Sunnudagur 10. ágúst
Farið verður með rútum kl. 9:00 frá Grand Hótel og helmingur hópsins byrjar að skoða garða í Mosfellsbæ og hinn helmingur hópsins skoðar garða í Garðabæ og Kópavogi. Síðan verður haldið í Skátaskálann við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði þar sem snæddur verður hádegisverður.
Að loknum hádegisverði fer allur hópurinn í Rósagarðinn í Höfðaskógi (Höfðaskógur – Skógræktarfélag Hafnarfjarðar) sem er í holtinu fyrir ofan Hvaleyrarvatn. Rósasafnið í Höfðaskógi er samstarfsverkefni Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Vel á annað hundrað tegundir og yrki af rósum eru í safninu. Rósunum er lítið sinnt og verða þær að standast samkeppni við annan gróður sem vex á svæðinu. Tilgangurinn með þessari rósaræktun er að kanna lifun og þrif mismunandi tegunda og yrkja rósa við fremur erfið skilyrði.
Eftir hádegið skiptist hópurinn aftur og fer annar hópurinn í Garðabæ/Kópavog og hinn í Mosfellsbæ. Sameinast verður að nýju í Trjásafninu í Meltungu í Kópavogi (https://www.skog.is/wp-content/uploads/2019/08/FB-Meltunga-grein.pdf).
Þar verður Norræni rósagarðurinn skoðaður, sem varð til sem hluti af samnorrænu verkefni Rósafélaganna á Norðurlöndum. Þar hafa verið gróðursettar rósir frá öllum Norðurlöndunum og er tilgangurinn að skoða hvernig rósir frá þeim dafna á Íslandi. Í Meltungu hefur einnig verið útbúinn garður með kanadískum rósum.
Að loknum garðaskoðunum verður Norrænu rósahelginni slitið með léttum kvöldverði (BBQ) í Meltungu.