Vetur gengur í garð um þessar mundir og flestir garðeigendur farnir að huga að öðrum áhugamálum, svo sem frímerkjasöfnun, kórstarfi, fluguhnýtingum, prjónaskap og bóklestri, innandyra. Þó eru nokkrir sem láta ekki deigan síga og reyna að halda lífi og litum í görðum sínum sem allra lengst. Því miður eru lífdagar flestra sumarblóma taldir, yfirleitt þola þau ekki vel frost og leiðindaveður þannig að finna þarf aðrar tegundir plantna sem geta komið í þeirra stað.
Sígrænar plöntur eru augljóst val og hafa margir farið út í það að setja sýprusa, lífviði, eini eða aðrar sambærilegar tegundir í kerin sín fyrir veturinn, sérstaklega á þetta við ker við innganga húsa og á sólpöllum þar sem enn er hægt að setjast út á góðviðrisdögum. Græni liturinn yljar vissulega um hjartaræturnar en til að verða verulega glaður í bragði þarf að sjálfsögðu fleiri liti (þetta er ekki skot á framsóknarmenn). Þar koma lyngplönturnar til sögunnar.
Lyngplöntur, eða Erica, eins og ættkvíslin nefnist á latínu, eru, eins og nafn hópsins gefur til kynna, af lyngætt, Ericaceae. Innan ættkvíslarinnar eru um það bil 700 sígrænar tegundir sem blómstra litlum krukkulaga eða klukkulaga blómum af ýmsum stærðum. Blómin eru í bleikum eða hvítum litum og þau standa í klösum á endum greinanna. Blöðin geta verið allt frá því að vera dökkgræn, yfir í silfurgrá eða jafnvel heiðgul. Þau eru pínulítil og upprúlluð og minna í fljótu bragði á nálar barrplantna. Þessi lögun blaðanna hefur þau áhrif að þau þola kulda vel án þess að skemmast. Blómgunartími lyngplantna er venjulega á haustin, að vetrinum eða á vorin, mismunandi milli tegunda. Vaxtarlag lyngplantna er fjölbreytt, allt frá lágvöxnum runnum yfir í runna sem geta náð allt að 6 m hæð.
Notagildi lyngplantna er fjölbreytt. Erlendis eru vetrarblómstrandi lyngplöntur gjarnan notaðar sem þekjuplöntur í svonefndum vetrargörðum. Þar er raðað saman mismunandi tegundum lyngplantna og er bæði horft á blómlit, blaðlit og blómgunartíma við niðurröðunina því mikilvægt er að slíkir garðar séu fallegir allt árið. Ýmist eru lyngplönturnar notaðar einar sér, með öðrum tegundum af lyngættinni eða sígrænum tegundum af ýmsu tagi. Hérlendis eru lyngplöntur aðallega notaðar í ker og potta, enn sem komið er en full ástæða er til að prófa sig áfram með það að nota þær í beð.
Lyngplöntur þrífast yfirleitt best í frekar súrum og vel framræstum jarðvegi en vetrarblómstrandi lyngplöntur er hægt að rækta í venjulegri mold, það þarf ekki að eltast sérstaklega við súru moldina. Lyngplönturnar þurfa bjartan vaxtarstað og þola vel vind en mikilvægt er að gæta þess að þær þorni ekki upp, það vill oft gleymast yfir veturinn að plöntur þurfi vökvun. Strax eftir útplöntun þarf að vökva plönturnar vel og svo er rétt að hafa vökvunina í huga þegar frostlaust er yfir veturinn. Yfir blómgunartímann er einnig gott að vövka plönturnar með daufri áburðarblöndu á um það bil fjögurra vikna fresti, það tryggir að þær þrífast vel og þola betur vetrarveðrið.
Á Íslandi hafa einkum verið notaðar þrjár tegundir lyngplantna; roðalyng, Erica cinerea, vorlyng, Erica carnea og klukkulyng, Erica x darleyensis, allt lágvaxnar tegundir. Plönturnar eru yfirleitt fluttar inn blómstrandi síðla sumars og seldar í gróðrarstöðvum og blómaverslunum á haustin. Mörg mismunandi yrki eru til af viðkomandi tegundum og smám saman er að koma reynsla á það hvaða yrki koma best út. Ein af vinsælli lyngplöntunum er vorlyng ‘Winter Beauty’ sem er lágvaxið lyng með dökkgrænt lauf og skærbleik klukkulaga blóm og blómstrar það að vori til, yfirleitt í mars-maí.
Íslenska beitilyngið, Calluna vulgaris, er náskyldur ættingi lyngplantnanna og fást einnig mörg yrki af innfluttu beitilyngi. Eins og íslenski ættinginn blómstra innfluttu beitilyngsyrkin frá því á miðju sumri og langt fram á haust, jafnvel fram yfir jól þegar haustið er milt.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)