Höf. Kristján Friðbertsson
Sumarið á Íslandi getur verið æði misjafnt og oftar en ekki svo sólríkt á einum stað að páfagaukar sjást fljúgandi um, en nægileg hellidemba á öðrum að flóðhestar mæta í heimsókn. Við höfum því gott af því að nýta okkar innri íslensku náttúru og vera við öllu búin. Höfum plöntur í einu horni sem blómstra lítið sum árin, en þegar sumarið er nógu gott er blómstrið þeirra fegurra en nokkuð annað. Í öðru horni er heldur lítilfjörlegra blómstur, en það blómstrar alltaf, sama hvernig viðrar. Við fyllum svo í eyðurnar með frábærum sumarblómum og vorlaukum, á meðan heildarstrúktur garðsins mótast af trjánum.
Ekki get ég sýnt ykkur þetta allt í smáatriðum, en hvert ár hefur 52 vikur og því tók ég sama fjölda mynda og smellti hér inn í nokkrum skömmtum. Tilvalið þótti mér að bjóða ykkur upp á smáréttahlaðborð með nokkrum bitum frá árinu 2019 og kemur nú annar skammtur af 4 hér. Reyndar bættust nokkrir konfektmolar við á lokametrunum, svo við förum kannski rétt aðeins yfir 52stk. Þessi skammtur inniheldur júní og júlí.