Posted on

,,Frönsk ilmfjóla” – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Saga garðyrkju á Íslandi er ekki löng. Hún hefur, öðru fremur, einkennst af atorkusemi einstakra manna sem þrjóskuðust við það að rækta plöntur þrátt fyrir óblíð veðurskilyrði. Enn fremur máttu þessir menn glíma við ótrú almennings á því að gróður gæti yfirhöfuð þrifist á Fróni. Hlutur áhugafólks í garðyrkjusögunni er ómetanlegur. Ótölulegur aragrúi plöntutegunda hefur verið prófaður í görðum um land allt og sá fróðleikur sem þar hefur aflast hefur svo sannarlega skilað sér áfram til þeirra sem vinna við garðyrkju. Garðyrkjusaga Íslands er samtvinnuð sögu þessara áhugamanna en ekki síður er hún saga einstakra tegunda. Margar plöntutegundir í ræktun í dag eiga sér merkilega sögu. Ein þessara tegunda er nefnd því glæsilega nafni ,,frönsk ilmfjóla”.

     Við Suðurgötuna í Hafnarfirði býr Gunnar Ásmundsson bakari. Gunnar fékk ungur mikinn áhuga á garðyrkju. Á fjórða áratugnum starfaði hann í nokkur sumur í garðinum við Hellisgerði í Hafnarfirði. Segja má að þá hafi hann endanlega smitast af garðyrkjubakteríunni og eins og aðrir garðyrkjuáhugamenn vita, er þessi veiki ólæknandi. Hann hefur alla tíð ræktað garðinn sinn og verið ötull við það að breiða garðyrkjuboðskapinn út til gesta og gangandi.

     Árið 1953 áskotnaðist honum plantan sem hér verður fjallað um. Ingvar Gunnarsson kennari, sem þá starfaði í Hellisgerðisgarðinum, færði honum hnaus af því sem hann kallaði ,,franska ilmfjólu”. Fjóla þessi stendur í blóma allt sumarið og blóm hennar eru mjög stór af fjólu að vera eða 3-4 cm í þvermál. Fjólan nær um 20 cm hæð og verður feit og pattaraleg með aldrinum. Hún virðist ekki mynda þroskað fræ því hún sáir sér ekki eins og margar frænkur hennar. Fjólunni má fjölga á öruggan hátt með skiptingu eða sumargræðlingum. Gunnar hefur fjölgað henni með skiptingu og haldið tegundinni þannig við allt frá því hann eignaðist hana fyrir rúmum 40 árum. Á þeim tíma hefur hann einnig verið duglegur við það að gefa vinum og kunningjum af fjólunni og þannig hefur hún fengið dágóða útbreiðslu um höfuðborgarsvæðið. Nauðsynlegt er að skýla henni með léttu vetrarskýli á veturna því hún er dálítið viðkvæm. Aðalsmerki ,,frönsku ilmfjólunnar” er þó ilmurinn en hann er sætur og sterkur og berst langar leiðir. Hún á því þetta glæsilega nafn svo sannarlega skilið.

     Hitt er annað mál að í gegnum tíðina hefur mikið verið deilt um faðerni viðkomandi fjólu. Fjólan á greinilega fátt sameiginlegt með hinni eiginlegu ilmfjólu, Viola odorata. Fyrir það fyrsta eru blómin alls ekkert lík að lit og lögun og svo hefur ,,franska ilmfjólan” það fram yfir ilmfjóluna að blómin ilma. Blóm þeirrar frönsku eru einnig mun stærri en blóm hinnar. Líklegast er að ,,franska ilmfjólan” sé blendingur af fjallafjólu en í hópi slíkra blendinga má finna plöntur með blóm af svipaðri stærð og lögun og sú franska.

     Burtséð frá ættfræði fjólunnar er þetta einstaklega áhugaverð garðplanta. Langur blómgunartími og skrautleg blóm skipa henni í flokk með úrvalsplöntum. Það þykir ekki góð latína að láta syndir feðranna bitna á börnunum og því tel ég réttast að fjólan fái að halda ilmfjólunafninu, jafnvel þótt sýnt sé að hún hafi verið rangfeðruð.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)

Posted on

Að njóta ávaxtanna – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Hvenær er kominn tími til að setjast niður og njóta ávaxta erfiðis síns? Er það þegar siggið á hnjánum eftir illgresishreinsunina er orðið nokkurra sentimetra þykkt? Er það þegar búið er að úða allan garðinn með dauðhreinsandi og strádrepandi efni þannig að ekkert kvikt trufli hvíldina? Er það þegar aspirnar í garði nágrannans skyggja ekki lengur á útsýnið því þær voru sagaðar niður í skjóli nætur? Er það þegar heita vatnið í heita pottinum hefur mýkt bakvöðvana, sem eru helaumir eftir kartöfluupptökuna, nægilega til að maður getur teygt sig hjálparlaust eftir hvítvínsglasinu á pottbarminum? Þetta eru auðvitað álitamál sem allir garðeigendur þurfa að spyrja sig að yfir sumarið því til hvers að eiga garð ef maður ætlar ekki að njóta hans líka?

     Garður er mjög fjölbreytt fyrirbæri. Hann er síbreytilegur eftir árstíðum, mánuðum, vikum og jafnvel dögum. Veður getur gerbreytt sólríkum og björtum garði í rennblautan fúlapytt á örfáum mínútum. Þessu hafa Danir og Englendingar komist að svo um munar að undanförnu. Garður fullur af litríkum blómstrandi blómum getur orðið einlitur grænn í nokkrum hressilegum vindhviðum. Það er því nauðsynlegt að njóta augnabliksins í garðinum því þau geta horfið í einni svipan og eiga ekki afturkvæmt.

     Ýmsir hafa komist að þeirri niðurstöðu að verkin í garðinum séu í raun hvíld í sjálfu sér, það að reyta illgresi eða slá blettinn rói hugann og komi skipulagi á hugsanirnar, auk þess sem líkamleg útrás fæst hugsanlega að einhverju leyti við þessa iðju, fer það þó mikið eftir því hvaða hjálpartæki menn velja sér við framkvæmdina. Aðrir kjósa að drífa leiðinlegu verkin af svo hægt sé að slaka á í græna unaðsreitnum og nú verður hver og einn að skilgreina leiðinleg verk fyrir sig sjálfan. Það að reyta arfa hefur löngum verið talið hundleiðinlegt starf og ákaflega niðrandi fyrir fullfrískt fólk að þurfa að standa í svoleiðis brasi. Þó er til fólk sem heldur því blákalt fram að því finnist hreinlega skemmtilegt að reyta arfa, hluti af ánægjunni sé að sjá árangur erfiðis síns að verkinu loknu.

     Sumar eins og við höfum fengið hér sunnanlands í ár gefur garðeigendum ótal tækifæri til að gleðjast yfir sælureitum sínum. Sólbrúnir landar standa við grillin sín í kvöldsólinni kvöld eftir kvöld og snara fram rétti úr garðávöxtum sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur í hlýindunum. Mannlífið er sérstaklega gróskumikið og blómlegt þegar veðurguðirnir leika svona við okkur. Gróður landsins er þó misánægður með ástandið. Margar tegundir plantna blómstra nú sem aldrei fyrr og má þar nefna sýrenur og rósir hvers konar. Nýgróðursettar plöntur eiga hins vegar erfitt uppdráttar enda garðslöngur og vökvunartæki ýmiss konar löngu uppseld víðast hvar um bæinn og má til dæmis sjá skrælnaðar túnþökur víða um bæinn þar sem ekki hefur verið hægt að vökva þær sem skyldi.

     Það er ljóst eftir þau orð sem hér hafa farið að framan að verkefni þeirra vikna sem eftir lifa af sumri eru að njóta útiverunnar. Við eigum að tylla okkur niður í veðurblíðunni innan um gróðurinn (sem vonandi fær yfir sig nokkrar hressilegar gróðrarskúrir að næturlagi nokkrum sinnum á næstu vikum) og anda að okkur ilminum af sumrinu. Þannig njótum við best ávaxtanna af erfiði okkar í garðinum og hlöðum rafhlöðurnar fyrir veturinn sem enn er þó vonandi langt undan.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Sumargræðlingar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það eru tveir gallar við það að eiga risastóran garð. Fyrri gallinn er sá að maður er alltaf að reita arfa, sem er svo sem allt í lagi ef sólin skín og maður getur verið léttklæddur við þá iðju og unnið að brúnkusöfnun í leiðinni en því miður er nú sumarið oft á tíðum vætusamt og nauðsynlegt að brynjast pollagöllum og stígvélum gegn veðrinu. Einhvern veginn er það líka þannig að þegar rignir sprettur arfinn mikið betur en ella. Seinni gallinn er sá að plöntur eru alls ekki gefins, það mætti ætla að þeir sem framleiða plöntur vilji hreinlega fá eitthvað fyrir sinn snúð.. Það þarf líka nokkuð margar plöntur í stóran garð ef vel á að vera, helst þurfa þær líka að vera af aðskiljanlegustu tegundum því það er svo leiðinlegt að horfa upp á einhæfan garð, maður vill fá blóm og fínerí allt sumarið og engar refjar. Hér á eftir fylgir uppskrift að sparnaði í plöntukaupum og er ég viss um að hagsýnar húsmæður landsins eiga eftir að spreyta sig á uppskriftinni, það er að segja ef þær eru ekki uppteknar í nýjum lágvöruverðsmatvöruverslunum.

     Sumargræðlingar eru græðlingar sem eru teknir af plöntum í fullum vexti. Græðlingarnir eru því laufgaðir þegar þeir eru klipptir. Það skiptir talsverðu máli hvenær sumarsins græðlingar eru teknir, viðurinn í árssprotanum (nývextinum) þarf að vera orðinn sæmilega þroskaður en þó má hann ekki vera orðinn of trénaður, það tefur fyrir rótuninni. Þetta má kanna með því að grípa utan um árssprotann og beygja hann svolítið, ef það er dálítið fyrirstaða en samt sveigjanleiki þá er sprotinn á réttu stigi. Græðlingarnir eru klipptir þannig að lengd þeirra sé ekki meiri en u.þ.b. 15 cm en það fer eftir tegundum og því hversu langt er milli bruma. Oft er toppur græðlingsins ónothæfur vegna þess að hann er of linur og þá er hann bara klipptur frá. Neðstu blöð græðlingsins eru fjarlægð áður en honum er stungið í rótunarefnið og er það gert til að koma í veg fyrir að þau mygli í rótunarefninu og eyðileggi þannig græðlinginn.

     Rótunarefnið sem notað er þarf að vera nokkuð áburðarsnautt. Best er, í svona heimaræktun, að nota torfmosa (spaghnum) blandaðan með galdraefninu Hekluvikri. Einnig má nota sand í staðinn fyrir vikurinn. Aðaltilgangurinn með því að blanda sandi eða vikri saman við torfmosann er að tryggja það að það lofti nægilega um ræturnar á meðan þær eru að myndast og eftir að þær eru farnar að starfa. Hlutfall sands eða vikurs í blöndunni má vera á bilinu 30-70% og fer það svolítið eftir því hvað viðkomandi er duglegur að vökva yfir græðlingana, því meiri vikur, því meira þarf að vökva. Rótunarefninu er svo komið fyrir í bökkum, til dæmis er mjög sniðugt að nota bakka undan skógarplöntum. Áður en græðlingunum er stungið er gott að vökva yfir rótunarefnið.

     Græðlingunum er stungið niður í rótunarefnið, þannig að laufgaði endinn snúi upp… Hægt er að fá sérstakt duft, svokallað rótunarhormón, sem neðri enda græðlinganna er dýft í áður en þeim er stungið í bakkana. Þetta hormón hraðar rótarmynduninni en er ekki lífsnauðsynlegt til þess að árangur náist. Þegar bakkinn er fullur er vökvað létt yfir hann og honum komið fyrir undir hvítu, þunnu plasti. Bakkarnir þurfa að standa í góðu skjóli, t.d. í vermireit eða jafnvel inni í gróðurhúsi, þar til rótamyndun hefur átt sér stað og mikilvægt er að tryggja það að þeir þorni aldrei á meðan. Hvíta plastið heldur rakastiginu á græðlingunum háu, best er að það sé sem næst 100%. Í sólríku veðri þarf að taka plastið reglulega af og vökva yfir græðlingana, bæði til að halda rakanum og eins til að kæla þá niður.

     Hreinlæti er mjög mikilvægt við græðlingatökuna því græðlingarnir eru afar viðkvæmir fyrir sveppasýkingum á meðan á rótun stendur. Því þarf að þvo alla bakka og öll tól og tæki vel og vandlega áður en hafist er handa.

     Þær tegundir sem er auðvelt að eiga við og gaman að prófa heima hjá sér eru til dæmis blátoppur, margar tegundir kvista eins og birkikvistur, japanskvistir og perlukvistur, rifstegundir en þær þarf að taka snemma að sumrinu, í lok júní-byrjun júlí, runnamura en hana er hægt að taka lengi fram eftir sumri, margar víðitegundir og svo er auðvitað um að gera að gefa ræktunargleðinni lausan tauminn.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2002)

Posted on

Frænefndin kallar eftir framlögum í Fræbankann

Fræbanki Garðyrkjufélagsins gefur út frælista á hverju ári og hefu hann notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna undanfarin ár og áratugi. Í góðu árferði má finna á frælistanum fræ af mörg hundruð tegundum og yrkjum.

Uppistaðan í Fræbankanum eru fræ sem berast frá félagsmönnum GÍ og öðrum velunnurum. Allar frægjafir til félagsins mjög vel þegnar enda þarf félagið töluvert af fræjum til að anna eftirspurn.

Allir geta orðið fræsafnarar og frægjafar en hafa þarf í huga að fræsafnarar þurfa vita deili á þeirri tegund sem safnað er.

  • Nauðsynlegt er að fræin séu hreinsuð og þurr og hverri tegund sé haldið út af fyrir sig. 
  • Gæta skal þess hver tegund fyrir sig sé vel merkt og að nafn gefanda og símanúmer komi ætíð fram.

Fræjunum má síðan skila á skrifstofu Garðyrkjufélagsins í Síðumúla 1, 108 Reykjavík, í t.d. bréfpoka eða umslagi. Á austurhlið hússins er bréfalúga sem setja má fræin inn um ef skrifstofan er lokuð. Einnig er hægt að póstleggja fræin.

Frænefndin vinnur úr fræsendingum, flokkar og pakkar og með hækkandi sól ár hvert er gefin út frælisti þar sem félagsmenn pantað sér fræ af hinum ýmsum tegundum.

Frænefndin hvetur félagsmenn GÍ og aðra velunnara að safna fræjum og leggja afraksturinn inn í Fræbankann.

Frælisti GÍ 2020 er aðgengilegur á heimasíðu félagsins – https://gardurinn.is/fraelistinn/

Posted on

Blómaskortur í Paradís – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Ungu hjónin sem keyptu gamalt raðhús á dögunum og fengu í kaupbæti yfirgróinn garð eru í óða önn við að koma sér inn í leyndardóma garðyrkjunnar. Þetta er talsvert meiri vinna en þau áttu von á í upphafi, þau eru komin með sigg í lófana, verki í hnén, þursabit í bakið og hælsæri eftir stígvélin en samt eru þau yfir sig ánægð með árangurinn. Auðvitað hafa hlutirnir ekki allir farið eins og til var ætlast, til dæmis hefur arfi látið á sér kræla í nýreyttum beðum, fíflar hafa stungið upp kollinum í grasflötinni og blómstönglarnir á fjölæru plöntunum hafa ekki þolað fótboltaleik barnanna en það alvarlegasta er að margar af skrautjurtunum hafa ekki blómstrað. Ungu hjónin hafa mikið velt vöngum yfir blómaskortinum í paradísinni sinni og hér á eftir fylgja nokkur góð ráð til hjónakornanna um helstu orsakir blómaskorts. Rétt er að geta þess að ekki er um tæmandi lista að ræða..

Hvers vegna blómstra plöntur ekki?

Allar blómplöntur hafa hæfileika til að blómstra, misskrautlega að sjálfsögðu en hverjum þykir sinn fugl fagur og ef hann gegnir sínu hlutverki þá er ekki yfir neinu að kvarta. Helstu ástæður fyrir því að plöntur blómstra ekki eru:

  • Of mikill skuggi – Allar blómplöntur þurfa beina sól að minnsta kosti hluta úr degi til að geta blómstrað. Plöntur eru missólelskar, sumar þurfa að standa í sól allan sólarhringinn en aðrar láta sér duga örfáa sólargeisla yfir daginn og þær eru ánægðar. Plöntur sem standa á of skuggsælum stöðum miðað við þær kröfur sem þær gera almennt til birtu blómstra miklu minna en efni standa til. Í svona tilfellum þarf að flytja plönturnar til og velja svo skuggþolnari plöntur á dimmu staðina.
  • Þurr jarðvegur – Þurrkur getur frestað blómgun plantna um þó nokkurn tíma. Of þurr jarðvegur í langan tíma gerir það að verkum að blómbrum og knúppar ná ekki að þroskast eðlilega, visna því og detta af. Að sama skapi veldur langvarandi þurrkur því að ber og önnur aldin ná ekki að þroskast. Þurrkur að sumarlagi getur líka valdið því að blómgun verður léleg árið eftir.
  • Röng klipping – Mikil klipping á röngum tíma árs veldur því að sumir runnar blómstra hreinlega ekki það árið að minnsta kosti. Vorblómstrandi runna á að grisja að vori og snyrta svo lítillega eftir blómgun en haustblómstrandi runna má klippa hressilega niður að vori.
  • Frostskemmdir á knúppum – Vorfrost geta leikið snemmblómstrandi plöntur grátt, knúpparnir frjósa í hel og ekkert verður af blómgun það árið.
  • Sjúkdómar – ýmsir sjúkdómar geta herjað á blómknúppa, t.d. sveppasjúkdómar og valdið því að blómin springa ekki út. Við þessu er ósköp lítið hægt að gera nema velja til ræktunar plöntur sem ekki eru viðkvæmar fyrir sjúkdómum.
  • Visnaðir knúppar – Knúppar sumra rósategunda ná aldrei að opnast almennilega í votviðratíð. Þetta er sérstaklega áberandi þar sem plönturnar standa í skjóli og svolitlum skugga þannig að vindur og sól ná ekki að þurrka knúppana milli skúra.
  • Fuglar – fuglar éta brum af plöntum á veturna. Blómbrum margra runna eru sérstaklega feit og pattaraleg og því ákaflega girnileg til átu. Slíkar átveislur koma hins vegar í veg fyrir það að runnarnir nái að blómstra sama ár.
  • Óþolinmæði – trjá- og runnategundir blómstra þegar þær hafa aldur til. Í sumum tilfellum þurfa tré að vera orðin 15-20 ára gömul áður en þau blómstra, eins og er tilfellið með fjallagullregn. Garðeigendur verða því að hafa þolinmæði til að bíða eftir blómskrúðinu sem lætur fyrst á sér kræla þegar plönturnar verða kynþroska.
  • Næringarástand – Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Plöntur sem hafa það allt of gott leggja gjarnan allan kraft sinn í vöxt og ekkert í blómgunina. Til þess að þær blómstri þarf að svelta þær svolítið eða jafnvel að stinga aðeins á rótakerfið, við það hrökkva þær í blómgírinn.

Vonandi geta ungu hjónin nú látið blómin tala í garðinum sínum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)

Posted on

Óvenjulegar nytjaplöntur á Íslandi – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Plöntur eru mannfólkinu lífsnauðsynlegar því án þeirra værum við ekki neitt, ekki andað, ekki matast, ekki klætt okkur, ekki dregið bíla, ekki drukkið vín; við værum sennilega ekki til í núverandi formi. Á Íslandi byggir landbúnaður á plöntum sem ýmist eru innlendar eða innfluttar og eru ræktaðar hérlendis sem fóður fyrir búfénað eða matvæli fyrir mannskepnuna. Hugtakið nytjaplöntur eru mjög breytt, í raun eru það allar plöntur sem maðurinn hefur einhver not af.

     Ræktun nytjaplantna á Íslandi hefur auðvitað verið stunduð frá því land byggðist en tegundavalið hefur hins vegar breyst í gegnum tíðina. Landnámsmenn komu með ýmsar ræktunarhefðir með sér frá Evrópu, ræktuðu kryddjurtir, matjurtir og korn en slík ræktun lagðist mikið til af á miðöldum. Þegar rofaði til í miðaldamyrkrinu tóku menn til við ræktun á ýmsum tegundum plantna og einkum náði rófna- og kartöflurækt til manneldis miklum vinsældum enda mjög auðræktaðar tegundir við íslenskar aðstæður. Það var svo nokkrum frumkvöðlum í íslenskri garðrækt að þakka að þekking á ræktun kálplantna og margra annarra matjurta breiddist út og varð almenn í landinu.

     Á síðustu árum hefur orðið sprenging í kornrækt á Íslandi. Kynbótamenn hafa unnið mikið starf við að finna yrki sem henta vel fyrir íslenskt loftslag og hefur sú vinna skilað sér margfalt, nú má sjá stóra kornakra víða um sveitir og er fátt fegurra er einmitt það að sjá kornið sveiflast mjúklega með vindinum. Kornið sem ræktað er hér er fyrst og fremst notað sem fóður fyrir búfénað og sjá bændur fram á að geta sparað sér háar fjárhæðir með því að rækta eigið korn. Kornræktin á eftir að breiðast hratt út á næstu árum, ef svo heldur sem horfir og þar að kemur að kornakrar verða ekki óvenjuleg sjón í íslenskum sveitum.

     Lengi vel var því haldið fram að Ísland væri eitt stærsta bananaframleiðsluland Evrópu. Hugsanlega hefur þetta verið rétt því hér voru ræktaðir bananar í gróðurhúsum víða um land, þótt magnið hafi eflaust ekki verið í tonnum talið. Enn eru ræktaðir bananar á Íslandi í gróðurhúsum og sennilega er mesta framleiðslan á Reykjum í Ölfusi þar sem áður hét Garðyrkjuskóli ríkisins en er nú starfsstöð garðyrkjubrauta Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar geta gestir og gangandi farið inn í bananahúsið og skoðað plönturnar sem bananarnir vaxa á. Bananar vaxa á plöntum sem eru með ógurlega stór laufblöð og ber hver planta aldin einu sinni, þá er hún höggvin niður og rótarskot frá móðurplöntunni tekur við. Rétt er þó að vara fólk við því að smakka á banönum sem hafa alla tíð þroskast á móðurplöntunni, þeir eru svo sætir og góðir á bragðið að manni finnast búðakeyptir bananar bragðlausir og óspennandi í samanburðinum.

     Þegar minnst er á grasker dettur manni helst í hug amerísk útgáfa af hrekkjavöku þar sem graskerin eru holuð að innan, skorin í þau andlit og kerti sett inn í graskerið. Þetta eru hins vegar mjög góðar nytjajurtir og tilvaldar í alls kyns grænmetisrétti. Grasker er auðveldlega hægt að rækta í gróðurhúsum á Íslandi og þurfa þau ekki mikinn hita til að ná að þroskast vel og verða stór og falleg. Það er um að gera fyrir þá sem eiga eða hafa aðgang að gróðurhúsi að prófa að rækta þessa skemmtilegu plöntu og það er aldrei að vita nema við getum í framtíðinni tengt grasker við rammíslenska hauststemningu, til dæmis mætti bragðbæta kjötsúpuna á réttadaginn með graskeri eða drýgja lifrarpylsuna með steiktum graskersbitum, möguleikarnir eru óþrjótandi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Hugum að Garðyrkjuritinu 2021

Garðyrkjuritið er flaggskip Garðyrkjufélagsins og hópur félagsmanna er með það í huga allt árið um kring. Nú er til að mynda verið að ígrunda efni í ritið fyrir næsta ár enda er núna tíminn til að taka myndir og leggja hjá sér minnismiða um forvitnilegt efni í næsta rit.
Við hvetjum félaga til að gera efni úr minnismiðunum og ljósmyndunum sem eru teknar á þessu sumri og hafa samband við félagið um hugsanlegt efni.
Sendið okkur póst á gardurinn@gardurinn.is og við höfum þá samband og leggjum á ráðin um efnistökin. Hafið engar áhyggjur af ritfærni eða slíku – hjá okkur er fólk sem getur auðveldlega hjálpað til.

Posted on

Saman í blíðu og stríðu – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Sambýli tveggja lífvera er skilgreint þannig að þær deila saman lífskjörum og báðar lífverurnar hagnast á samlífinu. Í ljósi nýafstaðinna kosninga dettur manni í hug að þetta gæti verið lýsing á samstarfi sjálfstæðis- og framsóknarflokks eða sjálfsóknarflokksins, eins og gárungarnir hafa viljað nefna þetta sambýlisform. Þetta gæti svo sem einnig verið lýsing á góðu hjónabandi enda er það kannski það sambýlisform sem er hampað mest í dag. Í ríki plantna er hjónabandið þó harla léttvægt enda lítið um slíkar vígslur á þeim slóðum, þótt plöntur séu samt sem áður ómissandi við hjónavígslur. Sambýli plantna við aðrar lífverur getur verið með ýmsum hætti og er ótrúlegt að sjá þá útsjónarsemi sem hefur þróast hjá náttúrunni í gegnum tíðina, skýtur hún jafnvel útsmognustu stjórnmálaflokkum ref fyrir rass.

     Plöntur af ertublómaætt, Fabaceae, búa í sambýli við ættkvísl rótarbaktería af ættkvíslinni Rhizobium. Bakteríur þessar eru þeirrar náttúru að þær geta unnið nitur (köfnunarefni, N) úr andrúmslofti við loftfirrðar aðstæður. Bakteríurnar eru til staðar í jarðvegi og þegar planta af réttri tegund eða ættkvísl er gróðursett í viðkomandi jarðveg fer sérstakt boðefni milli róta plöntunnar og bakteríunnar. Boðefnið gerir það að verkum að rótarhár plöntunnar vaxa í átt að bakteríunni og rótin hringar sig utan um bakteríuna. Bakterían sýkir rótina og gerir það að verkum að á rótum viðkomandi plöntu myndast litlir hnúðar. Inni í hnúðunum er aragrúi baktería sem vinna að því nótt sem nýtan dag að breyta nitri úr andrúmslofti í nitursambönd sem nýtast plöntunni til vaxtar og viðgangs. Í staðinn fyrir nitursamböndin fær plantan sykrur og vatn frá plöntunni.

     Nitur er það aðalefni sem er mest takmarkandi fyrir vöxt plantna því það binst ekki vel í jarðvegi, skolast auðveldlega út úr jarðveginum en er jafnframt lífsnauðsynlegt fyrir plöntur. Það er því greinilegt að þetta tiltekna sambýli plöntu og bakteríu er ákaflega mikilvægt fyrir viðkomandi lífverur. Fleiri lífverur geta þó notið góðs af þessu sambýli því sýnt hefur verið fram á það að plöntur sem sambýli við Rhizobium á rótum eru leka þannig að alltaf sleppur svolítið af nitursamböndum út úr rótum plantnanna. Þessi nitursambönd geta nálægar plöntur tekið upp og nýtt sér. Það er því hagstætt að gróðursetja niturbindandi plöntur á rýrt land því þær framleiða áburð sem annars væri ekki til staðar, nema þá kannski í örlitlu magni.

     Elritegundir af bjarkarætt eru með annars konar sambýli á rótum sínum. Þær búa í sambýli við lífveru sem kallast geislasveppur og er nokkurs konar millistig milli svepps og bakteríu. Geislasveppur elriplantnanna nefnist Franckia og bindur hann, líkt og rótarbakteríurnar sem áður voru nefndar, nitur úr andrúmsloftinu. Nitursamböndin sem verða til við þetta nýtir plantna sér og sveppurinn fær sykrur og vatn frá móðurplöntunni. Geislasveppirnir mynda litla rótarhnúða á rótum elriplantnanna. Við uppeldi elriplantna skiptir öllu máli að smita plönturnar með þessum geislasvepp til að plönturnar þrífist eðlilega. Garðyrkjumenn safna því saman lifandi rótarhnýðum, kremja þau og leysa upp í volgu vatni og vökva yfir nýjar elriplöntur. Þessa vökvun með geislasveppssmiti getur þurft að endurtaka nokkrum sinnum áður en plönturnar smitast almennilega. Hægt er að sjá það á plöntunum hvort smitunin hefur heppnast. Smitaðar plöntur eru fallega dökkgrænar á litinn en ósmitaðar elriplöntur eru gjarnan með verulega rauðleit blöð, svona eins og þær hafi farið hjá sér og roðnað.

     Sambýli við niturbindandi lífverur gerir það að verkum að viðkomandi plöntur standa mun betur að vígi á rýru landi en plöntur sem ekki hafa slíkt sambýli. Þessar sambýlisplöntur eru því oft á tíðum ákaflega heppilegar til landgræðslu, eins og dæmið um alaskalúpínuna sannar.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)

Posted on

Gildi trjáa – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Hvers virði eru tré? Er hægt að mæla virði trjáa í krónum og aurum? Það eru víst síðustu forvöð að tala um aura, þeir eru alveg að detta úr umferð en trén láta það ekkert á sig fá, þau hafa mörg hver lifað ótal myntbreytingar, gengisfellingar, verðbólgur, hallæri, góðæri og guð má vita hvað. Ég held að tré verði ekki metin til fjár, verðmæti þeirra er annað og meira en svo að hversdagslegir hlutir eins og peningar gefi sanna mynd af raunverulegu gildi þeirra.

     Trjárækt hefur verið stunduð á Íslandi að einhverju marki í rúma öld sem telst ekki langur tími í veraldarsögunni. Enn má finna í Reykjavík tré sem voru með þeim fyrstu sem gróðursett voru í borginni. Þessi fyrstu tré ruddu leiðina fyrir öll hin trén sem á eftir fylgdu því með tilvist sinni sönnuðu þau að trjárækt var raunhæfur möguleiki á Íslandi. Á þessari rúmu öld hafa ótal tré verið gróðursett í landinu. Á heildina litið hefur árangurinn verið frábær þótt finna megi sögur af misheppnuðum trjáræktartilraunum þegar vel er að gáð og kíkir hafður við hönd. Afleiðingar þessarar trjáræktar er skjól, skjól sem auðveldar öðrum lífverum lífið og gerir umhverfi okkar hlýlegt og aðlaðandi.

     Þegar horft er yfir gömul og gróin hverfi í Reykjavík sést varla í húsþökin fyrir trjákrónum sem standa langt upp fyrir húsin. Það eru kannski ekki svo ýkja mörg stór tré í hverjum garði en heildaráhrifin af fáum trjám í mörgum görðum eru þau að allt hverfið nýtur skjólsins af trjánum, það nást fram sömu áhrif og inni í skógi. Í skjólinu er minni vindkæling og því hærra hitastig sem auðveldar aftur ræktun á hitakærari plöntum. Skjólið er líka hagstætt fyrir sólardýrkendur því það er svo mikið þægilegra að striplast úti í sólinni ef maður þarf ekki að hafa áhyggjur af vindkælingunni.

     Í nýrri hverfum borgarinnar getur maður aftur á móti dáðst að húsþökunum í allri sinni litadýrð og mismunandi lögun. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi er gróðurinn svo ungur að trén eru ekki farin að teygja sig upp fyrir húsþökin. Í öðru lagi þá hefur fólk ekki áhuga á því lengur að vera með stór og hávaxin tré í görðum sínum, þau skyggja nefnilega svo mikið á sólpallana. Skjólið er fengið með skjólgirðingum sem skýla hinu allra heilagasta á lóðinni, umhverfið er fagurlega skreytt með blómstrandi runnum og lágvöxnum trjám. Haldi þessi þróun áfram sér maður fyrir að sér að hægt sé að þekkja það á fólki, að minnsta kosti að sumarlagi, hvar það býr. Þessir kaffibrúnu, veðurbörðu búa í nýjum úthverfum borgarinnar en þessir með ljósa, slétta litaraftið búa í eldri hverfum borgarinnar…

     Ættum við ekki að vera á varðbergi gagnvart þeirri þróun að fólk gróðursetur ekki stór tré í nýja garða? Skjóláhrifin sem við njótum svo mikið í gömlum, grónum hverfum, nást ekki nema með því að gróðursetja stór tré í nýju hverfin. Vissulega eru ýmsar trjátegundir sem eiga alls ekkert heima í litlum görðum og má þar nefna skessurnar tvær, alaskaöspina og sitkagrenið, þær eru allt of fyrirferðarmiklar í venjulegar lóðir. Það er hins vegar hægt að koma því þannig fyrir að stór og fljótvaxin tré á borð við alaskaöspina og sitkagrenið séu gróðursett í græn svæði innan nýju hverfanna þannig að íbúarnir fái skjóláhrifin en þurfi ekki að fórna sumarbrúnkunni fyrir skjólið.            

     Rétt er að hafa það í huga að til eru margar tegundir af trjám sem eru í meðallagi stór og geta því gefið gott skjól án þess að breyta garðinum í skuggsælan frumskóg. Ilmreynirinn íslenski og íslenska birkið eru gott dæmi um slíkar trjátegundir. Þessar tegundir eru harðgerðar og fallegar, með frekar nettar trjákrónur og geta vaxið á vindasömum stöðum. Rétt er að hafa í huga að samkvæmt byggingarreglugerð má ekki gróðursetja stór tré nær lóðarmörkum en 3 metrum og er það meðal annars gert til að koma í veg fyrir nágrannaerjur vegna yfirgangs stóru trjánna.

     Gróðursetning stórra trjáa í þéttbýli er í raun og veru mjög mikilvæg því að þrátt fyrir hlýnun loftslags undanfarinna ára þá er Ísland á mörkum hins byggilega og okkur veitir ekki af þeim hjálpartækjum sem við getum notað til að gera umhverfi okkar hlýlegra og mannvænna. Mikilvægi grænna svæða innan þéttbýlis hefur orðið okkur æ ljósara, ekki einungis til útivistar heldur einnig sem uppspretta skjóláhrifa. Við ættum að hugsa hvert hverfi sem eina heild sem nýtur sameiginlegra áhrifa af allri trjárækt sem á sér stað innan hverfisins, með öðrum orðum, við ættum að stefna að því að sjá skóginn fyrir trjánum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2003)

Posted on

Sumarferð GÍ farin 8. ágúst

Árleg sumarferð Garðyrkjufélagsins verður farin 8. laugardaginn ágúst næstkomandi og liggur leiðin að þessu sinni um Borgarfjörð þar sem margt gróðurkyns er að sjá. 

Lagt verður af stað frá Síðumúla 1 kl. 9,00 og ekið sem leið liggur í Borgarnes. Þar verður Skallagrímsgarður skoðaður og einn garður í einkaeign.  Komið verður við í gróðrarstöðinni Gleym-mér-ei rétt ofan við Borgarnes þar sem Sædís Guðlaugsdóttir á móti hópnum og bíður upp á kaffisopa.  Hún er með mikið úrval fjölærra plantna. Myndin hér að neðan er úr Gleym-mér-ei, fengin að láni frá héraðsblaðinu Skessuhorni. 

Næsti viðkomustaður er Reykholt.  Þar snæðum við hádegisverð á Fosshóteli.  Eftir hádegismat mun séra Geir Waage leiða okkur í allan sannleika um sögu Reykholts.

Frá Reykholti liggur leiðin til  Hvanneyrar.  Þar göngum við um staðinn undir leiðsögn Árna Snæbjörnssonar sem verður fararstjóri í ferðini ásamt Sigríði Héðinsdóttur en bæði þekkja svæðið eins og handarbökin á sér.  Þeir sem vilja geta svo kíkt á Landbúnaðarsafnið og í Ullarselið.

Síðasti viðkomustaður er Ferjukot við Hvítá.  Gaman er að fara yfir gömlu Hvítárbrúna.  Í Ferjukoti tekur Heba  Magnúsdóttir á móti okkur og sýnir sinn fallega heimilisgarð.

Heimkoma um kl. 19,00.