Hvenær er kominn tími til að setjast niður og njóta ávaxta erfiðis síns? Er það þegar siggið á hnjánum eftir illgresishreinsunina er orðið nokkurra sentimetra þykkt? Er það þegar búið er að úða allan garðinn með dauðhreinsandi og strádrepandi efni þannig að ekkert kvikt trufli hvíldina? Er það þegar aspirnar í garði nágrannans skyggja ekki lengur á útsýnið því þær voru sagaðar niður í skjóli nætur? Er það þegar heita vatnið í heita pottinum hefur mýkt bakvöðvana, sem eru helaumir eftir kartöfluupptökuna, nægilega til að maður getur teygt sig hjálparlaust eftir hvítvínsglasinu á pottbarminum? Þetta eru auðvitað álitamál sem allir garðeigendur þurfa að spyrja sig að yfir sumarið því til hvers að eiga garð ef maður ætlar ekki að njóta hans líka?
Garður er mjög fjölbreytt fyrirbæri. Hann er síbreytilegur eftir árstíðum, mánuðum, vikum og jafnvel dögum. Veður getur gerbreytt sólríkum og björtum garði í rennblautan fúlapytt á örfáum mínútum. Þessu hafa Danir og Englendingar komist að svo um munar að undanförnu. Garður fullur af litríkum blómstrandi blómum getur orðið einlitur grænn í nokkrum hressilegum vindhviðum. Það er því nauðsynlegt að njóta augnabliksins í garðinum því þau geta horfið í einni svipan og eiga ekki afturkvæmt.
Ýmsir hafa komist að þeirri niðurstöðu að verkin í garðinum séu í raun hvíld í sjálfu sér, það að reyta illgresi eða slá blettinn rói hugann og komi skipulagi á hugsanirnar, auk þess sem líkamleg útrás fæst hugsanlega að einhverju leyti við þessa iðju, fer það þó mikið eftir því hvaða hjálpartæki menn velja sér við framkvæmdina. Aðrir kjósa að drífa leiðinlegu verkin af svo hægt sé að slaka á í græna unaðsreitnum og nú verður hver og einn að skilgreina leiðinleg verk fyrir sig sjálfan. Það að reyta arfa hefur löngum verið talið hundleiðinlegt starf og ákaflega niðrandi fyrir fullfrískt fólk að þurfa að standa í svoleiðis brasi. Þó er til fólk sem heldur því blákalt fram að því finnist hreinlega skemmtilegt að reyta arfa, hluti af ánægjunni sé að sjá árangur erfiðis síns að verkinu loknu.
Sumar eins og við höfum fengið hér sunnanlands í ár gefur garðeigendum ótal tækifæri til að gleðjast yfir sælureitum sínum. Sólbrúnir landar standa við grillin sín í kvöldsólinni kvöld eftir kvöld og snara fram rétti úr garðávöxtum sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur í hlýindunum. Mannlífið er sérstaklega gróskumikið og blómlegt þegar veðurguðirnir leika svona við okkur. Gróður landsins er þó misánægður með ástandið. Margar tegundir plantna blómstra nú sem aldrei fyrr og má þar nefna sýrenur og rósir hvers konar. Nýgróðursettar plöntur eiga hins vegar erfitt uppdráttar enda garðslöngur og vökvunartæki ýmiss konar löngu uppseld víðast hvar um bæinn og má til dæmis sjá skrælnaðar túnþökur víða um bæinn þar sem ekki hefur verið hægt að vökva þær sem skyldi.
Það er ljóst eftir þau orð sem hér hafa farið að framan að verkefni þeirra vikna sem eftir lifa af sumri eru að njóta útiverunnar. Við eigum að tylla okkur niður í veðurblíðunni innan um gróðurinn (sem vonandi fær yfir sig nokkrar hressilegar gróðrarskúrir að næturlagi nokkrum sinnum á næstu vikum) og anda að okkur ilminum af sumrinu. Þannig njótum við best ávaxtanna af erfiði okkar í garðinum og hlöðum rafhlöðurnar fyrir veturinn sem enn er þó vonandi langt undan.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)