Udgivet i

Norræna rósahelgin 8. – 10. ágúst 2025

Þema:  „Rósir, loftslag og samfélag“

Kæru félagar í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands. Norræna rósahelgin verður haldin á Íslandi dagana 8. – 10. ágúst í sumar. Þetta er einstakur viðburður fyrir íslenska rósaræktendur og gefst ykkur nú kostur á að taka þátt í þessum viðburði með því að skrá ykkur.

Fjölmörg áhugaverð erindi um rósarækt verða á dagskrá, heimsóttir verða einkagarðar og opinberir rósagarðar á stór-Höfuðborgarsvæðinu (þ.e. í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði). Farið verður í dagsferð um Suðurland þar sem skoðaðir verða einkagarðar og garðyrkjustöðvar og landið skoðað í leiðinni. Kvölddagskrá verður föstudagskvöld í Grasagarðinum og á laugardagskvöld verður hátíðarkvöldverður á Grand Hótel.

Að ráðstefnunni lokinni verður boðið upp á ráðstefnuferð um Vestur- og Norðurland dagana 11.-13. ágúst. Farið verður með rútu norður og einkagarðar skoðaðir á Vesturlandi og síðan gist á miðri leið norður. Daginn eftir verður ekið til Akureyrar og farið í Lystigarðinn sem er alveg einstakur heim að sækja. Gist verður á Akureyri aðra nótt og ekið yfir Kjöl til baka til Reykjavíkur.

Kynnið ykkur dagskrá ráðstefnunnar og nánari lýsingu viðburða. Við hvetjum ykkur til að láta þennan viðburð ekki framhjá ykkur fara. Norræna rósahelgin á Íslandi var síðast haldin sumarið 2012 í einstaklega góðu og hlýju veðri þar sem rósirnar skörtuðu sínu fegursta.

Slóðin á skráningarformið er:  Norræna rósahelgin – Garðyrkjufélag Íslands.  (Athugið: Þegar atriði hafa verið valin í körfuna þá þarf að skoða körfuna og staðfesta skráninguna með greiðslu).

Ávinningur með þátttöku: Þið fræðist um rósarækt, skoðið hvernig aðrir haga sinni ræktun, fáið tækifæri til að deila ykkar þekkingu og reynslu meðal ráðstefnugesta og getið myndað ævilöng vinasambönd þvert á landamæri.

Norræna rósahelgin er viðburður sem haldinn er annað hvert ár af Norræna rósafélaginu og aðildarfélögum þess á Norðurlöndum. Viðburðurinn færist á milli Norðurlandanna fimm: Svíþjóðar, Íslands, Finnlands, Noregs og Danmerkur.

Hefjum rósina til vegs og virðingar – Mætum öll 🙂