Posted on

GARÐYRKJURIT/FÉLAGSSKÍRTEINI og ÓKEYPIS RÓSIR

Fjallaskógarlilja (Erythronium sibiricum)

Af óviðráðanlegum ástæðum hefur prentun og útsending nýrra félagsskírteina sem og Garðyrkjuritsins tafist þó nokkuð í ár. Við vonumst þó til að hvoru tveggja rati til okkar úr prentvélunum hvað úr hverju og verður þá um leið sent til allra skuldlausra félaga.

Fjallaskógarlilja (Erythronium sibiricum)

Myndin er tekin í Lystgarði Akureyrar rétt áður en snjó tók að falla í byrjun liðinnar viku og sést hér Fjallskógarlilja (Erythronium sibiricum) sem myndar þar afar fallega blómstrandi breiðu.
(Höf: Kristján Friðbertsson )

Í fyrra bar nokkuð á því að sendingin væri að berast til fólks jafnvel 1-2 mánuðum of seint, af óskiljanlegum ástæðum. Til að spara félaginu pening, en ekki síst í von um að lágmarka slík vandræði stefnum við að því að bera sjálf út eins mikið og við mögulega getum.

Skráðir félagar sem vilja aðstoða við dreifinguna, mega endilega hafa samband við skrifstofu félagsins ( gardurinn@gardurinn.is ) og er þeim sem nú þegar hafa haft samband hjartanlega þakkað fyrir.

Við biðjum félaga að sjálfsögðu velvirðingar á þessum töfum og þökkum þolinmæðina. Skv okkar upplýsingum taka öll fyrirtæki sem afslætti veita enn við gamla skírteininu þar til hið nýja er komið í umferð.

Kartöflur
Enn eru örfáar ósóttar pantanir á skrifstofunni og hvetjum við viðkomandi aðila til að endilega sækja sem fyrst, svo þetta dagi nú ekki uppi, eða fari jafnvel að skemmast á meðan beðið er.

Ókeypis rósir
Óðum styttist í hinn sívinsæla plöntuskiptadag í Reykjavík og vonandi verður hann haldinn víða í ár. Meðan hans er beðið er tilvalið að næla sér í ókeypis rósarunna!

Rósaklúbbur GÍ ( facebook.com/groups/399986060113202 ) ætlar að hittast miðvikudaginn 18. Maí kl 17:00 í Rósagarðinum í Laugardal, skammt frá Grasagarðinum. Þar verða rósir klipptar, rótarskot fjarlægð og snyrt aðeins til. Ekki bara góð skemmtun, heldur frábær leið til að fræðast um rósir og meðhöndlun þeirra.

Þeir sem taka þátt í verkinu fá að vanda að taka með sér rótarskot heim og eignast því nýja plöntu fyrir vikið. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í FB hóp rósaklúbbsins, sem vísað er í hér á undan.

18. maí er raunar Safnadagurinn og því tilvalið að skella sér svo í Grasagarðinn. Þar hefst t.d. fræðsluganga kl 20 um villtar erfðalindir nytjaplantna.