningu, rótakerfið annar ekki vatnseftirspurninni. Þá þarf að vökva og vökva en þetta vandamál er ekki til staðar ef plönturnar eru gróðursettar á haustin.
Áburðargjöf við haustplöntun ætti að takmarka við lífrænan áburð og kalk, tilbúinn áburður gerir lítið gagn yfir veturinn og skolast bara í burtu. Lífræni áburðurinn og kalkið nýtast hins vegar plöntunum smám saman eftir því sem þau brotna niður auk þess sem þau hafa jákvæð áhrif á byggingu jarðvegsins.
Að endingu er rétt að benda á það að í flestum gróðrarstöðvum er að finna ágætis úrval af trjám og runnum á haustin og má fullyrða það að viðskiptavinir eru kærkomin tilbreyting í stöðvunum á þessum árstíma.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)