Eins og undanfarin ár gengst Hvannir, matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.
Frá og með 11. september geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu pantað lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/vefverslun/). Gera þarf pöntun í síðasta lagi miðvikudaginn 18. september.
Um er að ræða fimm gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá miðlara í Svíþjóð. Ein ný tegund er í boði (Aulxito), en aðrar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða hvítlauksafbrigðin Aulxito, Germidour, Messidrome, Sabagold og Thermidore. Shallot laukurinn er af afbrigðinu Longor.
Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður heildsalanum í Svíþjóð gert viðvart og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, fyrir miðjan október og þá er best að planta lauknum strax út í beð.
Hver hvítlaukur kostar 800 krónur en schalottlaukurinn 190 krónur.
Nánar um laukana
GERMIDOUR: Snemmsprottinn og öflugur laukur, fjólublár, 8-20 rif. Flöt grös og auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka á grasinu. Uppskera um eða upp úr miðjum ágúst (örlítið fyrr en Thermidrome).
THERMIDROME: Snemmsprottinn, stór laukur, 14-21 rif. Öflugt afbrigði. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka. Uppskera upp úr miðjum ágúst.
SABAGOLD: Snemmsprottinn og stór laukur, svolítið fjólublár, 10-18 rif. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera um eða uppúr miðjum ágúst.
MESSIDROME: Snemmsprottinn, ekki stórvaxinn, örlítið fjólublár, 14-18 rif, fléttast vel saman til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka. Af mörgum talinn vera hinn klassíski franski hvítlaukur.
AULXITO: Nýleg sort, frekar stór laukur, hvítur, ca. 15-20 rif. Hentar mjög vel til geymslu. Grösin henta ekki til að flétta saman. Getur myndað æxlilauka. Á að vera snemmsprottinn.
LONGOR shallot laukur: Settur niður að hausti, má taka upp í byrjun ágúst árið á eftir. Vex í stjörnu – hver laukur getur allt að sexfaldast. Hentar vel til geymslu.