Saga garðyrkju á Íslandi er ekki löng. Hún hefur, öðru fremur, einkennst af atorkusemi einstakra manna sem þrjóskuðust við það að rækta plöntur þrátt fyrir óblíð veðurskilyrði. Enn fremur máttu þessir menn glíma við ótrú almennings á því að gróður gæti yfirhöfuð þrifist á Fróni. Hlutur áhugafólks í garðyrkjusögunni er ómetanlegur. Ótölulegur aragrúi plöntutegunda hefur verið prófaður í görðum um land allt og sá fróðleikur sem þar hefur aflast hefur svo sannarlega skilað sér áfram til þeirra sem vinna við garðyrkju. Garðyrkjusaga Íslands er samtvinnuð sögu þessara áhugamanna en ekki síður er hún saga einstakra tegunda. Margar plöntutegundir í ræktun í dag eiga sér merkilega sögu. Ein þessara tegunda er nefnd því glæsilega nafni ,,frönsk ilmfjóla”.
Við Suðurgötuna í Hafnarfirði býr Gunnar Ásmundsson bakari. Gunnar fékk ungur mikinn áhuga á garðyrkju. Á fjórða áratugnum starfaði hann í nokkur sumur í garðinum við Hellisgerði í Hafnarfirði. Segja má að þá hafi hann endanlega smitast af garðyrkjubakteríunni og eins og aðrir garðyrkjuáhugamenn vita, er þessi veiki ólæknandi. Hann hefur alla tíð ræktað garðinn sinn og verið ötull við það að breiða garðyrkjuboðskapinn út til gesta og gangandi.
Árið 1953 áskotnaðist honum plantan sem hér verður fjallað um. Ingvar Gunnarsson kennari, sem þá starfaði í Hellisgerðisgarðinum, færði honum hnaus af því sem hann kallaði ,,franska ilmfjólu”. Fjóla þessi stendur í blóma allt sumarið og blóm hennar eru mjög stór af fjólu að vera eða 3-4 cm í þvermál. Fjólan nær um 20 cm hæð og verður feit og pattaraleg með aldrinum. Hún virðist ekki mynda þroskað fræ því hún sáir sér ekki eins og margar frænkur hennar. Fjólunni má fjölga á öruggan hátt með skiptingu eða sumargræðlingum. Gunnar hefur fjölgað henni með skiptingu og haldið tegundinni þannig við allt frá því hann eignaðist hana fyrir rúmum 40 árum. Á þeim tíma hefur hann einnig verið duglegur við það að gefa vinum og kunningjum af fjólunni og þannig hefur hún fengið dágóða útbreiðslu um höfuðborgarsvæðið. Nauðsynlegt er að skýla henni með léttu vetrarskýli á veturna því hún er dálítið viðkvæm. Aðalsmerki ,,frönsku ilmfjólunnar” er þó ilmurinn en hann er sætur og sterkur og berst langar leiðir. Hún á því þetta glæsilega nafn svo sannarlega skilið.
Hitt er annað mál að í gegnum tíðina hefur mikið verið deilt um faðerni viðkomandi fjólu. Fjólan á greinilega fátt sameiginlegt með hinni eiginlegu ilmfjólu, Viola odorata. Fyrir það fyrsta eru blómin alls ekkert lík að lit og lögun og svo hefur ,,franska ilmfjólan” það fram yfir ilmfjóluna að blómin ilma. Blóm þeirrar frönsku eru einnig mun stærri en blóm hinnar. Líklegast er að ,,franska ilmfjólan” sé blendingur af fjallafjólu en í hópi slíkra blendinga má finna plöntur með blóm af svipaðri stærð og lögun og sú franska.
Burtséð frá ættfræði fjólunnar er þetta einstaklega áhugaverð garðplanta. Langur blómgunartími og skrautleg blóm skipa henni í flokk með úrvalsplöntum. Það þykir ekki góð latína að láta syndir feðranna bitna á börnunum og því tel ég réttast að fjólan fái að halda ilmfjólunafninu, jafnvel þótt sýnt sé að hún hafi verið rangfeðruð.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)