Posted on

Ber allt árið – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þeir sem hafa einhvern tíma komið að matargerð á Íslandi þekkja eflaust matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur. Helga var ákaflega dugleg við að kynna matargerðarlistina fyrir landanum og eitt af því sem hún lagði mikla áherslu á var að kynna notkun grænmetis og ávaxta fyrir almenningi. Íslendingar voru almennt ekki mikið fyrir aðra fæðu en kjöt og fisk, kartöflur og rófur áttu reyndar upp á pallborðið hjá okkur og voru í mörgum tilfellum aðaluppistaðan í fæðinu en aðrar plöntuafurðir slógu ekki í gegn fyrr en seint á síðustu öld. Helga átti ugglaust sinn þátt í því að kynna fæðutegundir eins og tómata og gúrkur fyrir landanum og hún skrifaði bók sem náði talsverðri útbreiðslu, bókin nefndist Grænmeti og ber allt árið en var í daglegu tali gárunga nefnd Ber allt árið. Það er einmitt viðfangsefni þessa greinarkorns, notkun á berjum.

     Ýmsar tegundir berja hafa verið ákaflega vinsælar í gegnum tíðina hérlendis. Þar má nefna innlendu tegundirnar bláber, krækiber, hrútaber og jarðarber og af innfluttum tegundum hafa sólber og rifsber notið mestra vinsælda og stikilsber hafa verið nokkuð notuð af þeim sem setja illvíga gaddana ekki fyrir sig. Eins og lýðum er ljóst eru mikið fleiri tegundir trjáa og runna sem framleiða aragrúa berja síðla sumars. Í þeim flokki eru margar tegundir sem mætti nýta miklu meira en gert er, til dæmis til sultugerðar eða í líkjöra. Rétt er að taka fram að ekki er hægt að nota allar tegundir berja í sultu, til er tegundir sem eru ákaflega eitraðar og því betra að sneiða hjá þeim (nema fólk sulti í einhverjum annarlegum tilgangi). Ber töfratrjáa, Daphne mezereum, eru til dæmis mjög eitruð og talað um að þurfi einungis 10-15 ber til að drepa fullorðinn karlmann. Þau eru hins vegar svo skelfilega vond á bragðið að enginn heilvita maður leggur sér þau til munns nema einu sinni.

     Innan rósaættarinnar má finna ákaflega margar góðar tegundir sem menn hafa nýtt í gegnum tíðina. Þar má nefna ýmsar ávaxtategundir eins og epli, perur, ferskjur, apríkósur og fleira í þeim dúr. Einnig eru þar tveir ágætir hópar plantna sem þrífast með miklum ágætum á Íslandi og mætti nýta mikið meira en gert er en það eru rósir og reyniviður.

Aldin rósa nefnast nýpur og eru þær ákaflega C-vítamínríkar. Raunar hefur því verið haldið fram að upphaflega hafi rósir fyrst og fremst verið ræktaðar vegna aldinanna. Margar rósategundir framleiða mikið magn af nýpum hérlendis og alveg tilvalið að nota þær í sultur. Bragðið af hráum nýpum minnir mikið á appelsínur. Þegar nýpur eru notaðar í sultur þarf að hreinsa fræin úr nýpunum, þau eru frekar stór og hörð og leiðinlegt að hafa þau með í sultuna. Rósasulta er hins vegar ákaflega góð og margar uppskriftir til af henni.

     Reyniber eru til í mörgum litum og hafa menn lengi vel notað hin rauðu ber ilmreynis í sultur sem passa vel með villibráð og svínakjöti. Koparreynir og kasmírreynir eru hins vegar tegundir sem koma með hvít ber og eru þau ber alls ekki síðri í sultugerð en ilmreyniberin. Það skemmtilega við þessi hvítu ber er að sultan verður bleik eða rauð, sem kemur svolítið á óvart.

     Reyniberjasulta á það til að vera svolítið römm ef maður notar einungis reyniber í sultuna og til að mýkja bragðið og gera það mildara er gott að nota epli til allt að helminga á móti berjunum, þegar þau eru soðin niður. Uppskrift að svona sultu gæti verið 500 g reyniber, 500 g epli og 500-750 g sykur, allt eftir því hvað sultan á að vera sæt. Ber og epli soðin saman í svolitla stund í potti með ca botnfylli af vatni, gumsið svo síað í gegnum klút til að losna við hratið. Safinn er svo settur aftur í pott með sykri og soðinn þar til sykurinn hefur leyst upp. Stundum þarf að bæta hleypiefni saman við en ef maður sýður berjaklasana heila með eplunum fæst oft svolítið hleypiefni úr þeim. Hlaupið er svo sett á krukkur og þeim lokað strax. Nú er bara um að gera að prófa sig áfram með sultun á hvítum berjum.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Skipting fjölærra plantna – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það er mikill misskilningur að fyrstu haustlitirnir boði endalok garðvinnunnar það árið. Haustið hefur í för með sér ákveðin verk í garðinum, eins og reyndar allar aðrar árstíðir. Á þessum tíma þarf að setja niður haustlaukana og er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í að velja saman blómlit, blómgunartíma og mismunandi tegundir til að vorið verði nú sem allra blómlegast. Garðyrkjumenn keppast við að gróðursetja plöntur á haustin enda er þetta mjög heppilegur tími í slík störf. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að plönturnar ofþorni, haustlægðirnar sjá alfarið um vökvunina og þar sem plönturnar eru komnar í dvala er lítil hætta á skakkaföllum. Eina vandamálið getur verið frostlyfting því plönturnar ná ekki alveg að festa rætur fyrir veturinn en þá er nú lítið mál að bregða undir sig betri fætinum í apríl og rétta greyin við.

     Eitt þeirra haustverka sem hafa mætti meira í hávegum er skipting fjölærra plantna. Fjölærar plöntur eru þeirrar náttúru að þegar vetur gengur í garð fella þær blöð og stöngla og liggja í dvala yfir veturinn. Þær geyma forða í rótum sínum yfir veturinn og ná þannig að vaxa upp að nýju að vori. Eftir því sem plönturnar stækka þá breiða þær úr sér, oftast út frá miðjunni. Með aldrinum deyr síðan elsti hluti plöntunnar og þá myndast eins konar hreiður í plöntunni og þykir það ekki sérlega lekkert. Þegar komið er á það stig þarf að taka plöntuna upp, skipta henni niður í nokkra hluta og gróðursetja einn þeirra aftur á sama stað, eða öðrum, allt eftir hentugleika og óskum viðkomandi garðeiganda. Þetta er alveg tilvalið að framkvæma að hausti til, svona rétt áður en plantan hefur endanlega fellt stönglana og blöðin og enn er hægt að greina hvaða tegund er um að ræða. Plantan hefur þannig náð að gleðja augað allt sumarið og gengur nú í endurnýjun lífdaga fyrir næsta sumar.

     Skipting fjölærra plantna er ekki flókið verkefni og tiltölulega óvanir garðeigendur geta framkvæmt þetta sjálfir, án vandræða. Til verksins þarf vel handklippur, beitta stunguskóflu, svartan plastpoka (liturinn er ekki skilyrði, aðallega stærðin), gott er að hafa tvo stungugaffla en ekki nauðsynlegt og síðast en ekki síst beittan hníf. Framkvæmdin er á þá leið að fyrst eru langir blómstönglar klipptir niður með handklippunum. Svarti plastpokinn er breiddur á stétt eða gras til að hlífa fletinum við moldinni. Því næst er stungið í kringum plöntuna með stunguskóflunni og hnausinn tekinn upp og settur á plastpokann. Þá er tvennt í stöðunni. Annars vegar er hægt að skipta hnausnum upp með því að stinga hann í sundur með stunguskóflunni. Með þessu er verið að skera á margar rætur og því kjósa sumir að nota heldur stungugafflana við þetta verk. Þá er göfflunum stungið niður þétt hvor við annan í miðjan hnausinn þannig að þeir snúa bökum saman og eru báðir uppréttir. Þeir eru síðan glenntir í sundur og hnausnum skipt þannig upp. Í sumum tilfellum geta ræturnar verið erfiðar viðureignar og þá er gott að grípa til hnífsins og skera á svoleiðis vandræðagripi. Eftir að skiptingin hefur farið fram velur garðeigandinn þann hluta sem hann vill gróðursetja aftur í beðið og hinum hlutunum er fargar eða komið í fóstur hjá öðrum garðeigendum.

     Gróðursetningin fer þannig fram að grafin er góð hola, lífrænn áburður settur í botninn á holunni og honum blandað vel saman við moldina. Þunnt lag af mold fer ofan á áburðarblönduna og þá má koma plöntunni fyrir. Síðan er mold mokað að plöntunni og þess gætt að hún standi álíka djúpt og hún gerði áður. Moldin er svo þjöppuð varlega og að lokum er vökvað vel yfir. Þessa aðferð má nota á flestar fjölærar plöntur. Nú er bara að skerpa stunguskófluna, hnífinn og handklippurnar og stökkva út í garð milli rigningarskúranna. Einnig má líta á þetta verkefni sem ágætis leið til að halda sér í formi og kostar það töluvert minna en líkamsræktarkortið…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Ræktaðu þinn eigin lauk

Eins og undanfarin ár gengst matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með deginum í dag geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu gert sínar pantanir á lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/product-category/matlaukar/).

Eins og í fyrra er um að ræða þrjár gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá ræktanda í Svíþjóð. Þessar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða afbrigðin Thermidore, Sabagold og Germidour. Shallott laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Gera þarf pöntun í síðasta lagi á miðvikudaginn í næstu viku, 26. ágúst. Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður framleiðandanum í Svíþjóð gert viðvar og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, í fyrstu viku september – einmitt þegar best er að planta lauknum út í beð. Við afhendingu verður að sjálfsögðu gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana.

Hver laukur (með allt að 20 rif) kostar 650 krónur en schalottlaukurinn 120 krónur. Þetta er hagstæðara verð en stendur til boða annars staðar.

Posted on

,,Frönsk ilmfjóla” – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Saga garðyrkju á Íslandi er ekki löng. Hún hefur, öðru fremur, einkennst af atorkusemi einstakra manna sem þrjóskuðust við það að rækta plöntur þrátt fyrir óblíð veðurskilyrði. Enn fremur máttu þessir menn glíma við ótrú almennings á því að gróður gæti yfirhöfuð þrifist á Fróni. Hlutur áhugafólks í garðyrkjusögunni er ómetanlegur. Ótölulegur aragrúi plöntutegunda hefur verið prófaður í görðum um land allt og sá fróðleikur sem þar hefur aflast hefur svo sannarlega skilað sér áfram til þeirra sem vinna við garðyrkju. Garðyrkjusaga Íslands er samtvinnuð sögu þessara áhugamanna en ekki síður er hún saga einstakra tegunda. Margar plöntutegundir í ræktun í dag eiga sér merkilega sögu. Ein þessara tegunda er nefnd því glæsilega nafni ,,frönsk ilmfjóla”.

     Við Suðurgötuna í Hafnarfirði býr Gunnar Ásmundsson bakari. Gunnar fékk ungur mikinn áhuga á garðyrkju. Á fjórða áratugnum starfaði hann í nokkur sumur í garðinum við Hellisgerði í Hafnarfirði. Segja má að þá hafi hann endanlega smitast af garðyrkjubakteríunni og eins og aðrir garðyrkjuáhugamenn vita, er þessi veiki ólæknandi. Hann hefur alla tíð ræktað garðinn sinn og verið ötull við það að breiða garðyrkjuboðskapinn út til gesta og gangandi.

     Árið 1953 áskotnaðist honum plantan sem hér verður fjallað um. Ingvar Gunnarsson kennari, sem þá starfaði í Hellisgerðisgarðinum, færði honum hnaus af því sem hann kallaði ,,franska ilmfjólu”. Fjóla þessi stendur í blóma allt sumarið og blóm hennar eru mjög stór af fjólu að vera eða 3-4 cm í þvermál. Fjólan nær um 20 cm hæð og verður feit og pattaraleg með aldrinum. Hún virðist ekki mynda þroskað fræ því hún sáir sér ekki eins og margar frænkur hennar. Fjólunni má fjölga á öruggan hátt með skiptingu eða sumargræðlingum. Gunnar hefur fjölgað henni með skiptingu og haldið tegundinni þannig við allt frá því hann eignaðist hana fyrir rúmum 40 árum. Á þeim tíma hefur hann einnig verið duglegur við það að gefa vinum og kunningjum af fjólunni og þannig hefur hún fengið dágóða útbreiðslu um höfuðborgarsvæðið. Nauðsynlegt er að skýla henni með léttu vetrarskýli á veturna því hún er dálítið viðkvæm. Aðalsmerki ,,frönsku ilmfjólunnar” er þó ilmurinn en hann er sætur og sterkur og berst langar leiðir. Hún á því þetta glæsilega nafn svo sannarlega skilið.

     Hitt er annað mál að í gegnum tíðina hefur mikið verið deilt um faðerni viðkomandi fjólu. Fjólan á greinilega fátt sameiginlegt með hinni eiginlegu ilmfjólu, Viola odorata. Fyrir það fyrsta eru blómin alls ekkert lík að lit og lögun og svo hefur ,,franska ilmfjólan” það fram yfir ilmfjóluna að blómin ilma. Blóm þeirrar frönsku eru einnig mun stærri en blóm hinnar. Líklegast er að ,,franska ilmfjólan” sé blendingur af fjallafjólu en í hópi slíkra blendinga má finna plöntur með blóm af svipaðri stærð og lögun og sú franska.

     Burtséð frá ættfræði fjólunnar er þetta einstaklega áhugaverð garðplanta. Langur blómgunartími og skrautleg blóm skipa henni í flokk með úrvalsplöntum. Það þykir ekki góð latína að láta syndir feðranna bitna á börnunum og því tel ég réttast að fjólan fái að halda ilmfjólunafninu, jafnvel þótt sýnt sé að hún hafi verið rangfeðruð.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)

Posted on

Að njóta ávaxtanna – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Hvenær er kominn tími til að setjast niður og njóta ávaxta erfiðis síns? Er það þegar siggið á hnjánum eftir illgresishreinsunina er orðið nokkurra sentimetra þykkt? Er það þegar búið er að úða allan garðinn með dauðhreinsandi og strádrepandi efni þannig að ekkert kvikt trufli hvíldina? Er það þegar aspirnar í garði nágrannans skyggja ekki lengur á útsýnið því þær voru sagaðar niður í skjóli nætur? Er það þegar heita vatnið í heita pottinum hefur mýkt bakvöðvana, sem eru helaumir eftir kartöfluupptökuna, nægilega til að maður getur teygt sig hjálparlaust eftir hvítvínsglasinu á pottbarminum? Þetta eru auðvitað álitamál sem allir garðeigendur þurfa að spyrja sig að yfir sumarið því til hvers að eiga garð ef maður ætlar ekki að njóta hans líka?

     Garður er mjög fjölbreytt fyrirbæri. Hann er síbreytilegur eftir árstíðum, mánuðum, vikum og jafnvel dögum. Veður getur gerbreytt sólríkum og björtum garði í rennblautan fúlapytt á örfáum mínútum. Þessu hafa Danir og Englendingar komist að svo um munar að undanförnu. Garður fullur af litríkum blómstrandi blómum getur orðið einlitur grænn í nokkrum hressilegum vindhviðum. Það er því nauðsynlegt að njóta augnabliksins í garðinum því þau geta horfið í einni svipan og eiga ekki afturkvæmt.

     Ýmsir hafa komist að þeirri niðurstöðu að verkin í garðinum séu í raun hvíld í sjálfu sér, það að reyta illgresi eða slá blettinn rói hugann og komi skipulagi á hugsanirnar, auk þess sem líkamleg útrás fæst hugsanlega að einhverju leyti við þessa iðju, fer það þó mikið eftir því hvaða hjálpartæki menn velja sér við framkvæmdina. Aðrir kjósa að drífa leiðinlegu verkin af svo hægt sé að slaka á í græna unaðsreitnum og nú verður hver og einn að skilgreina leiðinleg verk fyrir sig sjálfan. Það að reyta arfa hefur löngum verið talið hundleiðinlegt starf og ákaflega niðrandi fyrir fullfrískt fólk að þurfa að standa í svoleiðis brasi. Þó er til fólk sem heldur því blákalt fram að því finnist hreinlega skemmtilegt að reyta arfa, hluti af ánægjunni sé að sjá árangur erfiðis síns að verkinu loknu.

     Sumar eins og við höfum fengið hér sunnanlands í ár gefur garðeigendum ótal tækifæri til að gleðjast yfir sælureitum sínum. Sólbrúnir landar standa við grillin sín í kvöldsólinni kvöld eftir kvöld og snara fram rétti úr garðávöxtum sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur í hlýindunum. Mannlífið er sérstaklega gróskumikið og blómlegt þegar veðurguðirnir leika svona við okkur. Gróður landsins er þó misánægður með ástandið. Margar tegundir plantna blómstra nú sem aldrei fyrr og má þar nefna sýrenur og rósir hvers konar. Nýgróðursettar plöntur eiga hins vegar erfitt uppdráttar enda garðslöngur og vökvunartæki ýmiss konar löngu uppseld víðast hvar um bæinn og má til dæmis sjá skrælnaðar túnþökur víða um bæinn þar sem ekki hefur verið hægt að vökva þær sem skyldi.

     Það er ljóst eftir þau orð sem hér hafa farið að framan að verkefni þeirra vikna sem eftir lifa af sumri eru að njóta útiverunnar. Við eigum að tylla okkur niður í veðurblíðunni innan um gróðurinn (sem vonandi fær yfir sig nokkrar hressilegar gróðrarskúrir að næturlagi nokkrum sinnum á næstu vikum) og anda að okkur ilminum af sumrinu. Þannig njótum við best ávaxtanna af erfiði okkar í garðinum og hlöðum rafhlöðurnar fyrir veturinn sem enn er þó vonandi langt undan.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Frænefnd GÍ kallar eftir framlögum í Fræbankann

Fræbanki Garðyrkjufélagsins gefur út frælista á hverju ári og hefu hann notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna undanfarin ár og áratugi. Í góðu árferði má finna á frælistanum fræ af mörg hundruð tegundum og yrkjum.

Uppistaðan í Fræbankanum eru fræ sem berast frá félagsmönnum GÍ og öðrum velunnurum. Allar frægjafir til félagsins mjög vel þegnar enda þarf félagið töluvert af fræjum til að anna eftirspurn.

Allir geta orðið fræsafnarar og frægjafar en hafa þarf í huga að fræsafnarar þurfa vita deili á þeirri tegund sem safnað er.

– Nauðsynlegt er að fræin séu hreinsuð og þurr og hverri tegund sé haldið út af fyrir sig.

– Gæta skal þess hver tegund fyrir sig sé vel merkt og að nafn gefanda og símanúmer komi ætíð fram.

Fræjunum má síðan skila á skrifstofu Garðyrkjufélagsins í Síðumúla 1, 108 Reykjavík, í t.d. bréfpoka eða umslagi. Á austurhlið hússins er bréfalúga sem setja má fræin inn um ef skrifstofan er lokuð. Einnig er hægt að póstleggja fræin.

Frænefndin vinnur úr fræsendingum, flokkar og pakkar og með hækkandi sól ár hvert er gefin út frælisti þar sem félagsmenn pantað sér fræ af hinum ýmsum tegundum.

Frænefndin hvetur félagsmenn GÍ og aðra velunnara að safna fræjum og leggja afraksturinn inn í Fræbankann.

Frælisti GÍ 2020 er aðgengilegur á heimasíðu félagsins – https://gardurinn.is/fraelistinn/

Posted on

SUMARFERÐINNI AFLÝST

Garðyrkjufélagið aflýsir hér með sumarferðinni 2020 sem átti að fara um næstu helgi. Ástæðan er einföld: veirufaraldurinn.

Ekki er útlit fyrir að hægt verði að blása til ferðarinnar síðar á þessu sumri, því miður. Við vonumst auðvitað til að geta farið á næsta sumri…

Þeir sem þegar hafa greitt fyrir ferðina geta haft samband við skrifstofu félagsins og fengið endurgreitt.

Með kveðju

Ómar Valdimarsson formaður