Veturinn á Íslandi gengur í mínum huga í garð eftir jólin. Þegar búið er að taka jólaljósin niður og eftir standa naktar trjágreinar, ljóslausar og umkomulausar í vetrarmyrkrinu, þá er veturinn mættur á svæðið. Sumar trjágreinar bera sig þó betur en aðrar og komast vel frá viðureign sinni við veturinn. Þær halda sínu, hvernig sem viðrar. Þetta eru sígrænu greinarnar sem tilheyra þeim örfáu tegundum trjám og runna sem halda blöðunum allan veturinn. Grænn litur þessara greina gerir veturinn hlýlegri til muna og heldur í okkur voninni um vorið.
Umhleypingar vetrarins gera sígrænum tegundum erfitt fyrir, sérstaklega hérna á suðvesturhorni landsins. Annars staðar á landinu, þar sem veturinn er stöðugri, eiga þessar tegundir auðveldar uppdráttar enda líkjast veðurskilyrði þar meira því sem þær eiga að venjast úr heimkynnum sínum. Sólfar á útmánuðum getur reynst sígrænum plöntum skeinuhætt, þá er oft á tíðum frost í jörðu og erfitt að ná í vatn. Þegar sólin skín á blöð plantnanna hitna blöðin og gufa út vatni til að kæla sig en þar sem jarðvegurinn er frosinn ná plönturnar ekki að bæta sér upp vatnstapið. Afleiðingarnar verða sviðin og skrælnuð blöð eða nálar. Til að forðast þetta er rétt að skýla ungum plöntum fyrir sólinni, fyrstu tvo til þrjá veturna. Nokkur sviðin blöð stöðva hins vegar engan í því að koma sér upp fallegum vetrargarði sem býður mann velkominn í grænan faðminn allt árið um kring.
Við skipulagningu á vetrargarðinum þarf að hafa í huga stærð viðkomandi garðs. Á stóru svæði koma margar tegundir til greina sem eiga það sameiginlegt að verða hávaxnar og tignarlegar, þær þurfa líka gott pláss til að dafna vel. Í þessum hópi eru til dæmis sitkagreni (Picea sitchensis), hvítgreni (Picea glauca), stafafura (Pinus contorta) og bergfura (Pinus uncinata). Það er líka um að gera að reyna að sjá fyrir sér hversu þokkafullar plönturnar eru þegar þær eru hlaðnar nýföllnum snjó eða hvernig þær taka sig út alklæddar jólaseríum.
Lágvaxnar sígrænar tegundir eru aftur á móti hentugri í litla garða eða í beð með öðrum lágvöxnum gróðri. Steinabeð eru ákaflega fallegur bakgrunnur fyrir slíkar tegundir auk þess sem grjótið veitir plöntunum hlýju því það hitnar á daginn og gefur frá sér varma á nóttunni þegar það kólnar smám saman. Nú hefur færst í vöxt að garðeigendur leggja áherslu á að við inngang húsa sinna sé fremur lágvaxinn gróður sem ekki skyggir á húsið sjálft og býður fólk velkomið. Sígræni gróðurinn skipar þarna stóran sess því hann gleður augað allan veturinn og græni liturinn færir okkur birtu og yl í svartasta skammdeginu.
Í hópi lágvaxinna sígrænna tegunda eru til dæmis fjallafura (Pinus mugo var. mughus) og dvergfura (Pinus mugo var. pumilio) sem eru runnkenndar og fremur breiðvaxnar. Einitegundir eins og til dæmis íslenski einirinn (Juniperus communis), með sitt dökkgræna barr og himalajaeinirinn (Juniperus squamata), sá gráblái, auka fjölbreytnina í gróðurbeðunum til muna. Einnig mætti benda á dverghvítgreni (Picea glauca ‘Konica’) sem er ekki nema 1-2 m á hæð og áberandi keilulaga í vaxtarlagi og japansýr (Taxus cuspidata ‘Nana’) sem er dökkgrænn runni, um 1 m á hæð og breidd og skuggþolinn.
Nú er um að gera að setjast niður og skipuleggja vetrargarðinn sinn þannig að hægt sé að planta í hann í sumar og gleðjast yfir honum næsta vetur.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)