Loading Events

« All Events

Vinnu- og fræðsludagur í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi 25. Júlí

25. júlí, 2019 frá 17:00 til 19:00

Vinnu- og fræðsludagur verður í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi  fimmtudaginn 25. Júlí kl. 17:00 – 19:00
Undanfarin ár hefur verið haldinn vinnu- og fræðsludagur í Guðmundarlundi þar sem áhugasamir ræktendur hafa mætt og notið þess að stússast saman í garðinum stutta stund. Hermannsgarður er samvinnuverkefni Kópavogsbæjar, Skógræktarfélags Kópavogs og Garðyrkjufélags Íslands til minningar um Hermann Lundholm sem var garðyrkjuráðunautur bæjarins 1958-1989, einn stofnenda Skógæktarfélagsins og heiðursfélagi Garðyrkjufélagsins.

Garðurinn samanstendur að mestu af fjölærum garðblómum úr garði Hermanns sem stóð við Hlíðarveg.

Hvað ætlum við að gera 25. júlí ?
Hermannsgarður er í prýðilega góðu ástandi eins og undanfarin ár en alltaf má gera betur. Gras og aðrar óæskilegar plöntur hafa hreiðrað um sig og skotið rótum inn í hnausa fjölæringana. Þessar illgresis plöntur þarf að fjarlægja með lagni og því köllum við eftir áhugasömum til að vinna með okkur í stutta stund í garðinum. Þetta er tilvalin leið fyrir fólk að hittast, spjalla og bera saman bækur sínar. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í ræktun er þetta upplagt tækifæri til að læra til verka, skoða hönnun, staðsetningu og plöntuval.  
Athugið að hver og einn getur mætt þegar henni/honum hentar frá  kl. 17:00. Verkfæri verða á staðnum og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos í dagslok.
Leiðin í Guðmundarlund Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund er hér lýsing af beinustu leiðinni frá Vatnsendavegi að Guðmundarlundi. Beygt er af Vatnsendavegi á hringtorgi inn á Markaveg  og hann ekinn til austurs gegnum hesthúsahverfið á Kjóavöllum þar til komið er að götu sem heitir Landsendi. Þar er skilti sem vísar á Guðmundarlund en einnig er skilti við hringtorgið á Vatnsendavegi merkt Guðmundarlundi.