


8.apríl 2025
Í dag er annar í páskum, 21.apríl 2025. Eftir þrjá daga er skv dagatalinu sumardagurinn fyrsti. Veðurspáin sýnir sól um allt land og að mestu hitatölur réttu megin við núllið yfir daginn. Vægt næturfrost framundan víðast hvar. Veður sem rímar ágætlega við þennan árstíma, en gróður er hins vegar víða kominn miklu lengra en við erum vön. Ekki síst á byggðu bóli.
„Meira að segja“ birki var byrjað að opna brum fyrstu vikuna í apríl á höfuðborgarsvæðinu og um miðjan mánuðinn sást víða í lauf. Ekki allt birki alls staðar, nokkur munur var á því hve langt það var komið, en þó nokkuð víða ef grannt var skoðað. T.d. í Kópavogi, 110 Reykjavík og við Esjuna. Birkikemban vaknar í takt, enda sérhæfð til þess og um miðjan apríl sá ég hana víða á flugi.
Sömu sögu má segja um flestar reynitegundir, en hinn klassíski reyniviður/ilmreynir er þó oft meðal þeirra síðustu. Blátoppur og í kjölfarið ýmsir aðrir toppar, lerki, sýrenur, þyrnar (Crataegus), rósir, rifstegundir og vandræðalega mikið af fjölæringum.
Hvað á þetta eiginlega að þýða!? Auðvitað er gaman að sjá gróðurinn, sérstaklega eftir síðasta sumar sem olli mörgum vonbrigðum og var t.d. sérlega sólarlítið og kalt SV-lands. Reynslan hefur samt löngu kennt okkur að mikil hætta er á þó nokkru frosti víða um land út maí mánuð. Sums staðar reyndar allt árið um kring. Frosti sem getur sett verulegt strik í reikninginn hjá plöntum. Allt frá því að skemma blóm eða svíða blöð, yfir í að hreinlega drepa plöntuna.


Af hverju?
Veturinn var óvenju hlýr og þá sérstaklega febrúar og mars. Raunar var mars um 2°c heitari en 30 ára meðaltal (1991-2020) á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík og enn meira en það í Bolungarvík og Stykkishólmi. Hér munar miklu, því meðaltalið er annars í kringum frostmark.
Best hef ég fylgst með höfuðborgarsvæðinu og vík því sérstaklega að því. Hlýr og snjóléttur vetur með sólríkan mars þýðir að frosin jörð er fljót að þiðna og hlýna. Á sama tíma árið 2020 var 2°c jarðvegshiti í bakgarðinum hjá mér í 110 Reykjavík, en er núna í kringum 5°c og verið á því róli í margar vikur.
Tímabil af hlýrri, frostlausri jörð að vori sem er í þokkabót sólríkt og milt ýtir öllu í gang. Misjafnt er milli plantna hve hlýtt þarf að vera og hve lengi, en smám saman vakna þær allar. Við það að vakna úr dvala, dregur úr frostþoli þeirra, skref fyrir skref. Brumin eru mikilvæg og þola enn nokkurt frost þegar opnast, en um leið og lauf eða blóm koma útúr þeim verður voðinn fljótt vís. Hægt er að hlífa sumu yfir stöku nætur sem gætu farið rétt aðeins yfir línuna, en almennt séð geta langvarandi aðgerðir oft gert á endanum meiri skaða. Þegar svona margt er komið svona langt, er lítið annað að gera en að vona það besta. Jú – reyndar – ekki vera of dugleg að hreinsa beðin. Það átta sig ekki allir hvað það getur munað miklu fyrir plöntur að hafa þessa viðbótar vörn frá „ruslinu“ á vorin. Sjálfur hef ég hreinsað sumt nú þegar, en þá bara varlega og bara að hluta til, til að „létta aðeins á“.
Mikið svakalega væri nú gaman ef við komumst áfallalaust inn í sumarið og fáum svona sérlega langt og gott ræktunartímabil þetta árið. Það gæti jafnvel gefið óvenju háa hitasummu, en fljótlega kemur einmitt hér grein sem fjallar aðeins um það. Njótum meðan er, en bíðum þó með að fagna í mánuð enn, hið minnsta.









Meltunga, Kópavogi. 10.apríl 2025




