Posted on

Tvíærar plöntur – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Flestir garðeigendur eru þeirrar skoðunar að plönturnar sem þeir velja í garða sína eigi annað hvort að vera einærar, þ.e. sumarblóm, eða að þær lifi endalaust, séu með öðrum orðum fjölærar. Fjölærar plöntur koma upp ár eftir ár og það þarf ekki að hafa fyrir því að gróðursetja nýjar á hverju ári. Tré og runnar eru auðvitað fjölærar plöntur en sú hefð hefur skapast fyrir því að nota hugtakið fjölærar plöntur yfir jurtkenndar, fjölærar plöntur sem falla niður yfir veturinn og vaxa upp aftur að vori.

     Tvíærar plöntur eru þeirrar náttúru að þær lifa einungis í tvö ár eða tvö vaxtartímabil. Fyrra sumarið spíra þær upp af fræi og mynda laufblöð. Þessi laufblöð geta í sumum tilfellum staðið yfir veturinn en oft falla þau niður. Þetta sumar nota plönturnar til að byggja upp myndarlegan forða í rótum sínum. Yfir veturinn þurfa þær svo á kuldatímabili að halda til þess að blómgun geti átt sér stað. Þurrkur hefur svipuð áhrif á plöntur og kuldi og því getur verið nóg fyrir plönturnar að lenda í hressilegum þurrki, þá geta þær átt það til að blómstra. Seinna sumarið á svo blómgunin sér stað. Blómgun tvíærra plantna getur verið stórglæsileg enda hafa þær verið duglegar við að safna sér forða árið áður. Plönturnar eru frekar lágvaxnar á fyrra ári enda enginn blómstöngull á þeim og ekki gott að eyða dýrmætri orku í óþarfa. Árið sem þær blómstra koma svo oft upp háir og tignarlegir blómstilkar sem bera uppi mikið blómskrúð. Eftir að blómguninni lýkur deyja plönturnar enda hafa þær uppfyllt hlutverk sitt í þessu lífi, að skilja eftir sig afkomendur sem tryggja áframhaldandi líf tegundarinnar.

     Fáar tvíærar plöntutegundir eiga sér eins merkilega fortíð og fingurbjargarblómið, Digitalis purpurea. Fingurbjargarblóm hefur verið ræktað um aldaraðir vegna lækningaeiginleika sinna. Það hefur verið notað sem lyf við geðveiki og segir sagan (höfum þá í huga að góð saga ætti aldrei að gjalda sannleikans) að van Gogh hafi drukkið seyði af fingurbjargarblómi en eins og alþjóð veit var þessi mikli listamaður illa geðveikur. Ein af aukaverkunum fingurbjargarblóms er sú að sá sem notar það sér gula áru í kringum alla hluti í kringum sig. Á þar að vera komin skýringin á því hversu hrifinn van Gogh var af gula litnum…

     Fingurbjargarblóm hefur einnig verið notað til hjartalækninga. Það er þó rétt að benda á að eins og með allar góðar lækningajurtir þá borgar sig ekki að reyna lækningamáttinn á sjálfum sér án leiðbeininga fagmanns, oft getur ríflegur skammtur af lækningajurtinni verið hreinlega banvænn. Fingurbjargarblómið er mjög glæsilegt, blómstönglarnir geta verið yfir 1,5 m háir. Blómin eru lútandi klukkur, freknóttar innan í og í bleikum litum. Fingurbjargarblómin hefur getað viðhaldið sér með sáningu í skjólgóðum görðum hérlendis en í flestum tilfellum þarf að gróðursetja nýjar plöntur árlega.

     Önnur bráðhugguleg tvíær tegund er sumarklukkan, Campanula medium. Sumarklukkan er ýmist bleik, blá eða hvít og blómstrar hún stórum, belgvíðum blúndulegum klukkum sem minna mig alltaf svolítið á gamaldags undirbuxur kvenna, þessar hnjásíðu með víðu skálmunum sem voru teknar saman með teygju neðst og eru ákaflega sjaldgæf sjón nú á tímum g-strengja. Sumarklukkan er mjög áberandi í blóma því klukkurnar raða sér eftir endilöngum blómstilkunum sem eru yfirleitt um það bil 60-80 cm á hæð.

     Ólympíukyndill, Verbascum olympicum, er stórglæsilegur fulltrúi tvíærra plantna. Hann er sérlega voldugur í blóma, verður allt að 2 m hár. Blómstilkurinn er þykkur og mikill og greinist mikið ofan til. Hann verður þakinn skærgulum blómum þegar líður á sumarið. Margir rugla ólympíukyndlinum saman við náfrænda hans, kóngakyndil eða kóngaljós en sú tegund er fjölær og með ívið loðnari blöð en ólympíukyndillinn. Kyndlanafnið er réttnefni á þessa tegund því það hreinlega lýsir af honum í rökkri íslensks sumarkvölds.

     Margar aðrar algengar tegundir í íslenskum görðum eru í raun tvíærar, þótt þær séu einungis ræktaðar sem einærar. Þar má nefna skrautkál, sem myndar fallegan og þéttan haus úr laufblöðum fyrra sumarið og blómstrar svo skærgulum blómum á háum stilk seinna sumarið. Reyndar sjáum við stundum blómgun hjá skrautkálinu strax á fyrra ári en þær plöntur hafa þá annað hvort þornað ótæpilega eða lent í kuldahreti og hafa því ruglast í ríminu. Að sama skapi eru rófur, gulrætur og steinselja tvíærar plöntur. Stjúpur, þessi algengu sumarblóm, eru í raun tvíærar en í dag eru í ræktun yrki af stjúpum sem hafa verið kynbætt þannig að þau geta blómstrað strax á fyrra ári án þess að þurfa til þess sérstakt kuldatímabil.

     Það er jafnauðvelt að gera ráð fyrir tvíærum plöntum í garðinum hjá sér eins og sumarblómum. Flestar gróðrarstöðvar bjóða upp á heilmikið úrval af tvíærum plöntum og kosturinn við að kaupa þær í gróðrarstöðvum er sá að þar eru þær yfirleitt seldar á öðru ári þannig að ekki þarf að bíða eftir blómum í heilt ár. Vissulega þarf aðeins að annast þær meira en sumarblóm, flestar þessara tegunda þurfa uppbindingu vegna þess hversu hávaxnar þær eru en blómskrúðið er svo sannarlega þess virði.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2003)

Posted on

BLÓMGUNARTÍMI SUMARBLÓMA – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Sumarblóm í öllum regnbogans litum eru einmitt það sem við Íslendingar þörfnumst eftir grámuggu vetrarins.   Fjöldi sumarblómategunda fer eflaust langt með að fylla hundraðið og þar af eru um 30 tegundir algengar í ræktun.   Sameiginlegt einkenni sumarblóma er það að þetta eru plöntur sem lifa einungis eitt sumar í íslenskum görðum þótt þær séu margar hverjar fjölærar í heimkynnum sínum.   Snemma vors er sáð til þessara tegunda, missnemma eftir því um hvaða tegund er að ræða.  Forræktunartími, sá tími sem þarf að rækta plönturnar til að þær verði tilbúnar til útplöntunar að vori, er mislangur.  Sumar tegundir þurfa langan ræktunartíma, t.d. stjúpur, ljónsmunni, meyjarblómi og silfurkambur en ef vel á að vera þarf að sá þeim í lok janúar – byrjun febrúar.   Aðrar tegundir, eins og skrautnál, morgunfrú og paradísarblóm þurfa stutta forræktun, nóg er að sá til þeirra í byrjun apríl.    Blómgunartími sumarblóma er mislangur.  Með blómgunartíma er átt við tímann frá því fyrsta blómið lítur dagsins ljós þar til hinsta blómið er fallið.   Flestir garðplöntuframleiðendur miða við það að blóm sumarblómanna nái að standa seinni hluta sumars og fram á haustið.  Helgast það af því að garðeigendur vilja síður horfa upp á útblómstruð sumarblóm í görðum sínum um mitt sumar.  

Nauðsynlegt er að þekkja vel til sumarblómategundanna og lengdar blómgunartíma þeirra.   Stjúpur og fjólur standa mjög lengi í blóma, þær eru með fyrstu sumarblómunum sem byrja að blómstra á vorin og standa fram í frost á haustin.  Þannig er blómgunartími þeirra 4-5 mánuðir og við góð skilyrði getur hann orðið enn lengri.   Ljónsmunni sem sáð er til í byrjun febrúar byrjar að blómstra upp úr miðjum júní og stendur fram í september.  Skrautnál byrjar að blómstra í lok maí og stendur fram í frost.   Morgunfrú sem sáð er til í byrjun apríl byrjar ekki að blómstra fyrr en upp úr mánaðamótunum júní-júlí og stendur þá fram í september.  Blómgunartími hennar er um 2 mánuðir.  Brúðarauga blómstrar frá því snemma í júní og út ágúst.  Blómgunartími brúðarauga er því um 3 mánuðir.   Meyjarblómi er ein af þeim tegundum sem standa mjög lengi fram á haustið.  Hann þarf langan forræktunartíma, fyrstu blómin láta sjá sig í lok júní-byrjun júlí og svo stendur hann álíka lengi og stjúpurnar fram á haustið. 

Oft er hægt að kaupa blómstrandi sumarblóm eins og hengi-brúðarauga, dalíur og tóbakshorn upp úr miðjum apríl.  Fyrir bráðláta sumardýrkendur eru þessar plöntur eins og vatn handa þyrstum manni.   Þegar vorveðrið er milt og gott er ekkert að því að setja þessar plöntur beint út í garð en þó ber að hafa varann á sér og kippa þeim inn fyrir ef kólnar snögglega.  Eins ættu menn að hafa í huga að þar sem blómgunartími plantna er ekki óendanlega langur getur verið að þessar tegundir klári sinn blómgunartíma á miðju sumri.  Þá er um að gera að endurnýja í pottunum því fátt er sorglegri sjón en tómir blómapottar um hásumar. 

Í stórum dráttum má skipta algengustu sumarblómum í flokka eftir blómgunartíma þannig: 

4-5 mánuðir:  Stjúpur, fjólur, meyjarblómi, skrautnál.

3-4 mánuðir:  Brúðarauga, ljónsmunni, flauelisblóm, tóbakshorn, apablóm,

daggarbrá.

2-3 mánuðir:  Fiðrildablóm, paradísarblóm, járnurt, dalíur, morgunfrú, hádegisblóm,

kornblóm, ilmskúfur.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)

Posted on

Aðalfundur GÍ á miðvikudagskvöldið 27.maí

Fræðsluerindi um þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu

Minnt er á aðalfund Garðyrkjufélags Íslands á miðvikudagskvöldið 27. maí, kl. 19:30 í húsi félagsins í Síðumúla 1.

Aðalfundardagskráin sjálf verður hefðbundin (venjuleg aðalfundarstörf, kjör stjórnar og annarra trúnaðarmanna) en í lokin verður fjallað um stórt verkefni sem félagið er að vinna að í félagi við nokkrar deildir sínar út um land. Málshefjandi verður Sveinn Þorgrímsson verkfræðingur, stjórnarmaður í GÍ.

Þetta verkefni snýr að aukinni þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu. Áhersla er lögð á að tengja garðrækt við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun. Verkefnið nýtur stuðnings Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Byggt er á sérstöðu félagsins sem er grasrótarhreyfing um ræktun, með vísan til þess grunnstarfs sem fer fram um land allt með ræktun garð- og matjurta, almennri garðrækt, trjá- og skógrækt og hvers konar yndisræktun sem almenningur hefur fundið innri þörf til að sinna af alúð og kostgæfni. Tilgangurinn er að styrkja grasrót almennings sem fyrst og fremst styður við umhverfis- og loftslagsmál af lítillæti.

Fjórar deildir Garðyrkjufélagsins taka þátt í verkefninu – þ.e. deildirnar á Fljótsdalshéraði, í Reykjanesbæ, Fjallabyggð (Ólafsfirði) og Skagafirði og hafa verið skipulagðir fundir/námskeið á þessum stöðum í byrjun júní.

Minnt er á að frá og með mánudegi 25. maí mega allt að 200 manns koma saman. 

 

Posted on

Trillium – þristar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þristar eða Trillium ættkvíslin eins og hún nefnist á latínu er ættkvísl um 40-50 tegunda plantna sem ættaðar eru frá N-Ameríku og Asíu. Ættkvíslin tilheyrir liljuætt, rétt eins og liljur og túlípanar.Þetta eru yfirleitt skógarbotnsplöntur sem blómstra snemma á vorin, áður en skógurinn laufgast og inngeislun sólar nær ekki niður á skógarbotninn. Þristarnir nýta sem sagt vorsólina til blómgunar.

     Þristirnir mynda þykka jarðstöngla og er það sérstakt við þessar plöntur að utan um jarðstöngul þristanna vefjast pappírskennd blöð sem eru hin eiginlegu laufblöð plantnanna. Upp úr jarðstönglinum kemur svo blómstöngullinn og efst á honum er eitt blóm. Blómið er samsett úr þremur krónublöðum og þar fyrir neðan eru þrjú bikarblöð. Fyrir neðan blómið sjálft eru svo þrjú græn blöð sem flokkast ýmist sem háblöð eða reifablöð (nú verður maður að bregða undir sig betri fætinum í grasafræðinni svona í byrjun sumars) og þessi blöð ljóstillífa. Blómin eru ákaflega stór og áberandi og plönturnar sérstaklega fallegar á vorin þar sem þær stinga upp kollinum í laufskóginum. Blómin geta verið í ýmsum litum, frá hvítu yfir í bleikt og rautt og jafnvel í gulum eða grænleitum litum. Til eru tegundir sem blómstra tvílitum blómum.

     Þristar eru dæmigerðar skógarbotnsplöntur í laufskógum. Þær vilja myldinn, loftríkan og næringarríkan jarðveg og hann verður jafnframt að vera hæfilega rakur. Í tempraða beltinu, en þaðan eru þristar ættaðir, eru vorin gjarnan hlý og vætusöm og slík veðrátta hentar þeim ákaflega vel.

     Mjög auðvelt er að fjölga þristum með því að skipta jarðstönglunum niður en rétt er að fara frekar varlega í skiptinguna því það getur tekið plöntuna nokkurn tíma að jafna sig eftir slíkar aðfarir. Fræfjölgun er einnig möguleg en hún er tímafrek og fræið vandmeðfarið þannig að fyrri kosturinn er mun heppilegri. Þess má geta að í heimkynnum þrista sjá mýs og maurar um það að dreifa fræjum þristanna. Á fræjunum eru sérstök forðalíffæri sem eru sneisafull af næringarefnum sem maurar og mýs sækjast í. Maurarnir safna fræjunum saman, éta forðalíffærin og skilja svo fræin sjálf eftir eins og hvern annan úrgang. Fræin spíra svo í rólegheitunum og þannig dreifast þristategundirnar yfir stærra svæði en ella.

     Víða er stranglega bannað að tína blóm af þristum vegna þess að blöðin þrjú á blómstönglinum eru eini möguleiki plöntunnar til að afla sér næringar. Plantan getur því hreinlega dáið eða að minnsta kosti þarf hún mörg ár til að jafna sig, gerist einhver gráðugur til blómanna.

     Skógarþristur, Trillium grandiflorum, hefur verið ræktaður á Íslandi um árabil. Sýnir hann ágætis þrif, að minnsta kosti sunnanlands þar sem veðráttan er ekki ósvipuð og í heimkynnum plantnanna. Best er að gróðursetja skógarþrist í gisin trjábeð þar sem plönturnar njóta skjóls af trjánum og jarðvegurinn uppfyllir kröfur plantnanna. Skógarþristurinn blómstrar snjóhvítum blómum snemma á vorin og er auðveldur í ræktun.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Aðalfundur GÍ 27. maí

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands 2020 verður haldinn kl. 20 miðvikudaginn 27. maí næstkomandi í sal félagsins að Síðumúla 1 í Reykjavík.

    Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráherra mega allt að 200 manns koma saman í einu eftir 25. maí og skal gæta að ’tveggja metra reglunni’ eftir því sem við verður komið.

    Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í kraftmiklu starfi félagsins.

 

Dagskrá aðalfundar samkvæmt lögum félagsins:

  1. Fundarsetning
  2. Kosning fundarstjóra og ritara
  3. Skýrsla stjórnar og starfsnefnda GÍ 
  4. Reikningar lagðir fram og skýrðir
  5. Umræður og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og reikninga
  6. Ákvörðun félagsgjalds
  7. Lagðar fram tillögur um lagabreytingar
  8. Lagðar fram tillögur til ályktunar aðalfundar
  9. Umræður og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar og ályktunartillögur
  10. Kosning stjórnar, skoðunarmanna reikninga og starfsnefnda
  11. Önnur mál

 

Stjórnin. 

Posted on

Pöddulíf – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þegar vorar vaknar náttúran til lífsins eftir hressingarblund vetrarins. Tré, runnar og jurtir lifna, laukarnir blómstra og sólin skríður fram úr skýjaþykkninu. Sumarið er framundan, vonandi hlýtt, sólríkt og notalegt. Mannfólkið verður líka sprækara með vorinu og tekur til við að hirða garðana sína. Vorhreingerningin í garðinum er tekin í beinu framhaldi af vorhreingerningu íbúðarhússins. Íslendingar eru upp til hópa kattþrifnir og vilja hafa umhverfi sitt tandurhreint og snyrtilegt. Reyndar vilja sumir meina að þetta hreingerningaræði sé ekki eingöngu af hinu góða því aukna tíðni ofnæmis hjá íslenskum börnum megi meðal annars rekja til ofurþrifinna mæðra barnanna. Börnin komist ekki í tæri við ýmiss konar bakteríur þannig að ónæmiskerfi þeirra nái ekki að þroskast sem skyldi.

     Svo virðist sem hreingerningaræðið sé komið út í garðana líka og að vissu leyti er það ágætt. Vel hirtir garðar þar sem tré og runnar eru klippt og snyrt og fjölærar plöntur bústnar og heilbrigðar og ekki vottar fyrir arfaklóm eru vissulega augnakonfekt. Slíkir garðar fylla þá, sem skoða þá, virðingu fyrir garðeigendunum því að grunnurinn að góðum garði er botnlaus vinna garðeigendanna. Góður garður krefst mikillar og stöðugrar umhirðu allt sumarið og talsverðrar umhyggju yfir veturinn. Það er því ekki undarlegt að fólk leiti allra leiða til að draga sem mest úr þessari vinnu. Fyrir nokkrum árum kom á markaðinn illgresiseitur sem er sáldrað yfir jarðveginn í trjá- og runnabeðum og hefur þau áhrif að illgresisfræ nær alls ekki að spíra. Efnið má alls ekki nota á beð sem inniheldur fjölærar plöntur og heldur ekki með öllum runnum. Eiturefni þetta á að brotna niður á tveimur til þremur árum og á að virka á illgresið allan tímann. Að niðurbrotstímanum liðnum þarf að sáldra aftur yfir beðin til að viðhalda vinnusparnaðinum. Þetta hefur svo sannarlega fallið í kramið hjá íslenskum garðeigendum og jafnvel um of því nokkuð hefur borið á því að eitrið sé notað árlega í trjá- og runnabeð. Nú er það svo að engar innlendar rannsóknir hafa verið gerðar á því hver raunverulegur niðurbrotstími þessa efnis er í íslenskum jarðvegi og sjálfsagt er niðurbrotstíminn háður hitastigi í jarðveginum. Hitastig í íslenskum jarðvegi er sennilega eitthvað lægra en jarðvegshitastig í nágrannalöndum okkar og því líklegt að niðurbrotstíminn sé eitthvað lengri hérlendis. Garðeigendur ættu því að fara varlega í notkun efna af þessu tagi því ef þau ná ekki að brotna alveg niður, milli þess sem þau eru notuð, getur átt sér stað uppsöfnun á þessum efnum í jarðveginum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir gróðurinn.

     Íslendingar eru svo lánsamir að skordýrafána landsins er fremur fábreytt. Það er mjög heppilegt því pödduhræddara fólk en Íslendingar er örugglega vandfundið. Pöddur sem gera sig heimakomnar í mannabústöðum á Íslandi eru umsvifalaust gerðar brottrækar með öllum tiltækum ráðum. Þá er ekki öll sagan sögð. Utandyra eiga þær helst ekki að láta á sér kræla heldur og getur það reynst viðkomandi pöddum dýrt spaug ef þær slysast inn í girnilegan garð. Fyrr en varir sprettur fram vígbúið fólk og úðar einhverri óáran yfir pöddurnar með þeim afleiðingum að þær deyja drottni sínum. Eiturefnin, sem eru notuð gegn hinum ýmsu kvikindum í görðum, eru yfirleitt þeirrar náttúru að þau gera ekkert gagn nema þau lendi á húð kvikindanna sem þeim er ætlað að deyða. Garðeigendur ættu því alls ekki að láta úða garða sína með eiturefnum nema þeir virkilega komi auga á óboðnu gestina eða að minnsta kosti sjái greinileg ummerki um tilvist þeirra, svo sem étin laufblöð. Eins er rétt að hafa það í huga að úðun gegn trjámaðki á að fara fram í júní, meðan lirfurnar eru enn á trjánum. Blaðlús getur látið á sér kræla meira og minna allt sumarið en hún veldur yfirleitt ekki alvarlegum skaða á plöntum, nema kannski helst jurtkenndum plöntum eins og t.d. sumarblómum.

     Niðurstaða mín er því þessi: Förum varlega í notkun á eiturefnum. Taumlaus notkun á eiturefnum gegn illgresi og pöddum í görðum okkar getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Það er hægt að nota aðrar og umhverfisvænni leiðir til að fækka pöddum í görðum ef þær eru óvelkomnar, það má tína þær af trjánum eða nota vistvænar aðferðir til að losna við þær, t.d. úða daufri blöndu af grænsápu yfir plöntur sem hafa fengið fullmargar boðflennur í heimsókn.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2002)

Posted on

Leiðrétting

Afleita villu var að finna í grein um kolefnisbindingu heimilisgarðsins í Garðyrkjuritinu 2020 sem var að koma út.

Þar segir að íslenskir skógar bindi 326 tCO2. Þetta á vitaskuld að vera 326 þúsund tCO2

Hið rétta er að heimilisgarðarnir á höfuðborgarsvæðinu kolefnisbinda tæplega eitt prósent á við íslenska skóga en ekki um þriðjung eins og stendur í greininni. 2.850/326.000 = 0,0087.

Garðyrkjuritið biðst velvirðingar á villunni.

Posted on

Reklar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Vorið er heldur betur komið á kreik á Íslandi, að minnsta kosti þegar maður lítur á plönturnar og laufskrúð þeirra. Eitthvað hefur láðst að láta vita af þessu hjá þeim sem stýra veðurfarinu því snjókoma, kuldi og almenn leiðindi hafa einkennt veðurfarið núna í þessum seinni hluta maímánaðar. Hið klassíska orðatiltæki að það hafi haustað óvenju snemma þetta vorið hefur verið á vörum margra og virðist nokkur alvara hafa fylgt því gamni. Enn er þó ekki kominn tími til að örvænta, stundum hafa mánuðirnir júní, júlí og ágúst verið hreint með ágætum og hitastig nokkuð yfir frostmarki þannig að full ástæða er til bjartsýni.

     Ýmsar plöntutegundir láta svona vorhret ekkert á sig fá og blómstra sínum blómum hvað sem tautar og raular. Margar þeirra eru yfirmáta skrautlegar og grípa augað með litadýrð sinni meðan blómgun annarra lætur minna yfir sér. Þær hófstilltari eru samt sem áður fullt eins fallegar, þótt fegurðin sé ekki eins æpandi við fyrstu sýn. Hér á ég við þær tegundir sem blómstra með blómskipunum sem kallaðar eru reklar. Innan þessa flokks má finna ættkvíslir bjarka, elris, víðis og aspa. Þetta eru upp til hópa harðgerðar tegundir sem kalla ekki allt ömmu sína. Þær blómstra á vorin um það leyti sem þær laufgast og eru reklar þeirra oft á tíðum mjög skrautlegir. Sérstaklega eru karlreklarnir áberandi og geta fræflarnir verið með frjóhnappa í mörgum litum. Sem dæmi má nefna karlrekla seljunnar, þeir eru skærgulir hnoðrar sem minna helst á páskaunga sem kúra á greinum seljunnar.

     Karlreklar alaskaaspar aftur á móti eru rauðir á litinn, fremur langir, hanga niður og minna mann á rauðan chilipipar við fyrstu sýn. Blómgun í vor hefur verið með ágætu móti og sumar karlaspir hreinlega verið þaktar þessum rauðu reklum. Þegar reklarnir hafa lokið hlutverki sínu, þ.e. að koma frjókornunum frá sér og leggja þannig sitt af mörkum til fjölgunar asparinnar, falla karlreklarnir af plöntunni. Kvenreklarnir aftur á móti taka við frjókornunum frá karlreklunum og er það ýmist vindurinn sem feykir frjókornunum á milli eða að plönturnar njóta aðstoðar iðinna býflugna. Eftir að frjóvgun á sér stað fitna kvenreklarnir og bólgna allir upp. Þegar fræið er þroskað opnast aldinin í kvenreklunum og fræið sleppur út. Aspar- og víðifræ er þakið örfínum snjóhvítum hárum þannig að fræið getur svifið langar leiðir. Stundum er talað um að það snjói á sumrin þegar þetta fræ svífur um loftin blá, fellur til jarðar og myndar mjúka hvíta breiðu á jörðinni.

     Birkitegundir og elri blómstra líka fallegum reklum á vorin. Karlreklar elris eru yfirleitt fagurgulir á litinn og geta orðið 10-15 cm langir. Þeir hanga niður af greinunum, tveir til þrír saman í hnapp og lífga mikið upp á umhverfið á vorin. Blómgunin er frekar áberandi vegna þess að hún á sér stað fyrir laufgunina. Þannig tryggir náttúran að frjókornin berist á sem auðveldastan hátt frá karlreklunum að kvenreklunum með vindinum, án þess að laufblöð séu mikið að hindra ferðalagið. Birkireklar eru ekki eins áberandi og elrireklarnir. Þeir eru brúnleitir og frekar smáir og til að dást að þeim þarf maður að ganga alveg upp að plöntunni og skoða þá í návígi.

     Návíginu fylgja ýmsir kostir, eins og til dæmis sá að fáar plöntur ilma jafn vel á vorin og birki, þegar nýútsprungin blöðin gefa frá sér þennan óviðjafnanlega ilm sem mann langar helst að geta tappað á flöskur og hnusað af á öðrum árstímum. Nú er bara að vona að veðrinu sloti og hægt sé að fara út að dást að plöntum.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Garðyrkjuritið 2020 komið út

Garðyrkjuritið 2020 er komið út og hefur verið dreift til félagsmanna í Garðyrkjufélagi Íslands.

Ritið í ár er hið hundraðasta í röðinni en það hefur komið út með fáeinum hléum allt frá stofnun félagsins fyrir 135 árum. Ritið í ár er, eins og áður, stútfullt af forvitnilegu og fræðandi efni sem höfðar til bæði áhugafólks um gróður og garða sem og sérfræðinganna. Ritstjóri er Björk Þorleifsdóttir.

Meðal efnis má nefna grein um mælingu á kolefnisbindingu heimagarða á höfuðborgarsvæðinu sem færir okkur heim sanninn um að ræktun heima við hús skiptir umtalsverðu máli við bindingu kolefnis í jörðu. Sagt er frá áhrifamætti heilandi garða og heilsubót sem garðyrkjan hefur í för með sér og athyglisverða grein er einnig að finna um ilmjurtir í heimagörðum. Fjallað er um moltugerð, yglurnar í garðinum, aldingarða æskunnar og rósir af ýmsum toga og margvíslegum uppruna. Glæsilegar myndir eru af rósum ársins á Íslandi og hinum Norðurlöndunum og hægt er að læra að fjölga rósum með sumarstiklingum í fróðlegri grein Vilhjálms Lúðvíkssonar, formanns Rósaklúbbs GÍ.

Tómas Ponzi skrifar forvitnilega grein um ræktun harðgerra tómatayrkja, Guðríður Helgadóttir skrifar um kristilegar nafngiftir blóma, Hafsteinn Hafliðason er með grein um ræktun Kálfafellsrófunnar og fjölskylduna á Kálfafelli og mætti svo lengi telja.

Garðyrkjuritið er borið heim til félagsmanna GÍ á hverju vori – sem er enn eitt dæmið um kosti þess að vera félagi í Garðyrkjufélagi Íslands.

Posted on

Vorverk – Blóm vikunnar með Gurrý

Kantskurður Gurrý
Guðríður Helgadóttir

Sumardagurinn fyrsti er í næstu viku. Þessi siður að fagna sumri löngu áður en það lætur á sér kræla er örugglega til marks um óbilandi bjartsýni Íslendinga. Þetta reddast, sumarið er rétt handan við hornið. Tökum forskot á sæluna og höldum upp á það, svona löngu áður en snjóa leysir og lóan mætir á svæðið. Það er líka dæmigert fyrir þjóðarsálina sem vill framkvæma allt strax að sleppa millikaflanum, vorinu og vaða beint í sumarið. Ekkert hangs, drífa í hlutunum, hækka hitann í hvelli og fara að rækta eitthvað almennilegt, pota niður kartöflunum, planta kálinu og sumarblómunum og gróðursetja berjarunna fyrir hádegi.

Raunveruleikinn er hins vegar ekki alltaf svona. Við höfum upplifað vor sem hafa virst endalaus og svo skyndilega breyst í haust, án nokkurrar viðkomu í sumri. Við höfum líka upplifað sólrík og hlý sumur sem hafa vakið með okkur vonir um sólbrúnku og grósku í umhverfinu. Ísland er land fjölbreytileikans.

     Nú er sem sagt sumardagurinn fyrsti í næstu viku. Við fögnum sumrinu samkvæmt venju og tökum okkur hlé frá vinnunni. Það er þó mikilvægt að falla ekki í þá freistni að ætla sér að gera vorhreingerninguna í garðinum á sumardaginn fyrsta. Slíkt er einfaldlega ekki tímabært. Reynsla okkar hefur sýnt okkur fram á að fram eftir maí er alltaf hætta á að frjósi á nóttunni. Laufblöð, stönglar og fleira sem fellur til á haustin liggur yfir lágvöxnum plöntum allan veturinn og hlífir þeim fyrir kulda og umhleypingum, þetta er nokkurs konar lífræn ábreiða sem brotnar svo niður þegar hlýnar og nýtist plöntunum sem næring fram á sumar. Því miður er það samt svo að garðeigendur vilja gjarnan að garðarnir líti snyrtilega út, á vorin jafnt sem á sumrin og svona lífrænar ábreiður uppfylla yfirleitt ekki kröfur um fegurð og snyrtileika. Þær hverfa því oft of snemma á vorin og plönturnar eiga það á hættu að lenda í skakkaföllum af völdum seinna vorfrosta. Fyrir byrjendur í bransanum getur verið snúið að finna út úr því hvenær er raunverulega óhætt að fara af stað með vorhreingerninguna.

     Hvenær er ekki lengur hætta á því að frysti og plönturnar kali illa? Fátt er um svör við svona spurningum, nema menn hafi skyggnigáfu sem nýtist sérstaklega í veðurspám. Veðurfræðingar og veðurklúbbar um land allt hafa löngum reynt að finna út úr þessu vandamáli en stundum þarf maður bara að treysta á eigið hyggjuvit og þekkingu á plöntum. Viðkvæmar plöntur ættu að fá að vera í friði fram í miðjan maí, jafnvel aðeins lengur og þegar búið er að hreinsa ofan af þeim ættu ábreiður að vera til taks ef ske kynni að frysti, þrátt fyrir áreiðanlegar spár. Þeim má skutla yfir viðkvæmu plönturnar ef þörf krefur og taka þessar tilbúnu ábreiður þá að sér hlutverk lífrænu ábreiðanna að vissu leyti. Með því að breiða yfir plöntur þegar frystir á nóttunni á vorin er hægt að halda um 3 stiga hærri hita undir ábreiðunni en ella. Það er því mikið í húfi, eigi maður sérstaklega flottar og dýrmætar plöntur sem ekki mega lenda í frosti á vorin.

     Áburðargjöf ættu menn ekki að stunda fyrr en brum plantna fara að springa aðeins út, þá fyrst fara plöntur að taka upp nitur (köfnunarefni) að einhverju marki. Fram að þeim tíma er hætta á að nitursamböndin í áburðinum skolist út í jarðveginum og nýtist því ekki plöntum en nitur er yfirleitt sá þáttur í umhverfinu sem er mest takmarkandi fyrir vöxt plantna. Fyrsta áburðargjöf er því yfirleitt ekki fyrr en eftir miðjan maí. Það er því alveg hægt að slappa aðeins af og safna kröftum fyrir sumarið, þetta reddast allt saman og engin ástæða til að æða út í garð alveg strax, nema kannski til að klippa runnana…

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)