Posted on

Frælisti 2021 (index seminum)

Árlega er gefur Garðyrkjufélag Íslands út frælista með hundruðum tegunda og yrkja plantna. Á lista Fræbankans 2021 eru yfir 700 tegundir og yrki.

Helsta uppistaða fræbankans eru fræ sem félaginu berast árlega frá félagsmönnum og öðrum velunnurum GÍ. Garðyrkjufélagið ábyrgist ekki um spírun fræja né heldur að öll séu nákvæmlega af þeirri tegund sem tilgreind er. Þar verður reynsla hvers og eins að skera úr um nákvæmni greiningar.

Hér að neðan gefur að líta frælista félagsins (Index seminum) fyrir árið 2021. Ýmsar tegundir eru til í takmörkuðu magni og því gildir hér gamla góða reglan um að „fyrstur kemur, fyrstur fær.“ 

 Athugið að listinn er í stöðugri þróun sem hægt er að fylgjast með á þessari síðu eða í vefversluninni.

[product_table category=”frae” columns=”sku,image,name,short-description,price,buy” ]

Posted on

Valkvíði – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Valkvíði er hugarástand sem garðyrkjufólk um allan heim þekkir af eigin raun. Sumir eiga við þetta hugarástand að stríða allt árið um kring en aðrir fyllast valkvíða á ákveðnum árstímum. Janúar er einmitt dæmigerður valkvíðamánuður hjá þeim garðræktendum sem leggja stund á ræktun sumarblóma. Þetta kann að hljóma svolítið undarlega, sérstaklega þegar maður lítur út um gluggana heima hjá sér og sér snjóþekjuna yfir öllu, vindurinn gnauðar og skafrenningurinn læðir sér yfir landið. Þá þarf að hafa í huga að einbeittustu sumarblómaræktendur sjá ekki snjóinn og skafrenninginn í raun og veru, þeir hafa litskrúðug sumarblómabeð fyrir sínum hugskotssjónum, eru kannski langt komnir með að skipuleggja útlit beðanna, litasamsetningin er alveg að smella saman en tegundavalið er eftir. Þar komum við að valkvíðanum.

     Síðustu ár og áratugi hefur úrval af sumarblómategundum farið vaxandi. Notkun á sumarblómum hefur líka breyst mikið, áður fyrr lögðu menn meira upp úr hefðbundnum sumarblómabeðum en í dag er aukin áhersla á ræktun á þessum tegundum í ýmiss konar ílátum. Þetta hefur kallað á örlítið breyttar áherslur í sumarblómauppeldi, dæmigerðar beðplöntur eins og stjúpur, fjólur og morgunfrúr hafa dalað í vinsældum en pottaplöntur af ýmsum gerðum, svo sem hengitóbakshorn, snædrífa og brúðarstjarna aukið vinsældir sínar.

     Fjöldi litaafbrigða og yrkja með mismunandi vaxtarlag eru atriði sem eru kynbætendum sumarblóma augljóslega hugleikin. Ár hvert sjáum við nýjar gerðir af gömlu blómunum á markaði. Eitt árið kom fram nýr ljónsmunni sem var sérstaklega ætlaður í hengipotta enda var hann vaxinn eins og hengiplanta. Almennt eru ljónsmunnar annars teinréttir og geta orðið ansi hávaxnir. Fjólur eru annað dæmi um slíkar nýjungar í vaxtarlagi en hengifjólur voru ætlaðar í hvers manns pott fyrir örfáum árum. Þannig hafa kynbætendurnir komið fram með nýtt vaxtarlag á gömlum og þekktum tegundum til að svara aukinni eftirspurn eftir plöntum í ker og potta. Varðandi litina þá er allt undir í þeim efnum. Svartar stjúpur og fjólur voru ákaflega vinsælar eitt árið, KR-ingar keyptu þessar tegundir í miklu magni og gróðursettu með hvítum plöntum sömu tegunda, röðuðu þeim niður í huggulegar samsíða raðir og dáðust að merki íþróttafélagsins síns allt sumarið. Stundum hafa blóm í pastellitum verið ákaflega vinsæl og þá skiptir máli fyrir seljendur sumarblómafræja að hafa slík fræ á boðstólum, sumarblómaræktendur eru þrælar tískustrauma rétt eins og fatakaupendur á hverjum tíma.

     Þegar öllu er á botninn hvolft þá getur verið ansi erfitt að gera upp hug sinn gagnvart sumarblómunum. Hvar á maður að fá upplýsingar um það hvaða litir verði inni í sumar? Ekki vill maður eiga púkalegasta blómabeðið í bænum með liti sem voru kannski í tísku fyrir þremur árum og enginn meðvitaður sumarblómatískufrömuður lætur sjá í garðinum sínum. Svo er ekki eins og hægt sé að skipta um skoðun á miðri leið, það verður að sá til blómanna á réttum tíma svo þau blómstri nú einhvern tíma í sumar. Ætli miðilsfundir hjálpi?

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Vetrargarðurinn – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Veturinn á Íslandi gengur í mínum huga í garð eftir jólin. Þegar búið er að taka jólaljósin niður og eftir standa naktar trjágreinar, ljóslausar og umkomulausar í vetrarmyrkrinu, þá er veturinn mættur á svæðið. Sumar trjágreinar bera sig þó betur en aðrar og komast vel frá viðureign sinni við veturinn. Þær halda sínu, hvernig sem viðrar. Þetta eru sígrænu greinarnar sem tilheyra þeim örfáu tegundum trjám og runna sem halda blöðunum allan veturinn. Grænn litur þessara greina gerir veturinn hlýlegri til muna og heldur í okkur voninni um vorið.

     Umhleypingar vetrarins gera sígrænum tegundum erfitt fyrir, sérstaklega hérna á suðvesturhorni landsins. Annars staðar á landinu, þar sem veturinn er stöðugri, eiga þessar tegundir auðveldar uppdráttar enda líkjast veðurskilyrði þar meira því sem þær eiga að venjast úr heimkynnum sínum. Sólfar á útmánuðum getur reynst sígrænum plöntum skeinuhætt, þá er oft á tíðum frost í jörðu og erfitt að ná í vatn. Þegar sólin skín á blöð plantnanna hitna blöðin og gufa út vatni til að kæla sig en þar sem jarðvegurinn er frosinn ná plönturnar ekki að bæta sér upp vatnstapið. Afleiðingarnar verða sviðin og skrælnuð blöð eða nálar. Til að forðast þetta er rétt að skýla ungum plöntum fyrir sólinni, fyrstu tvo til þrjá veturna. Nokkur sviðin blöð stöðva hins vegar engan í því að koma sér upp fallegum vetrargarði sem býður mann velkominn í grænan faðminn allt árið um kring.

     Við skipulagningu á vetrargarðinum þarf að hafa í huga stærð viðkomandi garðs. Á stóru svæði koma margar tegundir til greina sem eiga það sameiginlegt að verða hávaxnar og tignarlegar, þær þurfa líka gott pláss til að dafna vel. Í þessum hópi eru til dæmis sitkagreni (Picea sitchensis), hvítgreni (Picea glauca), stafafura (Pinus contorta) og bergfura (Pinus uncinata). Það er líka um að gera að reyna að sjá fyrir sér hversu þokkafullar plönturnar eru þegar þær eru hlaðnar nýföllnum snjó eða hvernig þær taka sig út alklæddar jólaseríum.

     Lágvaxnar sígrænar tegundir eru aftur á móti hentugri í litla garða eða í beð með öðrum lágvöxnum gróðri. Steinabeð eru ákaflega fallegur bakgrunnur fyrir slíkar tegundir auk þess sem grjótið veitir plöntunum hlýju því það hitnar á daginn og gefur frá sér varma á nóttunni þegar það kólnar smám saman. Nú hefur færst í vöxt að garðeigendur leggja áherslu á að við inngang húsa sinna sé fremur lágvaxinn gróður sem ekki skyggir á húsið sjálft og býður fólk velkomið. Sígræni gróðurinn skipar þarna stóran sess því hann gleður augað allan veturinn og græni liturinn færir okkur birtu og yl í svartasta skammdeginu.

     Í hópi lágvaxinna sígrænna tegunda eru til dæmis fjallafura (Pinus mugo var. mughus) og dvergfura (Pinus mugo var. pumilio) sem eru runnkenndar og fremur breiðvaxnar. Einitegundir eins og til dæmis íslenski einirinn (Juniperus communis), með sitt dökkgræna barr og himalajaeinirinn (Juniperus squamata), sá gráblái, auka fjölbreytnina í gróðurbeðunum til muna. Einnig mætti benda á dverghvítgreni (Picea glauca ‘Konica’) sem er ekki nema 1-2 m á hæð og áberandi keilulaga í vaxtarlagi og japansýr (Taxus cuspidata ‘Nana’) sem er dökkgrænn runni, um 1 m á hæð og breidd og skuggþolinn.

     Nú er um að gera að setjast niður og skipuleggja vetrargarðinn sinn þannig að hægt sé að planta í hann í sumar og gleðjast yfir honum næsta vetur.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Snjóskemmdir – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Mér líður eins og ég búi í jólakorti þessa dagana. Jólasnjórinn fer reyndar greinilega ekki eftir sama dagatali og við hin, er svona um það bil mánuði á eftir áætlun en ekki verður annað sagt en jólalegt hafi verið um að litast á landinu bláa undanfarið. Eins og venjulega kemur snjórinn okkur Frónbúum algerlega í opna skjöldu. Það er eins og við séum öll nýflutt hingað frá Kanaríeyjum, ef miðað er við það hvernig bílar okkar eru útbúnir til aksturs í snjó, getu okkar til að keyra í hálku og fjölda umferðaróhappa á klukkustund á stórhöfuðborgarsvæðinu síðustu vikuna. Margir hafa líka greinilega ákveðið að nota einhvers konar skyggnigáfu við aksturinn, að minnsta kosti er það ótrúlega algengt að sjá snjóskafla á hjólum í umferðinni og undir hælinn lagt hvort það er einhvers konar útsýnisglufa á framrúðunni. Þetta kemur þó varla á óvart þegar haft er í huga að um helmingur landsmanna trúir á yfirskilvitleg fyrirbæri. Kannski umferðin sé slíkt fyrirbæri?

     Það er fátt fegurra en trjágróður hlaðinn púðursnjó. Ljósmyndarar af öllum gæðaflokkum skella sér í snjógallann og drífa sig út í mjöllina í þeim tilgangi að ná ódauðlegum ljósmyndum af fegurðinni. Sérstaklega eru sígrænar plöntur glæsilegar fyrirsætur við þessar kringumstæður. Snjórinn situr á greinum þeirra eins og hvít glassúr og greinarnar svigna fagurlega undan þunganum. Þetta kemur mjög huggulega út hjá tegundum eins og blágreni sem eru þaulvanar snjóálaginu, greinar þess standa nokkurn veginn lárétt út frá stofninum og heilmikill snjór getur þannig setið á greinunum án þess að trén beri nokkurn skaða af. Lauftré og runnar geta líka litið ákaflega fallega út þaktar snjó en yfirleitt dettur snjórinn fljótt af því flöturinn sem snjókornin geta náð fótfestu á er ákaflega lítill og vind þarf ekki að hreyfa mikið til að feykja snjókornunum út í buskann.

     Það eru þó ekki alltaf jólin og mjög fljótlega eftir að trjágróðurinn okkar skrýðist hinu hvíta dúnmjúka teppi dregur yfirleitt til tíðinda. Þau tíðindi geta verið af margvíslegum toga enda veðurfar með eindæmum dyntótt á Íslandi. Fyrst má nefna vindinn sem nær yfirleitt að hreinsa púðursnjóinn mjög fljótlega af trjágreinunum. Oft á tíðum rignir eða hlánar hressilega ofan í snjókomuna. Við það blotnar snjórinn og þyngist mikið og svigna greinar trjánna þá enn meira og bogna. Ef hlákan er almennileg ná trén að hreinsa sig af snjó og bíða engan skaða af en ef blautur snjórinn frýs bindast plönturnar klakaböndum sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þær.

     Trjátegundir sem eru aðlagaðar miklum snjóþyngslum eru gjarnan með láréttar eða svolítið slútandi greinar, svona eins og blágrenið sem áður var nefnt. Þessi greinasetning plantnanna gerir það að verkum að snjórinn nær að renna fram af greinunum tiltölulega greiðlega og plantan skaðast ekki. Tegundir með hvasst greinahorn og mikið uppréttar greinar hins vegar eru ekki eins lukkulegar með snjóþyngslin. Þær hafa ekki aðlagast slíkum hremmingum að vetrarlagi og því er töluverð hætta á að greinar þessara tegunda hreinlega rifni af þegar snjórinn sligar greinarnar. Greinarnar hafa einfaldlega ekki þá sveigju að snjór geti auðveldlega runnið fram af þeim þegar fargið eykst.

     Það má því með sanni segja að fegurðinni komi ekki kvalalaust, þessi jólakortamynd sem við dáumst svo að er engan veginn hagstæð fyrir trén. Kannski ættum við bara að ganga í lið með vindinum og hrista trén duglega til að losa þau við þetta snjófarg?

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þetta ákall um meiri snjó hljómar nú úr munnum garðyrkjumanna um land allt. Blessaður snjórinn hlífir viðkvæmum plöntum fyrir kuldanum, hann er eins og þykk ábreiða sem heldur hita á plöntunum okkar, þar til hlýnar og vorið stekkur fram á sjónarsviðið. Veturinn hefur verið sannkallaður vetur hingað til og er það ástand sem við erum orðin talsvert óvön. Undanfarnir vetur hafa verið mun umhleypingasamari og þar af leiðandi á margan hátt erfiðari plöntum en þessi vetur. Umhleypingar fara einmitt sérlega illa með plöntur. Það gilda í raun sömu reglur og í barnauppeldi, því meiri stöðugleiki því betra. Háttatíminn ætti að vera á sama tíma öll kvöld, máltíðir reglulegar og foreldrar samkvæmir sjálfum sér. Plöntur þurfa að fá að liggja í dvala yfir veturinn án þess að ótímabær hlýindi rugli þær í ríminu en jafnframt þarf að búa þannig að þeim að þær geti tekist á við það veðurfar sem veturinn býður upp á. Þess vegna viljum við meiri snjó.

     Garðyrkjumenn sýna snjónum á vissan hátt þakklæti sitt með nafngiftum á plöntum. Vissulega eru menn kannski ekki með það beint í huga þegar plöntur eru nefndar að verið sé að færa Vetri konungi sérstakar þakkir en það má alveg líta þannig á málin, svona þegar það hentar. Fjöldinn allur af plöntum hefur fengið nöfn sem við fyrstu sýn virðast ákaflega kuldaleg. Ýmist er þar verið að vísa til blómgunartíma viðkomandi plantna, sumar þeirra blómstra upp úr snjósköflunum snemma á vorin eða blómlitur plantnanna gefur tilefni til þess að nefna þær í höfuðið á snjó. Þannig er fannastjarna ákaflega fallegur vorblómstrandi laukur sem blómstrar fallegum ljósbláum og hvítum blómum snemma í maí. Við sjáum þó sjaldnast snjó á þessum árstíma en það kemur þó fyrir.

     Vetrargosi er aftur á móti mun fyrr á ferð, blómstrar stundum í febrúar-mars þegar vetur er sannanlega á ferð. Blóm vetrargosa eru hvít, lútandi og fremur smá en tegundin er mjög blómsæl og harðgerð, að minnsta kosti um sunnanvert landið. Vetrarblóm er innlend tegund sem einnig fer af stað upp úr hjarninu í apríl, þetta er lágvaxinn steinbrjótur sem blómstrar ákaflega fallegum bleikum blómum. Vetrarblómið myndar þéttar breiður og verður alveg þakið blómum á blómgunartíma sínum sem gerir það áberandi í annars litlausu umhverfinu.

     Margar tegundir eru kenndar við snæ, má þar nefna snæbreiðu sem er lágvaxin fínleg tegund sem myndar fallegar breiður. Hún sáir sér talsvert en er þó ekki til vandræða. Blómgunartími snæbreiðu er langur og þekja lítil blómin plöntuna þegar hún blómstrar. Snædrífa er tiltölulega nýlegt sumarblóm í ræktun á Íslandi. Tegundin er í raun fjölær en þolir ekki íslenskan vetur. Það má því kannski líta á nafngiftina sem kaldhæðni? Snædrífa er hengiplanta og hefur á skömmum tíma náð miklum vinsældum í ker, potta og hengikörfur. Blómin eru drifhvít og fara ákaflega vel við dökkgrænt lauf plöntunnar.

Trjátegundir hafa ekki farið varhluta af þessari stefnu í nafngiftum. Snækóróna er ákaflega vinsæll og blómviljugur runni sem blómstrar frekar stórum, ilmandi snæhvítum blómum um mitt sumar. Mjallarhyrnir er runni sem blómstrar hvítum blómum fyrri hluta sumars en er einkum skrautlegur á veturna þegar hárauðar greinar hans standa upp úr snjónum. Þar skapast skemmtilegar andstæður og er þessi runni einkum ræktaður vegna rauðs barkarlitar síns.

     Svo er hægt að spyrja hvort kuldaleg nöfn geri plönturnar harðari af sér?

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)