Höf. Kristján Friðbert Friðbertsson
28.Október 2025
Stundum eignast fólk akarn, en veit ekki hvað skal gera. Hér eru því smá upplýsingar sem gætu hjálpað.
Akarn er fræ eikartrjáa og getur verið ansi breytilegt milli þeirra ca 500 eikartegunda sem til eru. Þó hver og ein plöntutegund geti haft sínar sérkröfur um meðhöndlun fræja, eru þetta í grunninn þó allt saman fræ og fræ innihalda fóstur. Þessi texti á því að ýmsu leyti við um öll fræ, enn frekar um trjáfræ, en sérstaklega um akörn.
Geymsla fræja gengur almennt út á að halda fóstrinu lifandi en í dvala. Til þess þarf að verja það frá hinum ýmsu ógnum, sem eru m.a. hnjask, rangt hitastig, rangt rakastig, of lítil loftun, mygla og aðrar lífverur. Geymsluaðstæður stýra mörgu, en sé raki til staðar skiptir loftun máli til að draga úr hættu á myglu.

Akörn eru sérlega viðkvæm í geymslu m.a. því þau hafa mjög hátt rakainnihald og drepast við þurrkun. Langtíma geymsla á fræjum stólar annars á að lækka rakainnihaldið sem mest og hægja svo á allri öndun með geymslu í kulda. Öndun á sér þó áfram stað, en í köldum dvala er hún afskaplega lítil.
Önnur ástæða fyrir viðkvæmni akarna í geymslu er að það þarf oft mun minna til að koma spírun í gang hjá þeim en öðrum fræjum. Akörn og aðrar hnetur hafa harða skel sem verja þær fyrir hnjaski, en akarnið sjálft er allt mjög viðkvæmt. Jafnt bakvið skelina, sem og það sem það sendir útfyrir hana. Ýmsar eikartegundir senda út stólparót strax að hausti og því sjáum við t.d. akörn af sumareik (Q.robur) spírandi í kæli.
Þegar stólparótin hefur vaxið nægilega byrjar svo ofanvöxturinn að birtast „úr toppi hennar“. Sjálft akarnið markar því strangt til tekið línuna þar sem rót og ofanvöxtur mætast. Aðstæður hafa þó áhrif og á fyrstu stigum getur efsti hluti rótarinnar t.d. aðlagast því að vaxa ofanjarðar.
Stundum getur maður fengið bara rót en engan ofanvöxt. Algengustu ástæður fyrir því eru annars vegar að ofanvöxturinn hafi verið étinn jafnóðum eða drepist (veður,mygla, o.fl.) og hins vegar að akarnið hafi ekki fengið nægilega langa kuldameðferð.
Hér sjáum við akarn, vinstra megin, sem hefur sent niður stólparót (til hægri) og upp úr toppi hennar (aftur vinstra megin) er byrjaður að vaxa sproti, sem markar upphaf ofanvaxtar.

Lífverur
Akörn eru mjög næringarrík og sækja því ýmsar lífverur í þau. Erlendis eru þau t.d. vinsæl fæða hjá íkornum og öðrum nagdýrum, en ekki síður dádýrum, kalkúnum, refum, geitum, björnum og ýmsum fuglategundum. Hérlendis þyrftum við helst að verja þau gegn músum og jafnvel kanínum. Utan þeirra má nefna sveppi (t.d. myglu) og auðvitað skordýr.
Langalgengasta skordýrið sem finnst í akörnum eru lirfur ranabjallna, enda sérhæfa margar tegundir þeirra sig í hnetum. Um 80-90þúsund mismunandi tegundir ranabjallna eru skráðar í heiminum (nokkrir tugir á Íslandi) og því ekki skrýtið að þær fari víða. Lítil hola á skel akarns þýðir vanalega að þar hefur slík lirfa étið sig út. Sú lirfa er því farin, hvort sem önnur lirfa sé enn fyrir innan eða ekki. Gat þýðir ekki sjálfkrafa að akarnið sé ónýtt, enda er megnið af akarninu bara næringarforði.
Bjallan verpti agnarsmáu eggi fyrir löngu síðan og þegar lirfan er tilbúin að skríða niður í jörðina til að púpa sig étur hún sig út. Hún étur sig ekki inn. Gat=farin.
Bjalla sem lifir á ferskum hnetum og akörnum úti í náttúrunni er augljóslega ekki að fara að dafna hérlendis amk næstu áratugina ef ekki aldirnar. Engu að síður, finnist lirfa skal hún auðvitað umsvifalaust kramin. Vilji maður leita að smærri lirfum inni í akörnum tekur maður mjög varlega skelina utan af, helst án þess að skrapa sjálft akarnið. Freistandi er að opna það útfrá mjóa endanum, en á þeim enda þarf þó að vera enn varkárari, því þar kemur rótin út og þar er sá hluti sem ekki má skemmast. Öruggara er því að opna skelina á hinum endanum, þar sem „hatturinn“ var. Klofni akarnið í sundur má sá báðum helmingum, en misjafnt er hvort annar, báðir eða hvorugur helmingurinn skili þá plöntu. Öruggast er að halda báðum helmingunum föstum saman á endanum.
Borgar sig þá að eitra akörn? Nei. En að setja þau í ofninn til að steikja lirfur sem gætu verið inni í þeim? Ekki ef þú ætlar að sá akörnunum, því þú drepur þau um leið. Heitt vatn er hins vegar stundum notað og getur skilað árangri, en er vandmeðfarið. (Sjá aðeins neðar)



Hiti&raki
Akörn þola ekki mikið frost. Því borgar sig t.d. ekki að geyma þau í frysti. Hvernig lifa þau þá af veturinn erlendis? Með því að flýja harða frostið. Grafin niður í jarðveginn eru þau einangruð frá mesta frostinu og þykk snjólög hafa sambærileg áhrif. Akarn í potti úti yfir vetur á Íslandi er nánast öruggt með að drepast. Grafið í jörð á það betri sjens.
Þorni akarn upp, drepst það. Sé það of lengi í blautum jarðvegi, rotnar það. Gullni millivegurinn vinnur á ný.
Ekkert er 100% öruggt, en að henda þeim einu sinni í 47° vatnsbað í 10-15 mín getur hins vegar drepið ranabjöllulirfur innan akarna. En 49°eða meir drepur akarnið líka. Sama má segja um of langt vatnsbað við þetta hitastig. Vatnsbað sem nær aldrei 45°hita, eða er of stutt, hefur hins vegar engin áhrif á lirfurnar. Svo þetta er nákvæmnisvinna og vandmeðfarið.
Hvað með „flot testið“? Ef ég set akörn í vatnsbað, eru þau bara í lagi ef þau sökkva? Já og nei. Þetta virkar ekki fyrir öll fræ (t.d. fljóta góð og gild rósafræ) og sumar eikartegundir eru með akörn sem fljóta óháð því hvort þau séu lífvænleg eða ekki. Ef þú ert með fá akörn borgar sig alltaf að reyna við þau öll. Ef þú ert með mjög mikið magn af t.d. sumareik (Q.robur) eða vetrareik (Q.petraea) geturðu leyft þér að henda burt þeim sem fljóta, en meðal þeirra verða örugglega einhver sem annars hefðu spírað. Akarn sem sökk er heldur ekki víst að sé í lagi, en t.d. með þessar tilteknu tegundir þá eru mun meiri líkur á því meðal þeirra sem sukku, en flutu.
ATH: akörn sem hafa þornað aðeins upp en eru samt enn lifandi geta þurft nokkurn tíma í vatni til að ná upp smám saman hærra vatnshlutfalli. Þá erum við ekki að tala um hvort akarnið sé blautt eða þurrt að utan, heldur innvolsið sem hægt og rólega getur tekið inn smá og smá raka. Akörn sem fljóta í fyrstu gætu sokkið eftir 12-24klst. Akörn sem hafa enn ekki sokkið eftir 24klst munu líklega aldrei sökkva – en gætu samt verið í lagi.
Hvað svo?
Misjafnt er milli tegunda (og stundum kvæma) hve langan tíma akörn þurfa í kulda áður en þau geta spírað. Eins og ég nefndi áðan er þetta í raun tvískipt. Fyrsti fasi: senda út rótina. Næsti fasi: ofanvöxtur. Tegundir sem hafa fyrsta fasa að hausti þurfa samt kuldatímabil til að komast í seinni fasann. Því er spírað akarn alls ekki endilega vísbending um að kuldameðferð hafi verið fullnægt.
Algengt viðmið er 60dagar í kulda fyrir flestar eikartegundir og er þá miðað við 0-5gráður. Við 6-8gráður lengist tíminn, en heitara en það getur það hætt að telja sem kuldameðhöndlun. Í framhaldi er misjafnt hve langan tíma við hve langt hitastig þau þurfa. Kuldameðhöndlun getur t.d. verið: búið að sá í múshelt ílát á stað sem frýs ekki en fer ekki mikið yfir 5gráður (passa að þorni ekki alveg upp, en sé ekki heldur of blautt allan tímann). Annar möguleiki er geymsla í ísskáp: t.d. í örlítið rökum, hreinum klút í opnum poka, eða í pottamold, örlítið rakri (ekki blautri) í aðeins opnum poka.

Loksins plöntur!
Eftir kuldameðferð er t.d. hægt að setja akörnin í pott við stofuhita og passa upp á rakastigið á moldinni. Hægt er að hafa akarnið liggjandi ofan á moldinni, en þá er það viðkvæmara og þarf að passa betur. Flestir setja það frekar aðeins niður í moldina, t.d. akarnsþykkt af mold ofan á. Svo bara bíða þartil eitthvað potast upp úr moldinni. Mjög misjafnt eftir aðstæðum, en 2-6 vikur er nokkuð algengt bil.
Rótin
Sumir setja akörn í mjög djúpa potta. Það er gott til að forðast hringrót, því stólparótin langa getur annars vaxið í hring í pottinum, sem er mjög líklegt til að valda trénu vandamálum síðarmeir. Önnur leið er að nota svokallað „airpruning“ sem hægt er að kynna sér á netinu, eða þá að snyrta endann af stólparótinni snemma. Bara rétt vaxtarbroddinn (síðustu 1-2mm) af endanum, helst þegar rótin er komin kannski 2-3cm út úr akarninu. Þá fær maður vanalega mun greinóttara rótarkerfi í stað stólparótarinnar. Stólparótin hjálpar hvort eð er trénu bara rétt í upphafi (sérstaklega fyrstu 2-3 árin) og mismikið við mismunandi aðstæður. Rótarkerfi eikarplantna er almennt um 3 ár að jafnaði að ná upp fullu frostþoli. Það er því oft gott að setja þær ekki á íslenskan vetur fyrr en því marki er náð, ef hægt er. Munum að plöntur í pottum eru meðfærilegri og auðveldara að skýla, en lenda í mun meira frosti en plöntur í jörð.
Meira um ræktun á eik á Íslandi má t.d. sjá hér: https://gardurinn.is/en/raektar-thu-eik-a-islandi/