Posted on

Eggaldin og eggjastokkar

(Áður birt í Vikunni árið 2020)
höf: Kristján Friðbert Friðbertsson

Nú á tímum „emoji“ samskipta mætti jafnvel telja að hér væru skilaboð um spennandi skyndikynni ( blikk, blikk.. ) eða ráðleggingar um rjúkandi heit risráð í rúminu ! Því miður eru þessi skrif ekki af þeim toganum, nema meðal lesenda séu blómplöntur, en ekki hætta að lesa strax !

Það vill nefnilega svo til að flestar blómplöntur þurfa að frjóvgast og finna afkvæmum sínum farveg svo fjölgun þeirra geti haldið áfram óhindrað. Karlhlutarnir láta allajafna duga að mynda frjóin og bíða svo eftir að ýmist skordýr eða vindur færi þau að heppilegum kvenhluta. Þess vegna var stundum vísað í það sem dæmigerða karlhegðun að gera ekkert nema mynda frjókornin, en vilja samt dreifingu þeirra sem allra víðast. Að sama skapi heyrist stundum í fólki með frjókornaofnæmi kvarta yfir þessari yfirgangssemi og segjast vera komið með algert óþol fyrir óstöðvandi kynhvöt karla.

Kvenhlutarnir hins vegar bíða þess að frjóið mæti á svæðið og þá byrjar fjörið. Eggfrumur blómplantna eru geymdar í eggjastokkum, sem hafa þó í fræðunum fengið heitið eggleg. Kannski þótti einhverjum þau eggleg í laginu, en líklegri er þó ástæðan að þar liggja eggin. Nái frjóvgun að verða milli frjókorns og eggfrumu verður til fóstur umlukið hlífðarskildi til varnar, nokkuð sem við í daglegu tali nefnum fræ. Við heppilegar aðstæður opnast hlífðarskjöldurinn, fræið spírar og sendir út frá sér sprota sem verður að rót neðanjarðar. Sprotinn ýtir fræinu upp úr jarðveginum og sá endi vex sem nýr stofn og myndar greinar og blöð. Skyndilega er fóstrið orðið að nýrri plöntu.

En hvað með eggaldin? Plantan rekur uppruna sinn til Asíu og er af náttskuggaætt, líkt og tómatar, kartöflur, tóbaksplantan o.fl. Tómatar og eggaldin eiga fleira sameiginlegt, t.d. eru þau bæði að uppistöðu vatn og innihalda nikótín. Eggaldin er 92% vatn, tómatur líkt og gúrka er 95% vatn, en við sjálf auðvitað bara í kringum 60% vatn. Einnig eru þau bæði í daglegu tali oft flokkuð sem grænmeti, en eru í raun ávextir. Nánar tiltekið ber.

Hér erum við auðvitað á tæknilegu nótunum. Flestir flokka í daglegu tali ávexti og grænmeti í sundur einna helst eftir magni sykurs, ekki grasafræðilegri skilgreiningu og telja því t.d. tómat sem grænmeti. Í lok 19. aldar heimtaði meira að segja hæstiréttur Bandaríkjanna að tómatar væru grænmeti. Þeirra skilgreining sneri að því að tómatur væri borðaður með kvöldmatnum, ekki sem eftirmatur. Enn erfiðara væri þá að fá fólk á sitt band varðandi það að paprika og eggaldin séu ber og því kannski óþarfi að breyta þessu í daglegu tali, en grasafræðin hlustar ekki á almannaróm. Vísindin segja jú bara staðreyndirnar, hvað sem við hin kjósum að kalla þær.

Við erum þó alls ekki komin að því furðulegasta enn. Ber, líkt og aðrir ávextir, eru í raun bara enn ein hlífin utan um fræin sem plantan myndaði. Þetta finnum við greinilega ef við bítum hvort heldur sem er í kirsuber, tómata eða kirsuberjatómata. Nú eða skerum í sundur papriku, eggaldin, epli eða melónu. Jarðaber fara hina leiðina og geyma sín fræ útvortis á aldininu, frekar en að fela þau í aldinkjötinu miðju. Minnir okkur á að þessi hlíf er auðvitað meira en bara hlíf. Hún er einnig lykilþáttur í dreifingu fræjanna.

Í þessu tilfelli skiptir máli að ná athygli dýranna, sem borða ávöxtinn og dreifa fræjunum ýmist við átið eða að meltingu lokinni. Svo bætist auðvitað mannfólkið í dýrahópinn og dreifir einnig vítt og breitt fræjum þeirra plantna sem heilla skilningarvit þeirra mest. Fallegustu blómin, þægilegasti ilmurinn, bragðbestu ávextirnir og hver veit, kannski hljómfagrasti laufþyturinn? Eitthvað leiðir til þess að sum aldin eða plöntur verða vinsælli en önnur meðal okkar dýranna og þeim dreifum við sem víðast.

En úr hverju skyldu allir þessir ávextir vera myndaðir? Frískandi eplið með „krönsjinu“ góða, sæta appelsínan, súra sítrónan, vatnsmikla melónan, gómsæta paprikan og … já… eggaldinið. Allt verður þetta til úr eggleginu, m.ö.o. eggjastokkunum. Vekur reyndar upp spurninguna hvort kom á undan, hænan eða eggaldinið og hvort allar konur verði að ávöxtum í næsta lífi, en geymum slíkar umræður til betri tíma. Vandinn er að berið kom á undan grasafræðingunum og skilgreiningum þeirra.

Með alla þessa vitneskju í farteskinu leiðir maður óhjákvæmilega hugann að því þegar kynferðislega ólmir karlmenn, eins konar holdgervingar frjókornanna, grípa vongóðir í símann á góðri stundu. Með glott á andlitinu skrifa þeir vanhugsuð skilaboð til kvenfólks og af öllu skrýtnu kjósa þeir að senda þeim eggjastokka, í formi „emoji“ af eggaldini, til að auglýsa karlmennsku sína !

Spurning hvort þeir sem eru svona gríðarlega ólmir í að auglýsa eigin karlmennsku, hugsi sig tvisvar um áður en þeir senda eggjastokka á tilvonandi bólfélaga?

Gúrkur og bananar eru í sama pakkanum. Til hvers að skipta úr einum eggjastokk yfir í annan? Hvað með frygðarmerkið fræga frá Seltjarnarnesi, sem ratar á flatbökur forsetans? Jújú, ananasinn er samansafn berja, sem hvert og eitt er: myndað úr eggjastokk!

En bíðum hæg, erum við þá mögulega búin að ramba á svarið við þessu öllu saman? Varð ananas einmitt þess vegna fyrir valinu úti á Nesi? Fólk sem ferðast um verslanir með tugi eggjastokka í körfunni er augljóslega bara með eitt á huganum, ekki satt?

Þetta setur kannski heimaræktun á grænmeti og ávöxtum í nýtt ljós, en ég get sagt fyrir mitt leyti að það jafnast ekkert á við berjamó heima í stofu. Sama hvort um ræðir papriku, tómata eða gúrkur.