
Sumarið á Íslandi getur verið æði misjafnt og oftar en ekki svo sólríkt á einum stað að páfagaukar sjást fljúgandi um, en nægileg hellidemba á öðrum að flóðhestar mæta í heimsókn. Við höfum því gott af því að nýta okkar innri íslensku náttúru og vera við öllu búin. Höfum plöntur í einu horni sem blómstra lítið sum árin, en þegar sumarið er nógu gott er blómstrið þeirra fegurra en nokkuð annað. Í öðru horni er heldur lítilfjörlegra blómstur, en það blómstrar alltaf, sama hvernig viðrar. Við fyllum svo í eyðurnar með frábærum sumarblómum og vorlaukum, á meðan heildarstrúktur garðsins mótast af trjánum.
Ekki get ég sýnt ykkur þetta allt í smáatriðum, en hvert ár hefur 52 vikur og því tók ég sama fjölda mynda og smellti hér inn í nokkrum skömmtum. Tilvalið þótti mér að bjóða ykkur upp á smáréttahlaðborð með nokkrum bitum frá árinu 2019 og kemur nú annar skammtur af 4 hér. Reyndar bættust nokkrir konfektmolar við á lokametrunum, svo við förum kannski rétt aðeins yfir 52stk. Þessi skammtur inniheldur júní og júlí.
Júni er ekki síðri túlipana mánuður en maí. Á björtum júní degi flæðir vatn í farvegi föstum úr Elliðavatni niður dalinn, í för sinni til sjós. Fátt gæti fegrað þessa sýn betur, en hin sífögru al-íslensku þjóðarblóm blágresi og alaskalúpína, hlið við hlið í sönnu bræðralagi. Hjartablómið fagra heldur enn gamla latneska heitinu (Dicentra spectabilis) í mínum huga, enda er það svo sérstakt að ég vil bara halda því nákvæmlega eins og það er. Hér dansar það við ungar plöntur skógarmölvu (Malva sylvestris). Maríustakkurinn (Alchemilla mollis) er mörgum fremri í varðveitingu daggar og regndropa. Fegurð þessara tára Maríu gefur öðrum meðlimum rósaættarinnar lítið eftir. Hér nýtur hann þó aðstoðar sóleyjaættarinnar, auk þess sem glyttir í munablómaættina. Hún vildi bara rétt minna á sig.
Fátt gefur jafn mikla litadýrð snemma sumars í garðinn og úrval túlipana.Smávaxnir túlipanar gefa þeim stórvöxnu ekkert eftir. Goðalykillinn (Dodecatheon meadia) er enn ein sérstaka sífagra plantan sem enginn ætti að vera án. Ummerki birkikembunnar sjást víða í júní mánuði. Ilmgullrunninn (Hypericum androsaemum) gerir hin fagurblómstrandi afbrigði skjaldfléttunnar (Tropaeolum majus) nánast konungleg. Í júnílok er hvíta afbrigði blásólarinnar hlaðið blómum. Íðilfagri tromptúlipaninn ‘Marjolein Bastin’ gefur fegurstu rósum ekkert eftir. Byrjar hvítur með örlitlum votti af bleiku, sem smitast smám saman yfir allt blómið. Þessi fallegi bleikblómstrandi vatnsberi leyfir hér túnfífilsfræi að hvíla sig um stund, á leið sinni að leggja nýtt land undir fót. Ljúft er útsýnið af þessu fjalli, en ekki síðra er lambagrasið (Silene acaulis) við fætur mér. Rifsþélu lirfur eru hér komnar á skrið. Sól, sól, sól… sama hvert maður lítur ! Í breskum almenningsgarði einn júlí eftirmiðdag varð þessi ómótstæðilega rós á vegi mínum. Á Botnsheiðinni, milli Ísafjarðar og Súgandafjarðar, er lítið um umferð nútildags. Fögur íslensk flóra heldur þó þar til og hvorki fífur né burknar láta sig vanta. Sólardagarnir í júlí, á Suðureyri við Súgandafjörð, eru engu líkir. Blómstrandi eldlilja í einum fallegasta garði svæðisins er svo punkturinn yfir i-ið. Breiður af blómstrandi bleikum sigurskúf (Chamerion angustifolium) eru hreinlega stórkostlegar og augljóst hverjum sem sjá vill, að hann er af eyrarrósarætt. Á Mýrunum toguðu fagrar breiður af blönduðu lyngi augað til sín. Blómstrandi beitilyng bar þó höfuð og herðar yfir rest. Asíusóleyjar (Ranunculus asiaticus) gleðja mig gríðarlega síðsumars. Aðrir eru tilbúnir til að fljúga langar leiðir til að berja þær augum. 2019 náði júlí mánuður ekki 200 sólarstundum í Reykjavík, en tvöfaldaði þó rúmlega þær 90stundir sem voru í boði árið áður. Meðalhitinn hækkaði um meira en fjórðung. Litadýrðin ljómaði í sólargeislunum, eins og sjá má. Hér blandast saman ljónsmunni (Antirrhinum majus), asíuliljur, rauð dahlia, apablóm og skógarmalva á fallega grængróinn bakgrunn. Hér drjúpa tár regnguðanna af grasstrái niður á tárablómið. Hér vex sérlega snúið hvítt fingurbjargarblóm. Hin fallega gula stórabjörg (D. grandiflora) slakar hér á í sólinni. Fegurðargildi dill plöntunnar er oft vanmetið.