Fræðsluerindi um þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu
Minnt er á aðalfund Garðyrkjufélags Íslands á miðvikudagskvöldið 27. maí, kl. 19:30 í húsi félagsins í Síðumúla 1.
Aðalfundardagskráin sjálf verður hefðbundin (venjuleg aðalfundarstörf, kjör stjórnar og annarra trúnaðarmanna) en í lokin verður fjallað um stórt verkefni sem félagið er að vinna að í félagi við nokkrar deildir sínar út um land. Málshefjandi verður Sveinn Þorgrímsson verkfræðingur, stjórnarmaður í GÍ.
Þetta verkefni snýr að aukinni þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu. Áhersla er lögð á að tengja garðrækt við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun. Verkefnið nýtur stuðnings Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Byggt er á sérstöðu félagsins sem er grasrótarhreyfing um ræktun, með vísan til þess grunnstarfs sem fer fram um land allt með ræktun garð- og matjurta, almennri garðrækt, trjá- og skógrækt og hvers konar yndisræktun sem almenningur hefur fundið innri þörf til að sinna af alúð og kostgæfni. Tilgangurinn er að styrkja grasrót almennings sem fyrst og fremst styður við umhverfis- og loftslagsmál af lítillæti.
Fjórar deildir Garðyrkjufélagsins taka þátt í verkefninu – þ.e. deildirnar á Fljótsdalshéraði, í Reykjanesbæ, Fjallabyggð (Ólafsfirði) og Skagafirði og hafa verið skipulagðir fundir/námskeið á þessum stöðum í byrjun júní.
Minnt er á að frá og með mánudegi 25. maí mega allt að 200 manns koma saman.