Að ala upp plöntur í eldhús- eða stofuglugga getur ekki talist besti kostur sem völ er á og hefur reynst mörgum erfitt. Ræktun í gróðurhúsi eða gróðurskála er mun auðveldari en krefst engu að síður natni. Margir ræktendur hafa ekki kost á að ala upp í gróðurskála eða gróðurhúsi en vilja engu síður spreyta sig við uppeldi trjáplantna og því ekki að reyna eldhúsgluggann?
Birkifræið
Birkifræið er að jafnaði þroskað um mánaðarmótin september – október og hangir fræið á plöntunum fram yfir miðjan október, jafnvel lengur ef tíð er góð.
Safnið birkifræi af heilbrigðum trjám. Takið væna, heila rekla, ekki þá sem eru litlir eða afmyndaðir. Tínið frá blöð og stilka, sem slæðast kunna með, og þurrkið fræið við stofuhita í 3 – 4 daga t.d. í þunnum flekki á dagblaði. Þegar heilir reklar hrynja í sundur við átöku er fræið þurrt. Það má síðan geyma í bréfpoka, helst á köldum og þurrum stað. Birkifræið er örsmá hneta með allbreiðum væng og er allt að ein- og hálf milljón fræja í kílói. Algeng spírun er 50%, jafnvel minna. Fræið tapar spírunarhæfni í geymslu og því er vissara að nota ekki eldra fræ en 2.-3 ára.
Ef of miklu fræi er safnað, er tilvalið að deila með öðrum félögum, eða t.d. senda inn til fræbanka félagsins. Sjá nánar hér: https://gardurinn.is/sofnum-ollu-fraei/
Moldin
Sáðmold þarf að vera myldin og með hæfilegt magn næringarefna. Hægt er að kaupa tilbúna sáðmold í verslunum. Ekki er nauðsynlegt að sá í sérstaka sáðbakka, heldur má notast við nær hvaða ílát sem er, t.d. undan ís eða skyri, svo framarlega sem stungin eru göt í botninn og framræsla vatns tryggð. Bakkinn er fylltur upp með sáðmold þannig að nokkrir millimetrar eru upp að brún. Þjappað er létt á moldina. Ef það er gert of fast fer súrefni úr moldinni og spírun gengur verr, en ef moldin er óþjöppuð, eða ekki nægilega þjöppuð er hætta á að fræ liggi laus ofan á moldinni og nái síður tengslum við jarðveginn.
Sáning
Sáið um eða eftir miðjan maí. Fræinu er dreift sem jafnast yfir moldina og til þess að auðvelda jafna dreifingu má blanda hveitiklíði saman við, 2-3 sinnum magn birkifræsins. Hæfilegt er að gera ráð fyrir um 50 spíruðum fræjum í bakka sem er 20×30 sentimetrar að flatarmáli, en sú stærð hentar vel í venjulega gluggakistu. Sé spírunarhlutfall 50%, sem oft er hjá birki, má hæglega sá 100 fræjum í bakka af þeirri stærð en í einu grammi af birkifræi eru um 900 – 1400 fræ. Sé spírunarhlutfall hærra en 50 % er rétt að fækka sáðum fræjum sem því nemur.
Um 1-2 millimetra þykku lagi af vikri eða sandi er sáldrað yfir fræin, þannig að rétt sjáist í þau.
Með þessu móti helst raki í moldinni og að fræinu, en raki er eitt af lykilatriðum til að spírun takist.
Merkja skal sáningu með upplýsingum um t.d. tegund, uppruna fræs og dagsetninu sáningar
Vökvað
Að svo búnu er moldin vökvuð og er best að vökva neðan frá í gegnum göt á sáðbakkanum. Ef vatni er hellt yfir bakkann, þéttist moldin og súrefni í henni minnkar, auk þess sem fræin geta skolast til ef ekki er farið varlega. Best er að leggja bakkann í vask eða bala með volgu vatni og láta hann standa þar í nokkrar mínútur, eða þar til sáldrið hefur dökknað.
Þá er sáðbakkanum komið fyrir í gluggakistu, helst í vesturglugga, og hvítt plast lagt yfir, en við það helst rakinn betur í moldinni. Gott að lofta um moldina einu sinni á dag og er þá plastið tekið af í nokkrar mínútur. Moldin má hvorki verða of þurr né blaut en vökvun krefst mikillar umhyggju og er eitthvert vandasamasta verkið í uppeldinu.
Fræið má aldrei þorna meðan á spírun stendur.
Árangur sést eftir nokkra daga
Birkifræ spírar eftir 10-15 daga við um 20 stiga hita. Þegar megnið af fræjunum hefur spírað er plastið tekið af bakkanum og þá fer birta að skipta plönturnar mestu máli. Þær teygja sig í átt að ljósi og því er mikilvægt að láta þær standa þar sem þær njóta góðrar birtu. Markmiðið er ekki að fá langar spírur, heldur þétta og laufgaða plöntu. Nýspíruð fræ mega ekki standa í sterku sólarljósi og er því nauðsynlegt að skyggja örlítið á viðkvæmar plöntur ef sáðbakki er staðsettur í suðurglugga. Það má gera t.d. með því að festa dagblað á glerið á glugganum og draga þannig úr mestu birtunni. Best er að plönturnar séu í vesturglugga ef kostur er.
Fljótlega eftir spírun myndast tvö lítil laufblöð, sem nefnd eru kímblöð. Í kjölfarið stækka smáplönturnar og laufblöðum fjölgar. Þá þarf að dreifplanta, til að auka vaxtarrými hverrar plöntu.
Vaxtarými aukið
Á þessu stigi má notast við venjulega, næringarríka gróðurmold. Notið stærri sáðbakka og fyllið hann næstum. Hafið þó borð á svo að vatn flæði ekki út við vökvun. Grafið litla holu í moldina, t. d. með teskeið. Síðan eru plönturnar teknar varlega upp úr sáðbakkanum og þeim komið fyrir, með gætni, í nýja pottinum. Gætið þess að rótarkerfið bögglist ekki við gróðursetningu. Það getur haft slæm áhrif fyrir vöxt og viðgang plöntunnar síðar meir. Bil á milli plantna í sáðbökkum er hæfilegt 5-6 sm. Einnig má nota litla blómapotta 4-6 sentímetra og er þá ein planta sett í hvern pott. Þörf fyrir birtu minnkar ekki en plönturnar hafa nú gott af ögn lægri hita ef mögulegt er. Annars geta þær orðið linar og þróttlitlar. Á þeim árstíma, þegar hætta á næturfrosti er liðin hjá, má fara að venja smáplönturnar við þær aðstæður sem þær munu búa við næstu árin. Ekki má gera það of hastarlega og er því gott að byrja á því að láta plöntunar út á daginn á skjólgóðan stað, nokkra tíma í senn. Tíminn er svo lengdur smám saman þar til plöntunar eru settar alveg út, en það getur tekið 1-2 vikur. Fyrstu nætunar úti getur verið æskilegt að hylja plönturnar með trefjadúk (akríldúk) eða plasti á skjólgóðum stað í garðinum. Plöntunar eru aldar upp, t.d. í vermireit, til næsta vors og jafnvel lengur, allt eftir stærð ræktunaríláts.
Samantekt:
Auður Jónsdóttir. Kristinn H. Þorsteinsson