Valkvíði er hugarástand sem garðyrkjufólk um allan heim þekkir af eigin raun. Sumir eiga við þetta hugarástand að stríða allt árið um kring en aðrir fyllast valkvíða á ákveðnum árstímum. Janúar er einmitt dæmigerður valkvíðamánuður hjá þeim garðræktendum sem leggja stund á ræktun sumarblóma. Þetta kann að hljóma svolítið undarlega, sérstaklega þegar maður lítur út um gluggana heima hjá sér og sér snjóþekjuna yfir öllu, vindurinn gnauðar og skafrenningurinn læðir sér yfir landið. Þá þarf að hafa í huga að einbeittustu sumarblómaræktendur sjá ekki snjóinn og skafrenninginn í raun og veru, þeir hafa litskrúðug sumarblómabeð fyrir sínum hugskotssjónum, eru kannski langt komnir með að skipuleggja útlit beðanna, litasamsetningin er alveg að smella saman en tegundavalið er eftir. Þar komum við að valkvíðanum.
Síðustu ár og áratugi hefur úrval af sumarblómategundum farið vaxandi. Notkun á sumarblómum hefur líka breyst mikið, áður fyrr lögðu menn meira upp úr hefðbundnum sumarblómabeðum en í dag er aukin áhersla á ræktun á þessum tegundum í ýmiss konar ílátum. Þetta hefur kallað á örlítið breyttar áherslur í sumarblómauppeldi, dæmigerðar beðplöntur eins og stjúpur, fjólur og morgunfrúr hafa dalað í vinsældum en pottaplöntur af ýmsum gerðum, svo sem hengitóbakshorn, snædrífa og brúðarstjarna aukið vinsældir sínar.
Fjöldi litaafbrigða og yrkja með mismunandi vaxtarlag eru atriði sem eru kynbætendum sumarblóma augljóslega hugleikin. Ár hvert sjáum við nýjar gerðir af gömlu blómunum á markaði. Eitt árið kom fram nýr ljónsmunni sem var sérstaklega ætlaður í hengipotta enda var hann vaxinn eins og hengiplanta. Almennt eru ljónsmunnar annars teinréttir og geta orðið ansi hávaxnir. Fjólur eru annað dæmi um slíkar nýjungar í vaxtarlagi en hengifjólur voru ætlaðar í hvers manns pott fyrir örfáum árum. Þannig hafa kynbætendurnir komið fram með nýtt vaxtarlag á gömlum og þekktum tegundum til að svara aukinni eftirspurn eftir plöntum í ker og potta. Varðandi litina þá er allt undir í þeim efnum. Svartar stjúpur og fjólur voru ákaflega vinsælar eitt árið, KR-ingar keyptu þessar tegundir í miklu magni og gróðursettu með hvítum plöntum sömu tegunda, röðuðu þeim niður í huggulegar samsíða raðir og dáðust að merki íþróttafélagsins síns allt sumarið. Stundum hafa blóm í pastellitum verið ákaflega vinsæl og þá skiptir máli fyrir seljendur sumarblómafræja að hafa slík fræ á boðstólum, sumarblómaræktendur eru þrælar tískustrauma rétt eins og fatakaupendur á hverjum tíma.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá getur verið ansi erfitt að gera upp hug sinn gagnvart sumarblómunum. Hvar á maður að fá upplýsingar um það hvaða litir verði inni í sumar? Ekki vill maður eiga púkalegasta blómabeðið í bænum með liti sem voru kannski í tísku fyrir þremur árum og enginn meðvitaður sumarblómatískufrömuður lætur sjá í garðinum sínum. Svo er ekki eins og hægt sé að skipta um skoðun á miðri leið, það verður að sá til blómanna á réttum tíma svo þau blómstri nú einhvern tíma í sumar. Ætli miðilsfundir hjálpi?
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)