Posted on

Tilkynning frá frænefnd Garðyrkjufélagsins

Kæru félagar

Við í frænefndinni treystum á ykkur, góðir félagar, að vera dugleg að safna fræi nú í haust. Það er ekki hægt að taka út úr fræbankanum nema einhver leggi inn!! Hafir þú ekki safnað fræi fyrr getum við fullvissað þig um að það er eitthvað sem allir eiga auðvelt með. Það er skemmtilegt að hugsa til þess að fræ frá þér sé að blómstra í öðrum görðum.

Það hafa margar tegundir klárast í fræbankanum og viljum við því ítreka hvatningu til ykkar félagsmanna að bregðast vel við og vera dugleg að senda okkur fræ í haust.

Tekið er við öllu fræi en lykilatriði að það sé þegar flokkað og hver poki/umslag vel merkt tegundinni sem um ræðir.

Algengast er að fræ sé sent til fræbankans með pósti (sendist til Garðyrkjufélags Íslands), en í undantekningartilfellum er líka hægt að setja sig í samband við frænefnd (t.d. ef um mikið magn er að ræða) og mæla sér mót eða skila í gegnum póstlúgu GÍ í Síðumúlanum.

Leiðbeiningar:

“Plöntur þroska fræ yfirleitt á haustin og best er að safna því eins fljótt og hægt er eftir að það hefur náð þroska. Annars er hætt við að það fjúki burt eða að fuglar éti það.

Best er að safna fræjum í þurru veðri og setja í striga- eða bréfpoka. Ef notaðir eru plastpokar verður að tæma þá eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir að fræið mygli.

Þegar velja skal plöntu sem á að safna fræi af verður að gæta þess að hún sé þróttmikil og heilbrigð. Varast skal að tína fræ af lélegum og sjúkum einstaklingum. Fræið geymir erfðaefnið og hætt er við að slæmir eiginleikar erfist.

Rétt meðhöndlun fræs eftir tínslu er ekki síður mikilvæg en að valið sé fræ af góðum plöntum. Að söfnun lokinni verður hreinsa burt öll óhreinindi, svo sem lauf, nálar og sprota og þurrka fræið. Auðveldast er að breiða það á pappír, við 20 til 25°C hita nálægt ofni.

Í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að geyma fræ yfir veturinn og sá því að vori. Yfirleitt nægir að geyma það á köldum og þurrum stað, en best er að geyma það í kæli við 0 til 4°C eða í vægu frosti. Fræið þarf að vera í þurrum og loftþéttum umbúðum, til dæmis glerkrukku. Í góðri geymslu geta fræ flestra tegunda haldið eiginleikum sínum í nokkur ár.” Fróðleikur tekinn af Fb. síðu Blómavals.

Listi yfir nokkrar af þeim plöntum sem fræbankinn hefur átt fræ af en vantar í dag.

Latneskt heiti – Íslenskt heiti

Abies fraseri – Glæsiþinur
Abies koreana – Kóreuþinur
Achillea millefolium – Vallhumall
Alnus glutinosa – Svartelri
Alnus incana – Gráelri
Alnus virirdis ssp. Sinnata – Sitkaelri
Anthoxanthum odoratum – Ilmreyr
Azorella trifurcata – Nálapúði
Betula ermanii – Steinbjörk
Betula nana – Fjalldrapi
Betula pendula – Hengibjörk
Campanula rotundifolia – Bláklukka
Cupressus sempevirens – Sýprusviður
Cymbopogon flexosus – sítrónugras (Lemon grass)
Cytisus purgans – Geislasópur
Fragaria vesca – Villt jarðarber
Gentiana chinensis – Kínavöndur
Hepatica nobilis – Skógarblámi
Hippophae rhamnoides – Hafþyrnir
Hordeum jubatum – Silkibygg
Iris sibirica – Rússaíris
Juniperus communis – Einir
Laburnum alpinum – Fjallagullregn
Larix X marschlinsii – Sifjalerki
Larix sukaczewii x decidua ‘Hrymur’ – Lerki ‘Hrymur’
Lewisia cotyledon – Stjörnublaðka
Lewisia cotyledon ‘Little Plum’ – Stjörnublaðka ‘Little Plum’
Lonicera ledebourii – Glæsitoppur
Lonicera periclymenum – Skógartoppur
Malva sylvestris – Skógarmalva/Skógarstokkrós
Papaver radicatum yellow – Melasól
Picea glauca – Hvítgreni
Picea koraiensis – Kóreugreni
Picea pungens – Broddgreni
Pinus cembra – Lindifura (Tirol)
Pinus sylvestris _ Skógarfura
Prunus padus rubra – Blóðheggur
Prunus virginiana L.. – Virginíuheggur
Quercus rubra – Rauðeik
Rhodiola rosea (Sedum rosea) – Burnirót
Ribes bracteosum – Blárifs
Ribes uva crispa ‘Hinnomaki Röd’ – Stikilsber, rauð
Saxifraga cotyledon – Klettafrú
Saxifraga paniculata – Bergsteinbrjótur
Sorbus hybrida – Gráreynir
Sorbus mougeotii – Alpareynir
Sorbus reducta – Dvergreynir
Sorbus rosea – Rósareynir
Tilia – Linditré
Ulmus glabra – Álmur
Viburnum opulus – Úlfaber