Sambýli tveggja lífvera er skilgreint þannig að þær deila saman lífskjörum og báðar lífverurnar hagnast á samlífinu. Í ljósi nýafstaðinna kosninga dettur manni í hug að þetta gæti verið lýsing á samstarfi sjálfstæðis- og framsóknarflokks eða sjálfsóknarflokksins, eins og gárungarnir hafa viljað nefna þetta sambýlisform. Þetta gæti svo sem einnig verið lýsing á góðu hjónabandi enda er það kannski það sambýlisform sem er hampað mest í dag. Í ríki plantna er hjónabandið þó harla léttvægt enda lítið um slíkar vígslur á þeim slóðum, þótt plöntur séu samt sem áður ómissandi við hjónavígslur. Sambýli plantna við aðrar lífverur getur verið með ýmsum hætti og er ótrúlegt að sjá þá útsjónarsemi sem hefur þróast hjá náttúrunni í gegnum tíðina, skýtur hún jafnvel útsmognustu stjórnmálaflokkum ref fyrir rass.
Plöntur af ertublómaætt, Fabaceae, búa í sambýli við ættkvísl rótarbaktería af ættkvíslinni Rhizobium. Bakteríur þessar eru þeirrar náttúru að þær geta unnið nitur (köfnunarefni, N) úr andrúmslofti við loftfirrðar aðstæður. Bakteríurnar eru til staðar í jarðvegi og þegar planta af réttri tegund eða ættkvísl er gróðursett í viðkomandi jarðveg fer sérstakt boðefni milli róta plöntunnar og bakteríunnar. Boðefnið gerir það að verkum að rótarhár plöntunnar vaxa í átt að bakteríunni og rótin hringar sig utan um bakteríuna. Bakterían sýkir rótina og gerir það að verkum að á rótum viðkomandi plöntu myndast litlir hnúðar. Inni í hnúðunum er aragrúi baktería sem vinna að því nótt sem nýtan dag að breyta nitri úr andrúmslofti í nitursambönd sem nýtast plöntunni til vaxtar og viðgangs. Í staðinn fyrir nitursamböndin fær plantan sykrur og vatn frá plöntunni.
Nitur er það aðalefni sem er mest takmarkandi fyrir vöxt plantna því það binst ekki vel í jarðvegi, skolast auðveldlega út úr jarðveginum en er jafnframt lífsnauðsynlegt fyrir plöntur. Það er því greinilegt að þetta tiltekna sambýli plöntu og bakteríu er ákaflega mikilvægt fyrir viðkomandi lífverur. Fleiri lífverur geta þó notið góðs af þessu sambýli því sýnt hefur verið fram á það að plöntur sem sambýli við Rhizobium á rótum eru leka þannig að alltaf sleppur svolítið af nitursamböndum út úr rótum plantnanna. Þessi nitursambönd geta nálægar plöntur tekið upp og nýtt sér. Það er því hagstætt að gróðursetja niturbindandi plöntur á rýrt land því þær framleiða áburð sem annars væri ekki til staðar, nema þá kannski í örlitlu magni.
Elritegundir af bjarkarætt eru með annars konar sambýli á rótum sínum. Þær búa í sambýli við lífveru sem kallast geislasveppur og er nokkurs konar millistig milli svepps og bakteríu. Geislasveppur elriplantnanna nefnist Franckia og bindur hann, líkt og rótarbakteríurnar sem áður voru nefndar, nitur úr andrúmsloftinu. Nitursamböndin sem verða til við þetta nýtir plantna sér og sveppurinn fær sykrur og vatn frá móðurplöntunni. Geislasveppirnir mynda litla rótarhnúða á rótum elriplantnanna. Við uppeldi elriplantna skiptir öllu máli að smita plönturnar með þessum geislasvepp til að plönturnar þrífist eðlilega. Garðyrkjumenn safna því saman lifandi rótarhnýðum, kremja þau og leysa upp í volgu vatni og vökva yfir nýjar elriplöntur. Þessa vökvun með geislasveppssmiti getur þurft að endurtaka nokkrum sinnum áður en plönturnar smitast almennilega. Hægt er að sjá það á plöntunum hvort smitunin hefur heppnast. Smitaðar plöntur eru fallega dökkgrænar á litinn en ósmitaðar elriplöntur eru gjarnan með verulega rauðleit blöð, svona eins og þær hafi farið hjá sér og roðnað.
Sambýli við niturbindandi lífverur gerir það að verkum að viðkomandi plöntur standa mun betur að vígi á rýru landi en plöntur sem ekki hafa slíkt sambýli. Þessar sambýlisplöntur eru því oft á tíðum ákaflega heppilegar til landgræðslu, eins og dæmið um alaskalúpínuna sannar.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)