Hvers virði eru tré? Er hægt að mæla virði trjáa í krónum og aurum? Það eru víst síðustu forvöð að tala um aura, þeir eru alveg að detta úr umferð en trén láta það ekkert á sig fá, þau hafa mörg hver lifað ótal myntbreytingar, gengisfellingar, verðbólgur, hallæri, góðæri og guð má vita hvað. Ég held að tré verði ekki metin til fjár, verðmæti þeirra er annað og meira en svo að hversdagslegir hlutir eins og peningar gefi sanna mynd af raunverulegu gildi þeirra.
Trjárækt hefur verið stunduð á Íslandi að einhverju marki í rúma öld sem telst ekki langur tími í veraldarsögunni. Enn má finna í Reykjavík tré sem voru með þeim fyrstu sem gróðursett voru í borginni. Þessi fyrstu tré ruddu leiðina fyrir öll hin trén sem á eftir fylgdu því með tilvist sinni sönnuðu þau að trjárækt var raunhæfur möguleiki á Íslandi. Á þessari rúmu öld hafa ótal tré verið gróðursett í landinu. Á heildina litið hefur árangurinn verið frábær þótt finna megi sögur af misheppnuðum trjáræktartilraunum þegar vel er að gáð og kíkir hafður við hönd. Afleiðingar þessarar trjáræktar er skjól, skjól sem auðveldar öðrum lífverum lífið og gerir umhverfi okkar hlýlegt og aðlaðandi.
Þegar horft er yfir gömul og gróin hverfi í Reykjavík sést varla í húsþökin fyrir trjákrónum sem standa langt upp fyrir húsin. Það eru kannski ekki svo ýkja mörg stór tré í hverjum garði en heildaráhrifin af fáum trjám í mörgum görðum eru þau að allt hverfið nýtur skjólsins af trjánum, það nást fram sömu áhrif og inni í skógi. Í skjólinu er minni vindkæling og því hærra hitastig sem auðveldar aftur ræktun á hitakærari plöntum. Skjólið er líka hagstætt fyrir sólardýrkendur því það er svo mikið þægilegra að striplast úti í sólinni ef maður þarf ekki að hafa áhyggjur af vindkælingunni.
Í nýrri hverfum borgarinnar getur maður aftur á móti dáðst að húsþökunum í allri sinni litadýrð og mismunandi lögun. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi er gróðurinn svo ungur að trén eru ekki farin að teygja sig upp fyrir húsþökin. Í öðru lagi þá hefur fólk ekki áhuga á því lengur að vera með stór og hávaxin tré í görðum sínum, þau skyggja nefnilega svo mikið á sólpallana. Skjólið er fengið með skjólgirðingum sem skýla hinu allra heilagasta á lóðinni, umhverfið er fagurlega skreytt með blómstrandi runnum og lágvöxnum trjám. Haldi þessi þróun áfram sér maður fyrir að sér að hægt sé að þekkja það á fólki, að minnsta kosti að sumarlagi, hvar það býr. Þessir kaffibrúnu, veðurbörðu búa í nýjum úthverfum borgarinnar en þessir með ljósa, slétta litaraftið búa í eldri hverfum borgarinnar…
Ættum við ekki að vera á varðbergi gagnvart þeirri þróun að fólk gróðursetur ekki stór tré í nýja garða? Skjóláhrifin sem við njótum svo mikið í gömlum, grónum hverfum, nást ekki nema með því að gróðursetja stór tré í nýju hverfin. Vissulega eru ýmsar trjátegundir sem eiga alls ekkert heima í litlum görðum og má þar nefna skessurnar tvær, alaskaöspina og sitkagrenið, þær eru allt of fyrirferðarmiklar í venjulegar lóðir. Það er hins vegar hægt að koma því þannig fyrir að stór og fljótvaxin tré á borð við alaskaöspina og sitkagrenið séu gróðursett í græn svæði innan nýju hverfanna þannig að íbúarnir fái skjóláhrifin en þurfi ekki að fórna sumarbrúnkunni fyrir skjólið.
Rétt er að hafa það í huga að til eru margar tegundir af trjám sem eru í meðallagi stór og geta því gefið gott skjól án þess að breyta garðinum í skuggsælan frumskóg. Ilmreynirinn íslenski og íslenska birkið eru gott dæmi um slíkar trjátegundir. Þessar tegundir eru harðgerðar og fallegar, með frekar nettar trjákrónur og geta vaxið á vindasömum stöðum. Rétt er að hafa í huga að samkvæmt byggingarreglugerð má ekki gróðursetja stór tré nær lóðarmörkum en 3 metrum og er það meðal annars gert til að koma í veg fyrir nágrannaerjur vegna yfirgangs stóru trjánna.
Gróðursetning stórra trjáa í þéttbýli er í raun og veru mjög mikilvæg því að þrátt fyrir hlýnun loftslags undanfarinna ára þá er Ísland á mörkum hins byggilega og okkur veitir ekki af þeim hjálpartækjum sem við getum notað til að gera umhverfi okkar hlýlegra og mannvænna. Mikilvægi grænna svæða innan þéttbýlis hefur orðið okkur æ ljósara, ekki einungis til útivistar heldur einnig sem uppspretta skjóláhrifa. Við ættum að hugsa hvert hverfi sem eina heild sem nýtur sameiginlegra áhrifa af allri trjárækt sem á sér stað innan hverfisins, með öðrum orðum, við ættum að stefna að því að sjá skóginn fyrir trjánum.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2003)