Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 1 af 4)

Prímatarnir með hvað nyrsta búsetu í heiminum eru snjóaparnir í Japan. Við undanskiljum mannskepnuna auðvitað. Þeir kuldasæknustu finnast við 41. Norðlæga breiddargráðu. Lítið eitt Suð-Vestan við Kúrileyjar, Austan við Vladivostok og nyrsta hluta N-Kóreu. Kunnuglegar slóðir fyrir áhugafólk um trjáfræ. Samt bara svipaðar slóðir og Barcelona, ef horft er til Evrópu. Ég minni lesendur á að Ísafjörður og Akureyri eru við 66 og 65 gráður Norður. Svo ég vorkenni þeim ekkert of mikið. Risapöndur finnast hins vegar í Kína og fara ekki mikið norðar en 38 gráður, ef einhver er að velta því fyrir sér.

Ryogin-an
Stórkostlega garða má finna í tengslum við japönsk musteri og hof. Hér er mynd úr Ryogin-an, sem er eitt af hofunum innan Tofuku-ji í Kyoto. With great thanks to Damien Douxchamps for providing us with this photo.

 

Við deilum ýmsu sem snýr að náttúrunni og japönsk garðlist sækir oft hugmyndir þangað. Plöntur veðurbarnar og mótaðar við erfiðar aðstæður af náttúrunnar hendi er þar vinsælt dæmi. Svo sækjum við í hugmyndabanka þessarar garðlistar, sem og japanska flóru.

 

Lensuvíðir getur hjálpað til við austurlenskt yfirbragð, eins og sést hér á mynd úr Grasagarði Reykjavíkur. Hægra megin sýnir mynd úr garði Derek Mundell fallegan afrakstur þess að velja vel saman plöntur og efni, sem dæmi þetta fagra yrki garðkvistils. Í miðjunni er svo krúttleg mynd af Jizo styttu að hausti í ómótstæðilegum garði Enko-ji musterisins í Kyoto.
Fyrsta og síðasta myndin: Kristján Friðbertsson
Miðju myndin: Damien Douxchamps
With great thanks to Damien Douxchamps for providing us with this lovely Jizo photo. https://damien.douxchamps.net/photo/japan/kyoto/hieizan/enkoji/

 

Hversu lengi hefur Garðar búið í Japan?

Japanshlynir, bonsai tré, hvítur sandur og möl. Allt er þetta hluti hefðbundinna japanskra garða. Hönnun horfir oft til slökunar og hugleiðslu og endurspegla garðarnir oft mismunandi tímabil í sögu landsins. Goðsagnir, hefðir, trúarbrögð og náttúruöflin fá öll sína hyllingu. Fegurð hins smáa er sett í samhengi við eilífðina, svo ekki sé minnst á hið alræmda jafnvægi í ójafnvæginu.

Líkt og með gömul, falleg málverk sjáum við fyrst stóru myndina. Lítið virðist breytast, en í hverri nýrri heimsókn tökum við eftir nýjum smáatriðum og hægfara breytingum. Þetta er afar frjór jarðvegur hugmynda að sækja í og okkar að ákveða hvað heillar okkur mest. Einhverjar afmarkaðar hugmyndir, eða heill garður eftir tilteknu þema. Kynnumst hér rétt aðeins hugmyndunum um svokallaða mosagarða, Zen garða og „röltgarða“.

 

„Röltgarður“ (e. Stroll/Tour Garden)

Við erum á óvissuferðalagi og uppgötvum reglulega nýja fegurð. Hér snýst allt um óreglulega og hlykkjótta stíga sem ýta undir hugarfarið að njóta ferðalagsins, ekki áfangastaðarins. Hér á garðhönnun að finna mismunandi sjónarhorn, fela þau á ákveðnum stöðum, en annars staðar draga þau í fókus og hlúa að þeim. Tengja þau svo öll saman á óvæntan og óreglulegan hátt. Garðurinn snýst ekki endilega um sig sjálfan og eigin fegurð, heldur visst þjónustuhlutverk við fegurðina.

Fegurðin getur verið landslagið umlykjandi, ýmsir hlutar garðsins, eða jafnvel miðpunktur sem stígurinn færir okkur breytilega sýn og upplifun á. Falleg tjörn með þéttum gróðri allt um kring og hlykkjóttur stígur beinir okkur til skiptis til og frá tjörninni. Á ferðalaginu römbum við ýmist á bakka tjarnarinnar, eða sérstakt sjónarhorn á hana opinberast okkur gegnum gróðurinn.

Sem dæmi um slíkan röltgarð má nefna hinn undurfagra Gyokusen-en, í Kanazawa. Hönnun hans má rekja til baka til kóresk-ættaða samúræjans Wakita Naokata á fyrstu árum 17. aldar og erfingja hans í framhaldinu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þarf útpæld hönnun ekki að þýða að allt eigi að vera glansandi og laust við náttúru:

Gyokusen-en
Hefðbundni röltgarðurinn Gyokusen-en sýnir okkur hér steina sem stiklur í notalegri, mosavaxinni náttúru. Mynd fengin af Wikimedia Commons: https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Gyokusenen_Kanazawa_Ishikawa11n4272.jpg

 

Zen garður:

Steinar, stórir og smáir eru hér vanalega ríkjandi. Rakstur á möl, eða sandi, til að jafna út, hreinsa eða skapa ákveðin mynstur, gerist hér á sérstakan hátt sem hugleiðsla. Steinar og sandur taka reyndar oft að sér myndlíkingar hlutverk fjalla, eyja eða vatns í japönskum görðum. Garðurinn er afar einfaldur, með lágmarks truflunum. Sniðinn að andlegri íhugun, næði, slökun og hugleiðslu. Plöntum oft haldið í lágmarki og helst ýtt út á jaðarinn.

Á praktísku nótunum nýti ég tækifærið og minni á að gróðurdúkur undir möl reynist oftar en ekki böl. Lausum, fínkorna sandi er afar þægilegt að fjarlægja amagróður úr, en hann fýkur óþarflega auðveldlega. Gróf möl hentar betur, en mikilvægt að hún sé ekki grófari en svo að auðvelt sé að raka gegnum hana. Ekki bara upp á hugleiðsluna, heldur til að fjarlægja lauf og annað sem fýkur eða festir rætur.

Að þessu sögðu, í zen garði eiga öll garðverk að vera hugleiðsla og tengja okkur við eilífðina. Í slíkum garði eru engin garðverk lengur framundan, bara hugleiðsla og því hægt að eyða hverjum degi áhyggjulaus þar. Á vindasömum stað væri það eflaust ágætis æfing í þolinmæði að nota fínan pússningasand og gera (og viðhalda) flóknum formum í sandinum.

Þó mosi vaxi í myrkri, getur mosagarður verið bjartur. Fléttur geta svo gefið frekari ævintýrablæ, líkt og þessi nýlenda af álfabikar í Meltungu sýnir.
Mynd: Kristján Friðbertsson

 

Mosa garður:

Íslendingar eru hvað vanastir því að þekjuplantan í garðinum sé einhver tegund af grasi. Annað er oft fjarlægt, ekki síst mosi. Í mosagarði snýst þetta við. Þekjuplantan hér er mosi og eitt af því sem við viljum alls ekki að birtist innan um mosann, er gras.

Rakur jarðvegur og/eða hár loftraki er oftast lykilatriði í mosavexti, auk skugga. Stór tré geta því verið í stoðhlutverki hér (er ekki alaskaöspin frábær?) á meðan smærri tré, burknar og annað slíkt fær þá aukinn fókus sem skraut í garðinum.

Steinar eru líka notaðir, en þá helst sem stiklur til að stíga á eða stórir steinar til þess gerðir að þekjast af mosa og tákna þá oft eyjur. Í íslenskri útfærslu mætti sjá fyrir sér klettaveggi við íslenska fossa, þakta mosum og burknum, sem eins konar fyrirmynd og ýmsir gróðurveggir gætu því passað vel í slíkum garði.

Til að koma í gang mosagarði er heppilegt að dreifa sundurklipptum mosa á viðeigandi staði. Oft er stungið uppá “súrmjólkurtrikkinu”, þar sem mosi er tættur og blandað við súrmjólk. Það gerir þægilegra að dreifa úr honum, heldur honum frá því að fjúka og gefur honum strax nokkurn raka. Súrmjólkinni er svo hægt að smyrja, sletta eða dreifa með þeim hætti sem best hentar hverju sinni.

Það tekur tíma að mynda góða mosaþekju og mikil nákvæmnisvinna að viðhalda henni. í Japan er þetta oft merki um þolinmæði, en í stórum görðum þótti það frekar merki um völd og peninga, því viðkomandi var þá með hópa af fólki sem sáu um verkið. Algengt er að leyfa mosa og fléttum að vaxa á trjám og steinum, ekki síður en sem þekja á stóru svæði, eða jafnvel þaki. Í „kokedama“ listinni á hann sér svo mikilvægt hlutverk við að binda saman kúluna og halda henni rakri.

Í næsta hluta skoðum við svo betur hvað við þurfum að setja í japanska garðinn okkar.

(Allar myndir eru höfundar, nema annað sé tekið fram. Athugið að flestar myndir í þessum greinarflokk er hægt að stækka með því að smella á þær.)