Posted on

Afmælismálþing 2. október 2025

Garðyrkjufélag Íslands 140 ára
1885-2025

Afmælismálþingið er haldið í Fróða, sal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík og hefst kl. 13.

13:00 – 13:10  Inngangur og afmælisþankar – Guðríður Helgadóttir, formaður GÍ

13:10 – 13:40  Lýðheilsa og gróður – Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsu hjá Landlæknisembættinu

13:40 – 14:20  Trjágróður í þéttbýli – Aaron Shearer, sérfræðingur hjá Landi og skógi

14:20 – 14:50  Merk tré – Auður Elva Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur

14:50 – 15:20  Kaffihlé

15:20 –  15:50  Sveitarfélag með grænum augum –  Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs

15:50 – 16:30  Making our communities greener and healthier with the 3+30+300 principle – Hvernig gerum við samfélagið okkar grænna og heilsusamlegra með 3-30-300 leiðinni – Dr. Cecil Konijnendijk, sérfræðingur í borgarskógrækt og grænum svæðum

16:30 – 17:00  Umræður

Fundarstjóri: Björgvin Örn Eggertsson, Garðyrkjuskólanum á Reykjum

Málþingið fer fram á íslensku og ensku og er öllum opið meðan húsrúm leyfir.

Posted on

Viðburður: Haustlaukar!

Krókusar, vetrargosar, túlípanar og páskaliljur – gleðigjafar garðsins að vori! 

Komdu í leiðsögn með garðyrkjufræðingum Grasagarðsins þar sem fjölbreytt úrval haustlauka er skoðað. 

Fjallað verður um:
• Hvernig og hvenær á að gróðursetja haustlaukana
• Hversu djúpt þeir eiga að fara í jarðveginn
• Hvernig á að velja lauka sem henta vel saman í beð
• Ráðleggingar um litaval, blómgunartíma og samsetningu fyrir fallegt vor

Leiðsögnin hentar bæði byrjendum og þeim sem hafa reynslu af garðyrkju.
Við byrjum við aðalinngang Grasagarðs Reykjavíkur kl. 11, laugardaginn 4. október.

Þátttaka er ókeypis og öll velkomin!

Posted on

Haustkransagerð

Langar þig að læra að gera fallegan haustkrans? Við ætlum að bjóða upp á kennslu í haustkransagerð
þriðjudaginn 30. september og hefst hún kl. 19 og stendur til kl. 21 – í sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1 (gengið inn frá Ármúla).
Verðið er 5000 kr og innifalið er grunnefni (basthringur, vírrúlla, pinnar og undirlag), gott vinnusvæði, kennsla (tveir blómaskreytar verða á staðnum), kaffi og kex eins og vanalega og góðri stemningu heitið🌸
Það eina sem þú þarft að gera er að kíkja í þitt nærumhverfi (eða sveit) og klippa niður efni til að binda í kransinn. Betra að sækja sér meira en minna. Við munum aðstoða með val á efni áður en vinnustofan á sér stað en gott dæmi er kransinn efst í auglýsingunni. Lyng, sölnuð blóm og greinar👌🏻 Erikur eru einnig sniðugar til að gefa meiri lit. Skráningar á heimasíðunni okkar undir vefverslun!

Svipmynd frá haustkransanámskeiðinu sem haldið var í október 2023.

Posted on

Kveðja frá Frænefnd

Kæru félagar, vonandi áttuð þið öll blómlegt og gott sumar.

Fræbanki Garðyrkufélagsins opnar aftur eftir sumarfrí 1. september n.k. og í tilefni af því langar okkur í frænefndinni að minna ykkur á að huga að fræsöfnun í ykkar nærumhverfi. Fræbankinn stendur og fellur með frægjöfum frá félögum. Án ykkar framlags væri enginn fræbanki.

Kær kveðja

Bergljót Kristinsdóttir
Kristín Hallgrímsdóttir
Sólveig Aðalsteinsdóttir

Posted on

Heilsubótar- og fræðslugöngur 12. ágúst

Kæru félagar;
Næstu heilsubótar- og fræðslugöngur í tilefni af 140 ára afmæli Garðyrkjufélags Íslands verða þann 12. ágúst.
Þær eru:

Akureyri Heiðrún Sigurðardóttir, garðyrkjufræðingur, leiðir göngu um matjurtagarða Akureyrar. Mæting er við Gömlu gróðrarstöðina á Akureyri kl. 17.

Borgarnes Sædís Guðlaugsdóttir, garðyrkjufræðingur, leiðir göngu um Skallagrímsgarð. Mæting er við bílastæðið við Skallagrímsgarð kl. 20.

Hver ganga tekur um það bil klukkustund og þær eru öllum opnar.
Kær kveðja, stjórn GÍ

Posted on

Norræna rósahelgin 8. – 10. ágúst 2025

Þema:  „Rósir, loftslag og samfélag“

Kæru félagar í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands. Norræna rósahelgin verður haldin á Íslandi dagana 8. – 10. ágúst í sumar. Þetta er einstakur viðburður fyrir íslenska rósaræktendur og gefst ykkur nú kostur á að taka þátt í þessum viðburði með því að skrá ykkur.

Fjölmörg áhugaverð erindi um rósarækt verða á dagskrá, heimsóttir verða einkagarðar og opinberir rósagarðar á stór-Höfuðborgarsvæðinu (þ.e. í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði). Farið verður í dagsferð um Suðurland þar sem skoðaðir verða einkagarðar og garðyrkjustöðvar og landið skoðað í leiðinni. Kvölddagskrá verður föstudagskvöld í Grasagarðinum og á laugardagskvöld verður hátíðarkvöldverður á Grand Hótel.

Að ráðstefnunni lokinni verður boðið upp á ráðstefnuferð um Vestur- og Norðurland dagana 11.-13. ágúst. Farið verður með rútu norður og einkagarðar skoðaðir á Vesturlandi og síðan gist á miðri leið norður. Daginn eftir verður ekið til Akureyrar og farið í Lystigarðinn sem er alveg einstakur heim að sækja. Gist verður á Akureyri aðra nótt og ekið yfir Kjöl til baka til Reykjavíkur.

Kynnið ykkur dagskrá ráðstefnunnar og nánari lýsingu viðburða. Við hvetjum ykkur til að láta þennan viðburð ekki framhjá ykkur fara. Norræna rósahelgin á Íslandi var síðast haldin sumarið 2012 í einstaklega góðu og hlýju veðri þar sem rósirnar skörtuðu sínu fegursta.

Slóðin á skráningarformið er:  Norræna rósahelgin – Garðyrkjufélag Íslands.  (Athugið: Þegar atriði hafa verið valin í körfuna þá þarf að skoða körfuna og staðfesta skráninguna með greiðslu).

Ávinningur með þátttöku: Þið fræðist um rósarækt, skoðið hvernig aðrir haga sinni ræktun, fáið tækifæri til að deila ykkar þekkingu og reynslu meðal ráðstefnugesta og getið myndað ævilöng vinasambönd þvert á landamæri.

Norræna rósahelgin er viðburður sem haldinn er annað hvert ár af Norræna rósafélaginu og aðildarfélögum þess á Norðurlöndum. Viðburðurinn færist á milli Norðurlandanna fimm: Svíþjóðar, Íslands, Finnlands, Noregs og Danmerkur.

Hefjum rósina til vegs og virðingar – Mætum öll 🙂 

Posted on

Njarðvíkurskógur

Þann 24. júní síðastliðinn leiddi Berglind Ásgeirsdóttir, garðyrkjustjóri Reykjanesbæjar, heilsubótar- og fræðslugöngu um Njarðvíkurskóg. Njarðvíkurskógur er fjölbreytt og áhugavert útivistarsvæði í útjaðri Njarðvíkur (Reykjanesbæjar). Góðmennt var í göngunni enda blíðskaparveður. Garðyrkjufélagið þakkar göngustjóra fyrir leiðsögnina og gestum fyrir komuna.

Posted on

Fjölmenni í Grasagarðinum

Fjölmenni var í kvöldgöngu í Grasagarði Reykjavíkur þann 24.júní en gangan var í samstarfi Grasagarðsins og Garðyrkjufélagsins og  ein af heilsubótar- og fræðslugöngum sem gengnar eru í sumar í tilefni af 140 ára afmæli félagsins. Göngustjóri var Guðríður Helgadóttir, formaður GÍ og henni til halds og trausts voru starfsmenn garðsins, þau Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður, Björk Þorleifsdóttir, fræðslu- og kynningarstjóri og Hjördís Rögn Baldursdóttir garðyrkjufræðingur. Ríflega 300 gestir mættu í gönguna í hellirigningu og nutu leiðsagnar um elsta hluta garðsins. Garðyrkjufélagið þakkar Grasagarðinum kærlega fyrir gestrisnina og gestum fyrir komuna.