Ungu hjónin sem keyptu gamalt raðhús á dögunum og fengu í kaupbæti yfirgróinn garð eru í óða önn við að koma sér inn í leyndardóma garðyrkjunnar. Þetta er talsvert meiri vinna en þau áttu von á í upphafi, þau eru komin með sigg í lófana, verki í hnén, þursabit í bakið og hælsæri eftir stígvélin en samt eru þau yfir sig ánægð með árangurinn. Auðvitað hafa hlutirnir ekki allir farið eins og til var ætlast, til dæmis hefur arfi látið á sér kræla í nýreyttum beðum, fíflar hafa stungið upp kollinum í grasflötinni og blómstönglarnir á fjölæru plöntunum hafa ekki þolað fótboltaleik barnanna en það alvarlegasta er að margar af skrautjurtunum hafa ekki blómstrað. Ungu hjónin hafa mikið velt vöngum yfir blómaskortinum í paradísinni sinni og hér á eftir fylgja nokkur góð ráð til hjónakornanna um helstu orsakir blómaskorts. Rétt er að geta þess að ekki er um tæmandi lista að ræða..
Hvers vegna blómstra plöntur ekki?
Allar blómplöntur hafa hæfileika til að blómstra, misskrautlega að sjálfsögðu en hverjum þykir sinn fugl fagur og ef hann gegnir sínu hlutverki þá er ekki yfir neinu að kvarta. Helstu ástæður fyrir því að plöntur blómstra ekki eru:
- Of mikill skuggi – Allar blómplöntur þurfa beina sól að minnsta kosti hluta úr degi til að geta blómstrað. Plöntur eru missólelskar, sumar þurfa að standa í sól allan sólarhringinn en aðrar láta sér duga örfáa sólargeisla yfir daginn og þær eru ánægðar. Plöntur sem standa á of skuggsælum stöðum miðað við þær kröfur sem þær gera almennt til birtu blómstra miklu minna en efni standa til. Í svona tilfellum þarf að flytja plönturnar til og velja svo skuggþolnari plöntur á dimmu staðina.
- Þurr jarðvegur – Þurrkur getur frestað blómgun plantna um þó nokkurn tíma. Of þurr jarðvegur í langan tíma gerir það að verkum að blómbrum og knúppar ná ekki að þroskast eðlilega, visna því og detta af. Að sama skapi veldur langvarandi þurrkur því að ber og önnur aldin ná ekki að þroskast. Þurrkur að sumarlagi getur líka valdið því að blómgun verður léleg árið eftir.
- Röng klipping – Mikil klipping á röngum tíma árs veldur því að sumir runnar blómstra hreinlega ekki það árið að minnsta kosti. Vorblómstrandi runna á að grisja að vori og snyrta svo lítillega eftir blómgun en haustblómstrandi runna má klippa hressilega niður að vori.
- Frostskemmdir á knúppum – Vorfrost geta leikið snemmblómstrandi plöntur grátt, knúpparnir frjósa í hel og ekkert verður af blómgun það árið.
- Sjúkdómar – ýmsir sjúkdómar geta herjað á blómknúppa, t.d. sveppasjúkdómar og valdið því að blómin springa ekki út. Við þessu er ósköp lítið hægt að gera nema velja til ræktunar plöntur sem ekki eru viðkvæmar fyrir sjúkdómum.
- Visnaðir knúppar – Knúppar sumra rósategunda ná aldrei að opnast almennilega í votviðratíð. Þetta er sérstaklega áberandi þar sem plönturnar standa í skjóli og svolitlum skugga þannig að vindur og sól ná ekki að þurrka knúppana milli skúra.
- Fuglar – fuglar éta brum af plöntum á veturna. Blómbrum margra runna eru sérstaklega feit og pattaraleg og því ákaflega girnileg til átu. Slíkar átveislur koma hins vegar í veg fyrir það að runnarnir nái að blómstra sama ár.
- Óþolinmæði – trjá- og runnategundir blómstra þegar þær hafa aldur til. Í sumum tilfellum þurfa tré að vera orðin 15-20 ára gömul áður en þau blómstra, eins og er tilfellið með fjallagullregn. Garðeigendur verða því að hafa þolinmæði til að bíða eftir blómskrúðinu sem lætur fyrst á sér kræla þegar plönturnar verða kynþroska.
- Næringarástand – Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Plöntur sem hafa það allt of gott leggja gjarnan allan kraft sinn í vöxt og ekkert í blómgunina. Til þess að þær blómstri þarf að svelta þær svolítið eða jafnvel að stinga aðeins á rótakerfið, við það hrökkva þær í blómgírinn.
Vonandi geta ungu hjónin nú látið blómin tala í garðinum sínum.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)